Um mig
Ég er prófessor í lífeðlisfræði við Námsbraut í sjúkraþjálfunar við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og formaður námsbrautarstjórnar. Jafnframt er ég forstöðumaður Rannsóknarstofu í hreyfivísindum við sama skóla.
Ég lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans að Laugarvatni í júní 1977. Síðan BS prófi í líffræði frá líffræðiskor Háskóla Íslands í júní 1981 og framhaldsnámi (4. árs nám) í líffræði frá líffræðiskor Háskóla Íslands 1983. Meistaraprófi (MSc) í fiskalífeðlisfræði lauk ég frá Manitóbaháskóla (University of Manitoba) árið 1986 og doktorsprófi (PhD) í fiskalífeðlisfræði frá sama háskóla 1992.
Ég vann sem aðstoðarmaður við rannsóknir á Líffræðistofnun HÍ og við stundakennslu í erfðafræði og lífeðlisfræði við Háskóla Íslands á árunum 1981-1983. Vann við stundakennsla í þroskunarfræði og lífeðlisfræði, og við rannsóknir við Manítóbaháskóla (University of Manitoba) á árunum 1985-1991. Var stundakennari á föstum launum við Háskóla Íslands frá 1. febrúar, 1991, til 31 janúar, 1993. Ráðinn sem lektor í lífeðlisfræði við Námsbraut í sjúkraþjálfun 1. febrúar 1993 og fékk framgang í dósent 1. nóvember 1997.
Á árum áður fékkst ég rannsóknir á prostaglandín- og steraferómónum hjá fiskum. Einnig hef ég fengist við rannsóknir á orkubúskap bleikju. Það verkefni var hluti af stærra samvinnuverkefni á milli Háskóla Íslands, Bændaskólans á Hólum, Veiðimálastofnunar og Rannsóknarstofnunar Landbúnaðarins. Heiti verkefnisins er: Þróun aðfeða til að stjórna vexti og kynþroska hjá bleikju. Á seinni árum hef ég aðallega fengist við rannsóknir á þremur sviðum:
A) Rannsóknir á hreyfingu barna, fullorðinna og aldraðra með spurningarlistum og hröðunarmælum. Rannsóknirnar snúast aðallega um aðferðafræði og úrvinnslu en einnig tengsl hreyfingar við þrek, holdafar og ýmsa aðra heilsufarslega áhættuþætti. Er í rannsóknasamstarfi við fjölda innlendra og erlendra vísindamanna á þessu sviði.
B) Rannsóknir á vöðvarafriti (EMG) og notkun þess til að greina þreytu. Rannsóknirnar beinast að því að skilja hvaða breytungar verða á vöðvarafriti við mismunandi gerðir þreytu og hvaða áhrif það hefur á hreyfimunstur einstaklinga.
C) Rannsóknir og mælingar á þreki. M.a. hefur verið þróað nýtt próf til að mæla mjólkursýruþröskuld undir minni leiðsögn sem er einfaldara og áreiðanlegra en eldri próf.