Minning um taugalíffræðingin Oliver Sacks

Arnar Pálsson, 28/09/2015

Undir lok ágústmánaðar lést taugalíffræðingurinn Oliver Sacks.

Við rituðum stutta minningargrein og kynningu á honum á blogginu - Oliver Sacks taugalíffræðingur og sagnamaður er fallinn frá.

Í kjölfarið bauð Þorgerður E. Sigurðardóttir í Víðsjá okkur til viðtals, sem hún nýtti í þátt um bækur hans, sjúklinga og líf.

---------

Víðsjá - Oliver SacksVíðsjá dagsins verður helguð breska taugafræðingnum og rithöfundinum Oliver Sacks sem féll frá 30. ágúst síðastliðinn. Í þættinum verður rætt um æviferil, rannsóknir og vísindamiðlun Sacks en bækur hans um mannsheilann hafa vakið mikla athygli og verið umskrifaðar bæði fyrir kvikmyndir og leikhús. Viðmælendur í þættinum eru Magnús Karl Magnússon læknir og deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands, Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur. Í þættinum heyrast lestrar Illuga Jökulssonar úr skrifum Sacks sem að hljómuðu í þættinum Frjálsar hendur árið 1988. Tónlistin í þættinum er úr óperunni The man who mistook his wife for a hat eftir Michael Nyman og Vel stillta hljómborðinu eftir Johann Sebastian Bach.

--------

Þorgerður sagði mér reyndar að það væri ótrúlega lítið til í safni útvarpsins um verk Sacks og skrif. Það er ansi merkilegt því hann er tvímælalaust merkur fræðari, og bækur hans hafa fengist í bókabúðum hérlendis um áratugabil. Reyndar er það þannig að bækur hans finnast í vísindahillum allra betri bókabúða erlendis.

Ég mæli eindregið með umfjöllun Víðsjár, og sérstaklega því að þú farir út í bókabúð (eða á bókanetverslun) og náir í bók eftir Sacks.

http://www.oliversacks.com/