Skrifaði pistil fyrir vísindavefinn.
„Hafa drepsóttir haft áhrif á erfðaefni og þróun mannsins?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=86400
Faraldrar eru ein alvarlegasta áskorun sem lífverur standa frammi fyrir. Í sögu mannkyns eru þekktir nokkrir sérstaklega skæðir heimsfaraldrar, eins og spánska veikin, svartidauði og HIV, sem leiddu til dauða milljóna einstaklinga. Í ljósi þeirrar staðreyndar að breytingar á tíðni gerða[1] yfir kynslóðir leiða til þróunar lífveranna er eðlilegt að spyrja hvort faraldrar sem deyða eða örkumla tíund eða meira af stofninum hafi breytt erfðasamsetningu manna og þannig haft áhrif á þróun okkar sem tegundar.
Til að svara spurningunni má líta til svartidauða (e. bubonic plague). Sjúkdómurinn orsakast af smiti af stofni bakteríunnar Yersinia pestis og er einn alvarlegasti smitsjúkdómur sem sögur fara af. Talið er að þrír stórir faraldrar hafi breiðst um jörðina síðustu 2000 ár, sá fyrsti á 6. öld, annar á 13.-14. öld og svo að mestu staðbundinn faraldur í Asíu undir lok 19. aldar.[2] Fólk var varnarlaust gegn svartadauða og hjó sjúkdómurinn stór skörð í mörg samfélög manna. Þótt um smitsjúkdóm hafi verið að ræða var það að vissu leyti háð erfðasamsetningu hvernig fólki farnaðist á tímum sjúkdómsins. Það hafði áhrif á erfðasamsetningu hópsins.
...