Breytileiki í kyni
Öll spurningin hljóðaði svona:
Eru kynin bara tvö og hver er munurinn á þeim?
Stutta svarið við spurningunni er nei. Fjölbreytileiki er mikill í stofni manna og annarra dýra. Eðlilegast er að hugsa um fjölbreytt róf kyntengdra einkenna, frekar en tvö aðgreind kyn.
Lengra svar
Líffræði kyns er flókin. Kynæxlandi lífverur eru mjög fjölbreyttar í formi og fjölgunaraðferðum. Sumar framleiða jafnstórar kynfrumur, aðrar misstórar. Kynfrumur sumra tegunda geta ekki hreyft sig á meðan kynfrumur annarra geta synt. Syndandi sæðisfrumur eru almennt litlar og í þeim tegundum er yfirleitt mikill stærðarmunur á kynfrumum kynjanna.[1]
Mörg dýr styðjast við ytri frjóvgun, en nokkur innri frjóvgun. Sumar plöntur og dýr fjölga sér einu sinni á ævinni, aðrar yfir mörg ár eða aldir, eins og til dæmis risafurur. Einnig er kyn kynæxlandi lífvera fjölþætt, birtist í mismunandi eiginleikum og samræmist ekki einfaldri sýn margra manna á kyn. Tvíkynja dýr eru þekkt, sem og dýr sem skipta um kyn samfara vexti. Af þessu er ljóst að kyn lífvera á jörðinni er fjölbreytt og flókið fyrirbæri.
Arnar Pálsson. „Eru kynin bara tvö?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2025, sótt 1. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87604.
Arnar Pálsson. „Hvað eru til mörg kyn í náttúrunni?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2025, sótt 1. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87603.
Arnar Pálsson. „Hvað hefur áhrif á kyneinkenni og kynhneigð?“ Vísindavefurinn, 5. febrúar 2025, sótt 1. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87491.