Category: General biology
Vespur sem temja veirur, samtal á RÚV
Stór hópur sníkjuvespa hafa gert það ómögulega, komið böndum á veirur sem sýktu þær og hagnýt sér til framdráttar.
Sníkjuvespur verpa eggjum í lirfur annara skordýra, og nærast afkomendur þeirra á holdi hýsilsins og klekjast þaðan út þegar þroskanum lýkur. Eins og í alltaf þegar hýsill og sníkill/smitvaldur takast á verður samþróun á milli þeirras, sem er best lýst sem vopnakapphlaupi. Hýsillinn þróar varnir, og sníkillinn tæki til innrásar og mótleiki við vörnunum. Í tilfelli sníkjuvespa eru veirur hluti af þessu vopnabúri. Þær bera í erfðaefni sínu afrit af genum fornra veira, sem eru síðan virkjuð í kynkirtlum kvendýranna áður en þær verpa. Með frjóvguðum eggjunum fylgir góður slatti af veiruögnum, sem bera í sér DNA og prótín sem herja á ónæmiskerfi hýsilsins og aðrar varnir.
Við fjölluðum um þetta í samtali við Guðmund Pálsson í Samfélagi RÚV fimmtudaginn 23. maí 2024. Samtalið fór um víðan völl og það viðurkennist að við héldum okkur ekki við handritið. Afrit af viðtalinu má finna í spilara rúv og á þessum tengli (um einhvert skeið).
https://www.ruv.is/utvarp/spila/samfelagid/23617/7hl68j
Guðmundur kallaði okkur fyrst til viðtals á RÚV árið 2007, til að spjalla um klónun Dollý. Síðan þá höfum við notið þeirra forréttinda að ræða við Guðmund og samstarfsmenn um margskonar erfðafræðileg og líffræðileg málefni. Honum þakka ég einstaklega gott samstarf og kunningsskap. Þessi viðtöl hafa verið mjög skemmtileg fyrir mig sem vísindamann, og beint augum mínum að mörgum sniðugum rannsóknum. Mörg viðtölin urðu einnig kveikjan að pistlum sem við rituðum fyrir vísindavefinn. Bestu þakkir Guðmundur.
Maurar í Perlunni
Mauragengið verður með sýningu á auramaurabúi í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands í Perlunni sunnudaginn 5 maí nk.
Opið hús frá 14 til 16, allir velkomnir.
Við Ragnhildur Guðmundsdóttir fjölluðum um þetta í morgunútvarpi rásar 2 þann 2. maí.
Maurar Íslands
Erling Ólafsson á Náttúrufræðistofnun Íslands skráði um árabil maura sem fundust hérlendis. Í flestum tilfellum voru það maurar sem bárust með timbri, mat eða öðrum vörum sem nýkomnar voru frá útlöndum. En sumar tegundir, eins og húsamaur, virtust hafa sest hér að.
Ný er hafið nýtt rannsóknarverkefni sem miðar því að kortleggja nákvæmar dreifingu maura í þéttbýli hérlendis, hvaða tegundir finnast hér, í hvaða hverfum, hvenær má sjá drottningar á flugi og fleira í þeim dúr.
Verkefnið nýtist einnig til að vekja athygli fólks á landnámi tegunda hérlendis, áhrifum mannsins á vistkerfi og vistkerfi borga almennt.
Að meistaraverkefni vinnur Marco Mancini og honum til aðstoðar í sumar er Andreas Guðmundsson. Þeir hafa t.a.m. útbúið vefsíðuna maurar.hi.is þar sem finna má fróðleik um maura, myndir, myndbönd og spurningaleiki.
Til að vekja athygli á verkefninu voru einnig útbúnar síður á samfélagsmiðlum.
Sá hluti verkefnisins sem snýr að kynningu fyrir almenningi er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og nýtur einnig fulltingis vinnumálastofnunar.
Leiðbeinendur Marcos í meistaraverkefninu eru Arnar Pálsson, Mariana Tamayo og James Wetterer.