Category: Uncategorized

Minningarorð Sigríður H. Þorbjarnardóttir

Arnar Pálsson, 07/01/2016

Sigríður Helga Þorbjarnardóttir sérfræðingur og umsjónarmaður meistaraverkefnis míns lést 15. nóvember 2015. Hún fæddist 13. maí 1948. Hér fylgir minningargrein okkar um Sigríði, sem er sárt og innilega saknað.

Við minnumst Sigríðar Helgu Þorbjarnardóttur með hlýju og þakklæti. Hún var dásamleg kona og fjölhæf með eindæmum, göngugarpur og ferðafrömuður, hafði náðargáfu fyrir sameindalíffræði, kennari af guðs náð og farsæll formaður Líffræðifélags Íslands. Margir voru þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga með Siggu á vegum Ferðafélagsins eða í öðrum ferðum um nágrenni Reykjavíkur. Ferðir sameindahópsins t.d. á Keili og Reynivallaháls eru okkur sérstaklega minnistæðar.

Í samstarfi við Guðmund Eggertsson stundaði hún merkar rannsóknir og kenndi verklegar æfingar í erfðafræði og sameindaerfðafræði. Minningin um Siggu með bakteríuskálar á lofti í kennslustofunni lifir með flestum líffræðingum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands eftir 1980. Hennar einstaka og ljúfa persóna hafði jákvæð áhrif á nemendur og gerði þungar lexíur auðveldari viðfangs. Seinna fékk ég að kenna með Sigríði. Til að undirbúa verklega tíma í erfðafræði fórum við saman í fjöru að sækja þang – til að rækta þangflugulirfur – og espuðum lauk til spírunar. Verklegu tímarnir voru hennar heimavöllur. Hún þekkti efnið inn og út og miðlaði til nemendanna af alúð og nærgætni.

Það voru sérstök forréttindi að kenna með Siggu og fá að stunda rannsóknir undir hennar leiðsögn. Sigga var nærgætinn og mildur leiðbeinandi, í raun frekar samstarfsmaður en yfirmaður. Hún kenndi framhaldsnemum fræði og aðferðir, og það sem mikilvægara er, hvernig yfirstíga má vandamál sem upp koma í flóknum tilraunum. Undir hennar verndarvæng fengu nemar að þroskast og finna sína fjöl. Hún var yfirvegaður og grandvar vísindamaður, laus við stærilæti eða yfirgang. Lagni hennar með gen og frumur var annáluð, í hennar höndum fengust bakteríur til stórkostlegra verka.

Sigríður var formaður Líffræðifélags Íslands 1988 til 1991, og var starfið í miklum blóma á þeim árum. Hún var vel metin í samfélagi íslenskra líffræðinga og góð fyrirmynd um hvernig brúa má víddir líffræðinnar, sem sameindalíffræðingur með brennandi náttúruást eða náttúruunnandi sem rannsakaði leyndardóma genanna.

Það er synd að Sigga skuli ekki fá að njóta fjölskyldu sinnar, vina og starfs lengur en skyldi. Ég, sem nemi, samstarfsmaður og vinur, sakna hennar sárt.

Sem vinur og fyrir hönd Líffræðifélags Íslands votta ég aðstandendum og vinum hennar samhug og virðingu.

Arnar Pálsson, dósent og formaður Líffræðifélags Íslands.

(English) IceBio 2015

Arnar Pálsson, 23/11/2015

Sorry this part has not been translated

Post doc available: The role of transcriptional and regulatory changes during compensatory evolution

Arnar Pálsson, 02/07/2015

Which principles influence the rewiring and tuning of gene regulatory networks? How do those network react to genetic perturbations? We are seeking a post-doc to tackle those and related questions in project utilizing populations of Drosophila (fruit flies) that have undergone compensatory adaptation using experimental evolution and artificial selection. The project involves the analysis of tissue specific RNA-seq and numerical analyses. The ideal candidate is strong in evolutionary genetics, statistical and bioinformatic analyses and with capable hands for molecular biology. Excellent communication skills, main focus on writing, are required, as is a solid publication record. The candidate will be encouraged (and given time) to develop their own research program.

This project is built on hypothesis that sprung out of work on indel polymorphism in the even skipped stripes 3+7 enhancer.

Continue reading 'Post doc available: The role of transcriptional and regulatory changes during compensatory evolution'»

Twitter prufa

Arnar Pálsson, 13/03/2014

Sorry this part has not been translated

Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

Arnar Pálsson, 20/02/2014

Pétur H. Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2013 og á vefnum vísir.is - Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

-----------------------

Fátt er þjóðfélaginu mikilvægara nú en að skapa hagnýta þekkingu og skapa ný verðmæti. Þekkingin sem ný fyrirtæki eru byggð á er oftar en ekki afurð vísindalegra framfara. Og þær byggjast oftast á fyrirbæri sem landinn heyrir lítið um, svokölluðum opinberum samkeppnissjóðum.

Samkeppnissjóðir styrkja bæði grunnrannsóknir og tækniþróun með hagnýtingu og markaðssetningu að markmiði. Fyrirkomulagið er þannig að vísindamenn og frumkvöðlar keppa um fjármagn með því að senda inn ítarlegar áætlanir, sem metnar eru af fagfólki. Bestu hugmyndirnar, aðferðirnar og verkefnin fá styrki.

Grunnrannsóknir eru ákaflega mikilvægar vegna þess að þær skapa þekkingu sem er undirstaða hagnýtingar og annarra framfara. Miklu skiptir að hagnýtingin er sjaldnast augljós í upphafi. Með öðrum orðum, það er oftast ófyrirsjáanlegt hvaða grunnrannsóknir reynast stökkpallur fyrir hagnýtingu síðar meir. Lítið dæmi eru rannsóknir á frostþoli í skordýrum, sem síðar nýttust til að geyma líffæri fyrir ígræðslu. Ekki síður mikilvæg afurð grunnrannsókna er þjálfun fólks í að rannsaka og leysa vandamál.

Með því að styðja við samkeppnissjóði og rannsóknarháskóla græðir Ísland á nokkra vegu:

  1. Vísindamenn okkar geta uppgötvað nýjar staðreyndir eða lögmál, sem skipta okkur og umheiminn máli. Dæmi um þekkingu af þessu tagi má nefna nýlegar rannsóknir á eldgosum, krabbameinum og lífríki hafsins.
  2. Útskrifaðir nemendur með vísindalegan skilning og þjálfun geta tileinkað sér nýjustu framfarir í heimi vísinda og tækni. Slíkt fólk er forsenda þess að við getum hagnýtt erlenda þekkingu, heimfært hana upp á íslenskar aðstæður og jafnvel betrumbætt.
  3. Rannsóknarnám þjálfar nýja kynslóð vísindamanna sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Þær áskoranir eru margar ófyrirsjáanlegar og því nauðsynlegt að þjálfa fólk í vísindalegum vinnubrögðum, sem er aðferð til að takast á við opnar spurningar.
  4. Í rannsóknarháskólum kenna hæfustu einstaklingar landsins á hverju fræðasviði, sem hafa jafnan lært við bestu háskóla erlendis. Íslenskir nemendur kynnast bæði óleystum vandamálum og nýjustu aðferðum, sem eru kveikjan að nýjum lausnum og mögulega fyrirtækjum.

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhugaður margs konar niðurskurður í rannsóknum og nýsköpun, sérstaklega á samkeppnissjóðum um tugi prósenta milli ára.

Áframhaldandi niðurskurður er áætlaður næstu árin. Jafnvel alvarlegra er þó að þrátt fyrir að Íslendingar verji tiltölulega háu hlutfalli landsframleiðslu í rannsóknir (2,6%), þá setjum við einungis 14% þess í samkeppnissjóði. Til samanburðar fara 30 – 40% rannsóknarpeninga norrænna skattborgara í samkeppnissjóði. Til að bæta gráu ofan á svart hefur hlutfallslegt framlag okkar til rannsókna lækkað um 8% frá 2009 öfugt t.d. við Finna sem juku fjármagn til rannsókna og nýsköpunar í kreppunni fyrir aldamót. Finnar vissu að samkeppnissjóðir eru besta leiðin til að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun, líka á erfiðum tímum.

Íslensk vísindi og nýsköpun geta bætt efnahag og þjóðfélag landsins ef við berum gæfu til að verja (og stækka sem fyrst) samkeppnissjóðina og styðja við rannsóknarháskólana.

Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands

Arnar Pálsson, 27/05/2010

Þessi greinarstúfur var skrifaður af okkur og Pétri Henry Petersen dósent við Læknadeild HÍ, sem birtist í Fréttablaðinu 10. 10. 2013 (Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands). Frekari útskýringar og heimildir má sjá neðst.

--------------------

Ríkistofnanir bregðast ólíkt við fjársvelti og kröfum um niðurskurð og hagræðingu. Háskóli Íslands (HÍ) hefur undanfarin ár tekið niðurskurði, vanefndum ríkis á samningum, breytingum menntamálaráðaneytis á reiknisflokkum og skorti á stuðningi við grunnrannsóknir með því að rétta fram hinn vangann.

HÍ hefur borið sig vel og lagt áherslu á fjölda innritaðra nemenda, fjölda framhaldsnema og góða stöðu á einum lista yfir ágæti háskóla (sem er að mestu leyti vegna erlendrar samvinnu í vísindum Íslenskrar erfðagreiningar og Hjartaverndar)*.

Halda mætti að innra starf HÍ væri með ágætum en það er ansi fjarri lagi. Margir hafa bent á ótal atriði sem bæta þarf innan HÍ. Í stuttu máli er ekki hægt að reka rannsóknarháskóla með litlu og dvínandi fjármagni án þess að það bitni á gæðum.

Hluti af vandanum er að yfirstjórn HÍ virðist ekki skilja vandamál einstakra deilda eða rannsóknarsviða. Markmið HÍ eru skýr (gæðakennsla og gæðarannsóknir) en leiðirnar sem farnar eru til að ná þeim eru furðulegar á köflum.

Sem dæmi má taka úthlutun á afmælisgjöf Alþingis vegna aldarafmælis HÍ. Yfirstjórn HÍ ákvað að nýta afmælisgjöfina á nokkra vegu, í stoðþjónustu, innviði, nýdoktora og nýja kennara.

En útdeiling fjármuna í þessi atriði þarfnast heilmikillar umsýslu sem hefur ekki verið gagnsæ. Einfaldast og líklega áhrifaríkast hefði verið að setja stóran hluta afmælisgjafarinnar í rannsóknasjóð HÍ og útdeila honum beint til þeirra kennara og framhaldsnema sem eru að stunda rannsóknir. Þannig hefðu peningarnir nýst strax í erfiðu árferði.

Sussað á vísindafólk**
Mjög skiptar skoðanir eru innan HÍ um hvernig bæta eigi ástandið. Á tímabili var sussað á vísindafólk HÍ fyrir að benda á brotalamir eða „tala niður“ Háskóla Íslands. Það var ekki álitið heppilegt, sérstaklega ef yfirstjórn HÍ stóð í samningum við yfirvöld um einstök mál, að einstakir starfsmenn væru að gagnrýna menntastefnu stjórnvalda, stjórnsýslu eða rekstur HÍ.
Hugmyndin var líklega sú að HÍ ætti að hafa eina skýra stefnu og alls ekki margar ólíkar meiningar. Orsökin er að hluta sú að í gamla daga fóru allmargir starfsmenn HÍ í ráðuneytin til að betla, þ.e.a.s. færa rök fyrir fjárstuðningi við einstök verkefni eða stofnanir. Stjórnvöldum leiddist það suð og bað HÍ að hafa hemil á sínu fólki.

Á meðan HÍ sat þægur í kreppunni ákváðu aðrar ríkisstofnanir að lýsa raunveruleikanum. Landspítalinn minnir yfirvöld og landsmenn reglulega á áhrif fjárskorts á rekstur og viðhald spítalans. Matís kvartaði þegar IPA-styrkirnir brugðust. Hvorir tveggja fá áheyrn ráðamanna og loforð um úrlausn. Athugið, hér er ekki lagt neitt mat á hlutfallslegt mikilvægi ólíkra stofnana ríkisins, heldur bara fjallað um viðbrögð þeirra við fjárskorti.

Sannarlega eru hlutverk Landspítala og HÍ ólík. Á meðan flestir sjá augljóst gildi góðrar heilbrigðisþjónustu virðast færri átta sig almennilega á mikilvægi háskólamenntunar og rannsókna.

Samfélagið þarfnast vel menntaðs fólks fyrir margs konar störf og hlutverk sem oft er erfitt að sjá fyrir. Við þurfum góða lækna, vísindamenn, verkfræðinga, fjármálastjóra, félagsfræðinga og kennara.

HÍ hefur alltaf verið sparneytinn, t.d. miðað við norræna eða breska háskóla, en hann getur ekki keyrt á bensíngufu. Ef kenna á fleiri nemendum fyrir færri krónur mun gæðum námsins hraka. Og ef styrkir til rannsókna eru skornir niður munu íslensk vísindi ekki standa undir framförum og betra mannlífi.

Gæði í háskólastarfi byggja að miklu leyti á því að háskólakennarar og nemendur séu virkir í rannsóknum. Án rannsókna munu vísinda- og tækniframfarir framtíðar ekki vera íslenskar og fyrirtækin sem græða á þeim ekki heldur.

Rannsóknir leiða einnig af sér upplýst fólk og þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, hvorutveggja nauðsynlegt þjóðinni. Forsenda virkra rannsókna er að hlúa að rannsóknarsjóði HÍ og að tryggja fjárframlög til rannsóknarsjóða Rannís, sem fjármagna stóran hluta allra rannsókna hérlendis.***

-------------------

* Gestaprófessorar draga upp einkunnir HÍ - var skoðað í fyrra sbr. Decode dregur upp Háskóla Íslands (með fyrirvara um að greiningin var gerð á frekar einfaldan hátt). Kári Stefánsson hefur einnig stært sig af því að Decode hafi komið HÍ inn á Times Higher Education listann - í viðtali við Fréttatímann 2011 (Montinn að eiga þátt í frábærum árangri ).

** Millifyrirsögn er blaðsins.

*** Drög til fjárlaga miða að því að draga aftur úr fjármagni til rannsóknarsjóða. Þrátt fyrir að þeir séu mjög litlir hérlendis miðað við nágrannalönd okkar.