Kerfisbundinn launamunur fræðagreina og kynja við opinbera háskóla
Eftirfarandi grein eftir nokkra kennara við HÍ birtist í Fréttablaðinu 10. feb. 2016.
Kerfisbundinn launamunur fræðagreina og kynja við opinbera háskóla
Við opinbera háskóla á Íslandi er notast við svokallað vinnumatskerfi. Vinnumatskerfið byggir á talningum á einingum m.a. fjölda greina, tilvitnana, útskrifaðra nema, bóka o.s.frv. Kerfið hefur bein áhrif á launabónusa, launaflokk, framgöngu í starfi, eftirlaun, rétt á rannsóknarleyfum og flæði fjármagns til deilda. Kerfið er hálfgert aðhlátursefni á erlendri grund. Ástæðan er sú að ekki er hægt að bera saman ólíkar fræðagreinar eða einstaklinga sem takast á við ólík viðfangsefni með talningum á greinum.
Þrátt fyrir mikla gagnrýni í gegnum tíðina hafa fáar breytingar verið gerðar til bóta. Kerfið var hannað til að meta framlag í rannsóknum og launa ritvirkni, en er nú notað til að útdeila margvíslegum gæðum og peningum innan háskóla og hefur bein áhrif á laun. Nú stendur yfir úttekt á vinnumatskerfinu og jákvæðum og neikvæðum afleiðingum þess. Margir koma að þessari úttekt og sýnist sitt hverjum. Sýn manna stjórnast eðlilega nokkuð af því hve mikið viðkomandi fær í sinn hlut úr kerfinu.
Athyglisvert er að margir er koma beint að jafningjastjórnun vísindastarfs (að sjálfsögðu allt virt og virkt fræðafólk) hagnast beint eða óbeint á kerfinu og eiga því erfitt með að gagnrýna það. Einnig eru í nefndum sem eiga að meta kerfið innan frá, aðilar úr fögum þar sem birtingartíðni er há. Það er nokkuð ljóst að þessir aðilar eru vanhæfir, í skilningi stjórnsýslulaga, til að meta og móta kerfið, þar sem þeir eiga beinna og óbeinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Úttektin sem nú stendur yfir er því meingölluð. Besta leiðin til að meta kerfið hlutlægt og vísindalega er utanaðkomandi mat erlends vísindafólks, án þess að byggt sé á sjálfsmati kerfisins og þeirra sem það þjónar. Við og fleiri höfum ítrekað bent á þetta.
Konur fá minna greitt en karlar
Annar athyglisverður eiginleiki vinnumatskerfisins er sá að konur fá minna greitt en karlar. Tölur úr vinnumatssjóði Félags háskólakennara sýna að það munar að meðaltali hundruðum þúsunda á ári hvað konur og karlar fá úr vinnumatskerfinu. Líklegt má telja að önnur áhrif t.d. á launaflokka og framgang í starfi séu síst minni. Ástæður gætu verið margar, t.d. aldursdreifing eða kynjahlutföll í mismunandi greinum, sem svo hafa mismunandi birtingarhefðir.
Brýnt er að greina vandlega hvað liggur að baki þessum kynjamun á greiðslum úr vinnumatskerfinu og öðrum áhrifum þess. Hvernig þessi launamismunun hefur þróast og dafnað í skjóli sérhagsmunagæslu, stéttarfélaga, háskólaráðs og vísindanefnda er verðugt rannsóknarefni í sjálfu sér. Kerfisbundinn launamunur kynja er óásættanlegur, á sama hátt og óásættanlegt er að fræðafólk sé metið eftir talningum eingöngu og það er óásættanlegt að fólk hafi áhrif á mótun stefnu sem umbunar því sjálfu, á kostnað starfsfélaga sinna.
Arnar Pálsson dósent við HÍ
Erna Magnúsdóttir rannsóknasérfræðingur við HÍ
Guðrún Valdimarsdóttir lektor við HÍ
Hákon Hrafn Sigurðsson prófessor við HÍ
Helga Ögmundsdóttir prófessor við HÍ
Jórunn E. Eyfjörð prófessor við HÍ
Ólafur S. Andrésson prófessor við HÍ
Pétur Henry Petersen dósent við HÍ
Sigríður Rut Fransdóttir lektor við HÍ
Stefán Þ. Sigurðsson dósent við HÍ
Zophonías O. Jónsson prófessor við HÍ
Þór Eysteinsson prófessor við HÍ
Minningarorð Sigríður H. Þorbjarnardóttir
Sigríður Helga Þorbjarnardóttir sérfræðingur og umsjónarmaður meistaraverkefnis míns lést 15. nóvember 2015. Hún fæddist 13. maí 1948. Hér fylgir minningargrein okkar um Sigríði, sem er sárt og innilega saknað.
Við minnumst Sigríðar Helgu Þorbjarnardóttur með hlýju og þakklæti. Hún var dásamleg kona og fjölhæf með eindæmum, göngugarpur og ferðafrömuður, hafði náðargáfu fyrir sameindalíffræði, kennari af guðs náð og farsæll formaður Líffræðifélags Íslands. Margir voru þeirrar gæfu aðnjótandi að ganga með Siggu á vegum Ferðafélagsins eða í öðrum ferðum um nágrenni Reykjavíkur. Ferðir sameindahópsins t.d. á Keili og Reynivallaháls eru okkur sérstaklega minnistæðar.
Í samstarfi við Guðmund Eggertsson stundaði hún merkar rannsóknir og kenndi verklegar æfingar í erfðafræði og sameindaerfðafræði. Minningin um Siggu með bakteríuskálar á lofti í kennslustofunni lifir með flestum líffræðingum sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands eftir 1980. Hennar einstaka og ljúfa persóna hafði jákvæð áhrif á nemendur og gerði þungar lexíur auðveldari viðfangs. Seinna fékk ég að kenna með Sigríði. Til að undirbúa verklega tíma í erfðafræði fórum við saman í fjöru að sækja þang – til að rækta þangflugulirfur – og espuðum lauk til spírunar. Verklegu tímarnir voru hennar heimavöllur. Hún þekkti efnið inn og út og miðlaði til nemendanna af alúð og nærgætni.
Það voru sérstök forréttindi að kenna með Siggu og fá að stunda rannsóknir undir hennar leiðsögn. Sigga var nærgætinn og mildur leiðbeinandi, í raun frekar samstarfsmaður en yfirmaður. Hún kenndi framhaldsnemum fræði og aðferðir, og það sem mikilvægara er, hvernig yfirstíga má vandamál sem upp koma í flóknum tilraunum. Undir hennar verndarvæng fengu nemar að þroskast og finna sína fjöl. Hún var yfirvegaður og grandvar vísindamaður, laus við stærilæti eða yfirgang. Lagni hennar með gen og frumur var annáluð, í hennar höndum fengust bakteríur til stórkostlegra verka.
Sigríður var formaður Líffræðifélags Íslands 1988 til 1991, og var starfið í miklum blóma á þeim árum. Hún var vel metin í samfélagi íslenskra líffræðinga og góð fyrirmynd um hvernig brúa má víddir líffræðinnar, sem sameindalíffræðingur með brennandi náttúruást eða náttúruunnandi sem rannsakaði leyndardóma genanna.
Það er synd að Sigga skuli ekki fá að njóta fjölskyldu sinnar, vina og starfs lengur en skyldi. Ég, sem nemi, samstarfsmaður og vinur, sakna hennar sárt.
Sem vinur og fyrir hönd Líffræðifélags Íslands votta ég aðstandendum og vinum hennar samhug og virðingu.
Arnar Pálsson, dósent og formaður Líffræðifélags Íslands.
Leyndardómar gena, baktería og uppruna lífs - ritrýni í Náttúrufræðingnum
Við rituðum stutta rýni um nýlega bók Guðmundar Eggertssonar, Ráðgáta lífsins, sem Bjartur gaf út 2014. Greinarstúfurinn kom út í Náttúrufræðingnum og hefst svo.
Leyndardómar gena, baktería og uppruna lífs
Rannsóknir á erfðum, frumum og lífefnum gátu af sér sameindaerfðafræðina á fyrstu áratugum síðustu aldar. Á þeim árum nam Guðmundur Eggertsson í Kaupmannahöfn og kynntist rannsóknum sem lögðu grunninn að sameindaerfðafræðinni. Rannsóknir Guðmundar snerust um gen baktería og kerfin sem þýða erfðatáknmálið, og síðar um erfðir hitakærra baktería. Í nýlegu ritgerðasafni, Ráðgáta lífsins, fjallar Guðmundur um nokkur lykilatriði sameindaerfðafræðinnar og tilgátur og rannsóknir á uppruna lífsins.
Continue reading 'Leyndardómar gena, baktería og uppruna lífs - ritrýni í Náttúrufræðingnum'»
Minning um taugalíffræðingin Oliver Sacks
Undir lok ágústmánaðar lést taugalíffræðingurinn Oliver Sacks.
Við rituðum stutta minningargrein og kynningu á honum á blogginu - Oliver Sacks taugalíffræðingur og sagnamaður er fallinn frá.
Í kjölfarið bauð Þorgerður E. Sigurðardóttir í Víðsjá okkur til viðtals, sem hún nýtti í þátt um bækur hans, sjúklinga og líf.
---------
Víðsjá - Oliver SacksVíðsjá dagsins verður helguð breska taugafræðingnum og rithöfundinum Oliver Sacks sem féll frá 30. ágúst síðastliðinn. Í þættinum verður rætt um æviferil, rannsóknir og vísindamiðlun Sacks en bækur hans um mannsheilann hafa vakið mikla athygli og verið umskrifaðar bæði fyrir kvikmyndir og leikhús. Viðmælendur í þættinum eru Magnús Karl Magnússon læknir og deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands, Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur. Í þættinum heyrast lestrar Illuga Jökulssonar úr skrifum Sacks sem að hljómuðu í þættinum Frjálsar hendur árið 1988. Tónlistin í þættinum er úr óperunni The man who mistook his wife for a hat eftir Michael Nyman og Vel stillta hljómborðinu eftir Johann Sebastian Bach.
--------
Þorgerður sagði mér reyndar að það væri ótrúlega lítið til í safni útvarpsins um verk Sacks og skrif. Það er ansi merkilegt því hann er tvímælalaust merkur fræðari, og bækur hans hafa fengist í bókabúðum hérlendis um áratugabil. Reyndar er það þannig að bækur hans finnast í vísindahillum allra betri bókabúða erlendis.
Ég mæli eindregið með umfjöllun Víðsjár, og sérstaklega því að þú farir út í bókabúð (eða á bókanetverslun) og náir í bók eftir Sacks.