Hver var Thomas Morgan og hvert var hans framlag til erfðafræðinnar?

Arnar Pálsson, 21/08/2014

Hver var Thomas Morgan og hvert var hans framlag til erfðafræðinnar?

Arnar Pálsson. „Hver var Thomas Morgan og hvert var hans framlag til erfðafræðinnar?“. Vísindavefurinn 6.5.2011. http://visindavefur.is/?id=59655.

Thomas Hunt Morgan fæddist 25. september 1866, í Lexington, Kentucky, í Bandaríkjunum en lést 4. desember 1945. Bakgrunnur Morgans var í þroskunarfræði en hans merkilegustu uppgötvanir voru á sviði erfðafræði. Hann lauk doktorsprófi (1899) frá John Hopkins-háskóla í Baltimore, þar sem hann rannsakaði þroskun sæköngulóa. Hann fékk stöðu dósents í líffræði við Bryn Mawr College for Women árið 1891 og starfaði þar í 13 ár, en tók þá við stöðu prófessors í tilraunadýrafræði (e. Experimental Zoology) við Columbia-háskóla í New York. Árið 1928 tók hann við stöðu prófessors í líffræði og sem forstöðumaður G. Kerckhoff-tilraunastofunnar við California Institute of Technology (Caltech) í Pasadena. Árið 1933 fékk hann Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvanir sínar á mikilvægi litninga fyrir erfðir. Hann starfaði við Caltech til dauðadags. Morgan fékk áhuga á erfðafræði upp úr aldamótunum 1900, þegar lögmál Mendels voru enduruppgötvuð af Hugo de Vries (1848–1935) og Carl Correns (1864–1933).* Hann vann fyrst með mýs og rottur en vegna þess að erfðafræði þarfnast tilrauna sem spanna margar kynslóðir, sneri hann sér um 1907 að ávaxtaflugunni (Drosophila melanogaster), sem William E. Castle (1867–1962) hafði prufukeyrt árið 1901. Ávaxtaflugur mynda fullvaxta afkvæmi á tæpum tveim vikum við herbergishita, en engu að síður þurfti Morgan að bíða eftir niðurstöðum. Hugmynd hans var að fjölga flugum, æxla þeim saman og leita að frávikum. Mendel vann með ertur og hafði fundið litaafbrigði, hrukkaðar og sléttar baunir, dvergvaxin afbrigði og svo framvegis, en Morgan fann ekkert áþekkt. Hann játaði við gest á tilraunstofunni að hann væri við það að gefast upp, „Tveggja ára vinna er farinn í súginn, ég hef æxlað flugum allan þennan tíma og hef ekkert upp úr krafsinu“.** En snemma árs 1910 uppskar hann laun erfiðis síns. Í einni flöskunni fann hann hvíteygða karlflugu. Venjulegar ávaxtaflugur eru rauðeygðar eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Hann gerði eins og Mendel, æxlaði saman einstaklingum og fylgdi eftir öllum afkvæmum. Hvíteygða karlflugan eignaðist bara rauðeygð afkvæmi. Það sýnir að rauða samsæta gensins er ríkjandi yfir þeirri hvítu. Því næst æxlaði hann saman afkomendunum, bræðrum við systur, og þá birtust hvíteygðar flugur aftur. Honum til mikillar undrunar voru hvíteygðu flugurnar allar karlkyns. Hann hafði fundið erfðaþátt sem var bundinn við kyn.

Ávaxtafluga (Drosophila melanogaster).
Spendýr og ávaxtaflugur eru eins að því leyti að kvendýrin eru XX og karldýrin XY (sjá svar Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga?). Hvít- og rauðeygðar karlflugur komu fram í jöfnum hlutföllum, sem studdi þá túlkun að um X-tengt gen væri að ræða (sjá skýringarmynd).

Erfðir hvíta gensins.Morgan framkvæmdi fleiri æxlanir, skoðaði litninga undir smásjá og setti niðurstöður sínar fram í greininni "Sex Limited Inheritance in Drosophila" í Science í júlí 1910. Í greininni og annarri sem fylgdi ári síðar sýndi hann fram á að

  1. gen eru á litningum,
  2. hvert gen er takmarkað við einn litning,
  3. augnlitsgenið white er á X-litningnum en finnst ekki á Y-litningnum,
  4. villigerðar (wild-type) útgáfan (sem myndar rauð augu) - kallað allel eða samsæta - er ríkjandi yfir stökkbreytingunni (með hvít augu).

Hann kallaði genið white, eftir einkenni stökkbreytingarinnar, ekki eftir afurð gensins eða starfsemi. Slíkar nafngiftir urðu að hefð innan samfélags erfðafræðinga, yellow-flugur eru ljósar á lit, á meðan ebony eru dökkar, flugur með stökkbreytingu í wingless-geninu vantar vængi og breyting í hedgehog gerir lirfuna líkasta broddgelti. Morgan hafði góða nemendur sér til halds og trausts: Alfred Sturtevant (1891–1970), þá á þriðja ári í grunnnámi, bjó til fyrsta genakortið, Calvin Bridges (1889–1938) átti eftir að búa til fyrsta raunkortið af litningi og Hermann Muller (1890–1967) fékk sjálfur Nóbelsverðlaunin fyrir að sýna að röntgengeislar valda stökkbreytingum. Þessir fjórir, ásamt öðrum meðlimum í fluguherberginu í Columbia og fluguerfðafræðingar settu einnig ný viðmið í vísindalegum vinnubrögðum. Hugsun nítjándu aldar var sú að hver vísindamaður ynni einn að ákveðnu verkefni, en í fluguherberginu skiptust menn á hugmyndum, flugustofnum og aðferðum án þess að blikka auga. Upp spratt sú hugsjón að efniviður vísindastarfs, en ekki bara niðurstöðurnar, ætti að vera öllum aðgengilegur. Þessi heimspeki mótaði samfélag erfðafræðinga sem unnu með ávaxtaflugur og sjá má merki um hana í nútíma líffræði og læknavísindum. Bandaríska heilbrigðistofnunin krefst þess til að mynda að allur efniviður, stökkbreyttar mýs, DNA-raðir, klónuð gen og svo framvegis standi vísindasamfélaginu til boða. Þessi hugsun sést best á flybase.org, vefsíðu sem helguð er ávaxtaflugunni. Flybase er samhæfður gagngrunnur sem spannar þekkingu á erfðum, sameindalíffræði, þroskun og atferli flugunnar. Þar má finna upplýsingar um hvert hinna um það bil 13.000 gena ávaxtaflugunnar (maðurinn er með um það bil 21.000 gen), með því að slá inn nafn gens, til dæmis yellow eða skuld. Þar má einnig panta stofna með white-stökkbreytingunni, sem Thomas H. Morgan fann. Lítið mál er að halda lífi í flugustofni heima við, með banönum, maísmjöli og örlitlu geri í flösku. Heimildir og myndir:


* Eftir Einari Árnasyni, Arfleifð Darwins 2010: „Erich von Tschermak (1871–1962) er stundum einnig sagður hafa enduruppgötvað lögmál Mendels. Curt Stern (1902–1981) og Eva R. Sherwood álíta það oftúlkun í bók sinni The Origin of Genetics: A Mendel Source Book (1966), Tschermak hafi vissulega fundið greinar Mendels en hann hafi ekki gert tilraunir sem sýni að hann hafi sjálfur uppgötvað lögmálið.“
** "Two years work wasted," he lamented to one visitor to his laboratory. "I have been breeding those flies for all that time and I've got nothing out of it."(Harrison, R.G., "Embryology and Its Relations".)

Politics, not science, at center of debate

Arnar Pálsson, 20/08/2014

Sorry this part has not been translated

Hvað felst í því að skrá erfðamengi mannsins og hvað hefur það í för með sér?

Arnar Pálsson, 19/08/2014

Arnar Pálsson. „Hvað felst í því að skrá erfðamengi mannsins og hvað hefur það í för með sér?“. Vísindavefurinn 18.8.2014. http://visindavefur.is/?id=67876. (Skoðað 19.8.2014).

Hvað felst í því að skrá erfðamengi mannsins og hvað hefur það í för með sér?

Þessari spurningu um skráningu erfðamengis mannsins var svarað af Guðmundi Eggertssyni á fyrsta starfsári Vísindavefsins, árið 2000. Síðan þá hefur ýmislegt gerst á sviði erfðavísindanna og því full ástæða til að svara spurningunni á nýjan leik. Eldra svarið stendur þó enn fyrir sínu, sjá: Hvað felst í því að skrá erfðamengi mannsins og hvað hefur það í för með sér?

Erfðaefnið í öllum lífverum á jörðinni er DNA-kjarnsýra. DNA er gormlaga og ber í sér upplýsingar um byggingu og starfsemi lífvera, hin svokölluðu gen. Kjarnsýran er tveir þræðir sem tvinnast saman og parast með ákveðnum einingum sem kallast kirni eða basar. Kirnin parast samkvæmt efnafræðilegum eiginleikum þannig að A parast við T, og C parast við G. Árið 1970 var kunngjörð aðferð sem gerði kleift að greina röð basa í bútum erfðaefnis. Margar lífefnafræðilegar aðferðir voru prófaðar í upphafi og enn eru nýjar aðferðir í þróun. Saman eru þessar aðferðir kallaðar DNA-raðgreiningar, og þær nýtast til að lesa röð basanna sem mynda genin og aðra hluti erfðamengisins. Fyrsta raðgreiningin á heilu erfðamengi var á veirunni MS2 árið 1976 og fyrsta bakterían, Haemophilus influenzae, var raðgreind 1995.

Röð basa í DNA má greina með efnahvarfi þar sem hver basi er litaður með sérstökum flúorljómandi hópi. Mismunur á staðsetningu og styrk ljóss á fjórum bylgjulengdum segir til um röð basa í ákveðnum DNA-bút eða geni.

Samfara tækniframförum kom upp sú hugmynd að skrá eða raðgreina erfðamengi mannsins. Það var mikil áskorun því erfðamengi Homo sapiens er mörgum sinnum stærra en erfðamengi veira og bakería. MS2-veiran hefur um 3.000 kirnapör en eitt sett af litningum okkar (23 alls) samanstendur af um það bil 3.200.000.000 kirnapörum. Ef litningar mannsins væru skrifaðir út í sömu leturstærð og nöfn í símaskrá, þyrfti um 200 símaskrár til að rita út eitt erfðamengi (miðað við 1000 bls. skrár). Raðgreining erfðamengis mannsins var risavaxið verkefni, sem þarfnaðist mikils skipulags og fjármagns. Bandarísk yfirvöld, með liðsinni Kanadamanna og Breta hönnuðu þrepaskipt verkefni sem átti að taka rúm 10 ár. Einkaaðilar, undir forystu Craig Venter, völdu aðra nálgun og fóru í kapp við hið opinbera. Markmið Venter var að sækja um einkaleyfi á genum. Sú hugmynd var felld því náttúrulegar erfðaupplýsingar lífvera eru ekki uppfinning. Engu að síður varð mikið kapphlaup um að ljúka raðgreiningu erfðamengisins. Kapphlaupinu lauk með jafntefli og sumarið 2000 var fyrsta útgáfa af erfðamengi mannsins kynnt á blaðamannafundi á túni þáverandi Bandaríkjaforseta, Bills Clintons. Vísindagreinar um erfðamengið birtust síðan í febrúar 2001. Með því að skrá erfðamengi mannsins var röð basanna í genum og á litningum ákvörðuð. Einnig var hægt að skilja röð gena, byggingu og staðsetningu þeirra á litningum. Til dæmis byrjar genið Evx á atggagagccgaaaggacatggttatgtttctgga, og það liggur við hliðina á RNA-geninu HOTTIP. Raðgreiningin afhjúpaði líka aðra hluti erfðamengja og litninga, eins og þráðhöft, stökkla, stjórnsvæði og endurtekningar. En tæknin og raðgreiningar eru ófullkomnar. Sum svæði í erfðamengi dýra og plantna hafa það margar endurtekningar og stökkla að ekki hefur tekist að raðgreina þau. Erfðamengi okkar er þekkt að stærstu leyti en nokkur hundruð slík göt eru enn ófyllt. En maðurinn á ekki bara eitt erfðamengi. Við eigum hvert tvö eintök af okkar eigin erfðamengi (eitt frá pabba og eitt frá mömmu) og þau eru ekki eins. Því á mannkynið rúmlega 14 milljarða erfðamengja (tvö í hverjum einstaklingi). Ástæðan er sú að í erfðaefninu eru frávik, breytingar á stökum kirnum eða jafnvel heilum genum eða litningahlutum. Þessi frávik kallast stökkbreytingar og þau má til dæmis finna með því að bera saman erfðamengi. Í ljós kemur að að minnsta kosti 15.000.000 staðir í erfðamengi mannsins eru breytilegir. Þar af leiðir að allir eru erfðafræðilega einstakir. Breytileiki á milli einstaklinga var ein af kveikjunum að raðgreiningu erfðamengis mannsins. Hugmyndin var að auðveldara væri að kortleggja gen sem tengjast sjúkdómum, ef við vissum byggingu erfðamengisins. Kortlagning gena byggist á að kanna hvaða stökkbreytingar sýna fylgni við sjúkdóm eða einkenni, til dæmis þegar bornir eru saman 1000 astmasjúklingar og 1000 heilbrigðir (sjá mynd).

Til að greina áhrif stökkbreytinga er tíðni þeirra borin saman hjá hópi sjúklinga með ákveðinn sjúkdóm og sambærilegum viðmiðunarhóp. Í þessu tilbúna dæmi eru áhrif tveggja stökkbreytinga athuguð. Engin munur er á tíðni stökkbreytingar á basa 1 í lösnum og hraustum einstaklingum, en breyting á basa 2 er greinilega algengari lösnum en heilbrigðum.

Þegar búið er að staðfesta að stökkbreyting tengist sjúkdómi þá opnast möguleiki á dýpri skilningi á sjúkdómnum og um leið meðferð eða lækningu. En í mörgum tilfellum er björninn ekki unninn þegar stökkbreyting finnst. Guðmundur Eggertsson sagði árið 2000:

Þess er ekki að vænta að raðgreining genamengisins valdi byltingu í mannerfðafræðirannsóknum. Frekar má líta á hana sem fyrsta áfangann til fulls skilnings á erfðaefni mannsins og starfsemi þess. Næsti áfangi verður skilgreining á gerð og hlutverki allra þeirra prótína sem ákvörðuð eru af erfðaefninu.

Orð Guðmundar eiga enn við. Jafnvel þótt að við finnum erfðaþátt sem tengist sjúkdómi, þá er mikil vinna fyrir höndum að skilja hvernig hann hefur áhrif á sjúkdóminn. Þetta vandamál er því flóknara þar sem flestar stökkbreytingar eru meinlausar. Þær hafa engin áhrif á svipfarið, útlit eða eiginleika fólks. Á þeim rúmleg 13 árum sem liðin eru frá raðgreiningu erfðamengis mannsins hafa tugþúsundir erfðamengja verið raðgreind. Flest mengin eru úr bakteríum, en einnig hafa erfðamengi tilraunalífvera eins og ávaxtaflugna, gersveppa og vorskriðnablóms verið skráð. Einnig hafa erfðamengi rúmlega 10.000 manns verið raðgreind og afhjúpuð. Gögn um tilraunalífverur eru aðgengileg í opnum gagnagrunnum, en vegna persónuverndar eru næstum öll erfðamengi manna í lokaðri gagnavörslu. Erfðamengjaöldin færði okkur erfðamengi mannsins, innsýn í sjúkdóma og líffræði okkar en einnig gríðarlega þekkingu á fjölbreytileika dýra, plantna og örvera. Samantekt:

  • DNA raðgreining er aðferð til að greina röð basa í DNA.
  • Raðgreining erfðamengja afhjúpar röð gena, byggingu þeirra og þróunarlegan skyldleika.
  • Raðgreining erfðamengis mannsins auðveldar leitina að erfðaþáttum sem tengjast sjúkdómum.

Ítarefni:

Myndir:

Naturally occurring deletions of Hunchback binding sites in the even-skipped stripe 3+7 enhancer

Arnar Pálsson, 24/04/2014

Sorry this part has not been translated

Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda

Arnar Pálsson, 31/03/2014

Greinin Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is þann 29. mars 2014.

Höfundar eru Pétur Henry Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ.

Greinin er endurprentuð hér, með inngangi sem var klipptur af til að uppfylla takmarkanir um orðafjölda.

Inngangur.

Háskóli Íslands er ein verðmætasta sameign íslensku þjóðarinnar, en er alvarlega undirfjármagnaður. Fjárskorturinn birtist í lágum launum akademískra starfsmanna og stundakennara, miklu kennsluálagi, lélegri nýliðun og veikum stuðningi við rannsóknir. Forsendur góðrar kennslu og menntunar eru að allir þessir þættir séu í góðu lagi. Þetta ástand vinnur því gegn gæðum. HÍ er ódýr skóli vegna þess að laun eru lág og of stór hluti kennslu er á hendi stundakennara, sem eru á smánarlegum launum. Ríkið verður að styðja betur við starfsemi skólans (eða fækka nemendum) ef hann á að standa undir nafni. En það eru einnig gallar á innra starfi skólans, sem vinna gegn gæðum.

Greinin sjálf eins og hún birtist.

Við HÍ er notað matskerfi, sem metur rannsóknarframlag hvers vísindamanns. Punktar eru gefnir fyrir framleiddar einingar svo sem vísindagreinar, bækur, einkaleyfi o.s.frv. Punktarnir, eða stundum einfaldar talningar á greinum, stjórna dreifingu fjármagns, styrkjum til einstakra vísindamanna, styrkjum til framhaldsnema, launum kennara, framgangi kennara og fjárframlögum til deilda (sem sagt öllu sem skiptir máli).

Kerfið, sem upprunalega átti að vera ritlaunakerfi, hefur tekið yfir stjórn skólans. Að okkar mati grefur þetta kerfi (sem reyndar er sameiginlegt fyrir alla opinberu háskólana) sérstaklega undan gæðum. Vandamálið í hnotskurn er að kerfið verðlaunar framleiðni á kostnað gæða. Við HÍ eru stunduð afar fjölbreytt vísindi og á mismunandi forsendum. Það er erfitt að bera saman framleiðni í rannsóknum, t.d. í fornleifafræði, kennslufræði og líffræði, m.a. vegna munar á fræðigreinum, aðferðum, kostnaði og birtingartíðni.

Gallar punktakerfisins
Á kerfinu eru margir og alvarlegir gallar. Sá helsti er að magn og gæði fara sjaldnast saman. Verst er að kerfið mótar hegðun vísindafólks, og ógnar þar með akademísku frelsi og vinnur gegn gæðum. Punktakerfi HÍ umbunar fyrir fjölda vísindagreina, á meðan lítið tillit er tekið til gæða. Að mestu er horft framhjá mun á eðli mismunandi fræðigreina.

Kerfið hvetur til skammtímarannsókna á kostnað langtímarannsókna. Kerfið gerir það nánast ómögulegt að stunda kostnaðarsamar rannsóknir sem taka tíma. Kerfið hvetur fólk til að gera auðveldar rannsóknir, sem líklegar eru til að skila afurð sem fyrst eða sem oftast.

Á svipaðan hátt vinnur kerfið gegn nýsköpun – því henni fylgir nánast samkvæmt skilgreiningu, mikil áhætta. Punktar hafa bein áhrif á launaflokk og framgang í starfi. Punktar eru einnig notaðir til að borga akademískum starfsmönnum launabónus (kallast þá vinnumatspunktar) sem getur numið margra mánaða launum, einkum hjá þeim sem lært hafa að spila á kerfið. Punktakerfið tekur lítið tillit til fjölskyldufólks og vinnur líklega gegn velgengni kvenna og barnafólks. Kerfið eins og það er notað í HÍ vinnur einnig markvisst gegn vissum tegundum vísinda. Ef hliðstæðu matskerfi væri beitt á íþróttir, færu flest stig til körfuboltafólks og knattspyrna legðist af.

Flestir sem tala fyrir kerfinu (eða allavega ekki gegn því) eru í þeirri aðstöðu að vera á sviðum þar sem punktaframleiðni er einfaldlega mikil. Margir sem græða á kerfinu eru í þeirri stöðu að tengjast einfaldlega mörgum birtingum. Þannig er gríðarlegur aðstöðumunur milli fólks og fræðigreina og kerfið í raun að mæla hann.

Í síðustu úthlutunum vísindanefndar háskólaráðs var byggt að mjög miklu leyti á einfaldri talningu á birtum greinum. Einbeittari trú á gildi framleiðni sem mati á vísindastarfi má vart finna. Ef ekkert er að gert mun kerfið grafa hægt og örugglega undan tilraunavísindum og öllum fræðum sem ekki standa undir mikilli og hraðri framleiðslu vísindagreina. Það mun rýra gæði og draga úr fjölbreytileika rannsókna og að lokum gjaldfella HÍ. Að reka rannsóknarháskóla án nægjanlegs fjármagns með kerfi sem verðlaunar framleiðni en ekki gæði, leiðir til framleiðslu á því sem lítið er á bak við.

Leggjum niður eða endurskoðum kerfið
Stjórnvöld þurfa að átta sig á því að nýsköpun og menntun þarfnast fjárfestingar í háskólum og rannsóknasjóðum. Háskólaráð HÍ verður að skilja að magn er ekki gæði. Hugsa þarf reiknilíkan HÍ upp á nýtt og aðgreina laun og fjárframlög til deilda frá hrárri framleiðni. Horfa þarf til hvernig þessi mál eru leyst erlendis. Lagfæringar á kerfinu kosta ekki fé, heldur þor, framsýni og vilja stjórnar skólans og starfsmanna. Vegna þess að HÍ er ein mikilvægasta eign íslensku þjóðarinnar og starfsemi hans varðar almannaheill er bréf þetta birt á opinberum vettvangi.

Við óskum eftir því að menntamálaráðherra láti gera utanaðkomandi úttekt á matskerfi opinberu háskólanna hið fyrsta, með áherslu á gæði og jafnræði fræðigreina.

Twitter prufa

Arnar Pálsson, 13/03/2014

Sorry this part has not been translated

Virðisauki með vísindum

Arnar Pálsson, 20/02/2014

Greinin Virðisauki með vísindum birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.

Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósent við Háskóla Íslands

Fiskveiðiþjóð ætti að spyrja, hvernig nást fleiri krónur úr hverjum fiski? Verðmæti má auka á nokkra vegu. Til dæmis með því að veiða fiskinn þegar hann er verðmætastur, bæta vinnslu og geymslu. Eða með því að kortleggja markaði, vinna vörumerkjum orðspor og kynna vörurnar markvisst. Einnig má nýta afurðirnar betur, t.d. nota afganga í nýjar og verðmætar afurðir. Margt hefur áunnist á öllum þessum sviðum undanfarna áratugi. Til dæmis fara íslenskir sjómenn mun betur með fiskinn en norskir sjómenn, við tökum smærri holl og afhausum ekki. Hér verður aðallega fjallað um nýtingu fisksins og hvernig má ná verðmætum úr afskurði og því sem áður var hent.

Til að auka verðmæti þarf bæði hugvit og skipuleg vinnubrögð. Upphugsa þarf aðferðir eða nýjungar, og prófa hvort þær séu betri en eldri aðferðir. Með öðrum orðum, það þarf að vinna vísindalega. Í nýlegri skýrslu Sjávarklasans kemur fram að verðmæti sjávarafurða hefur aukist um marga milljarða með því að fóstra nýjungar og beita nákvæmum vinnubrögðum. Sem dæmi má nefna fyrirtækin Kerecis sem vinnur græðandi plástra úr roði, Iceprotein sem vinnur prótín úr afskurði, og Genís sem þróar bólgueyðandi lyf úr rækjuskel. Sammerkt þessum fyrirtækjum er að þau vinna vísindalega. Með því að þjálfa unga vísindamenn, þá bætum við framtíðarmöguleika þessara og annarra áþekkra fyrirtækja.

Hérlendis hafa samkeppnissjóðir alltaf verið veikir og umgjörð vísinda losaraleg. Í skýrslu Sjávarklasans segir "Það er enganveginn ásættanlegt að ætla veikum opinberum rannsóknasjóðum að útvega bróðurpart þess fjár sem þarf til rannsókna og þróunar í nýja sjávarútveginum". Hér eru forsvarsmenn sjávarklasans að biðla til annarra sjávarútvegsfyrirtækja, banka og stjórnvalda um meira fjármagn. En undirstrika um leið hve illa búið er að rannsóknasjóðum hérlendis.
Niðurskurður ríkistjórnarinnar á samkeppnisjóðum í síðasta fjárlagafrumvarpi og fyrirhugaður niðurskurður grefur undan framtíðarvexti í sjávarútvegi. Hann dregur úr nýliðun vísindamanna sem eru nauðsynlegir fyrir rannsóknir t.d. í sjávarlíftækni og matvælafræði. Á síðustu fjárlögum var Tækniþróunarsjóður lækkaður um 22%, Rannsóknasjóður um 19% og markáætlun um 50%. Boðaður áframhaldandi niðurskurður mun bæði draga úr þjálfun nauðsynlegs mannafla og hægja á klaki nýrra fyrirtækja.

Íslenskur sjávarútvegur er stærsta og sterkasta aflið í efnahag landsins og eðlilegt að hann leggi sitt af mörkum til að styrkja stoðir atvinnulífs. Stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa að fjárfesta í hagnýtum rannsóknum. En þau þurfa líka að sannfæra stjórnvöld um að styrkja samkeppnissjóði og grunnrannsóknir, því þaðan kemur sérmenntað og fært starfsfólk. Með því að efla samkeppnisjóði Vísinda- og tækniráðs stuðlum við að nýsköpun og verðmæti í sjávarútvegi þjóðinni til heilla.

Betra að vera hraustur en sætur

Arnar Pálsson, 20/02/2014

Skýring: Pistlinn þessi er aukinn og bætt útgáfa lesendabréfs sem birtist  í Fréttatímanum 24. febrúar 2012, undir titlinum "Betra að vera hraustur en sætur".

Í helgarpistlinum "stökkbreyting írskra gena" veltir Jónas Haraldsson (17. feb. 2012, bls. 32) fyrir sér spurningum um uppruna íslendinga og mun á fegurð íra og íslendinga. Hann ber sérstaklega saman fegurð íslenskra kvenna og meintan ófrýnileik írskra karlmanna. Því næst tíundar Jónas uppl ýsingar um erfðafræðilegan uppruna íslendinga, sem honum finnst stangast á við dreifingu fegurðar í þessum hluta Evrópu. Jónas segir:

 Þar kemur fram að um 60 prósent erfðaefnis Íslendinga er norrænt en um 40 prósent frá Bretlandseyjum. Hið skrýtna er samt að sömu mælingar segja okkur að um 80 prósent erfðaefnis íslenskra karla megi rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en um 20 prósent til Bretlandseyja.....

 ...Þegar þetta liggur fyrir hættir maður að skilja. Íslenskar skvísur, fegurðarviðmið víða um heim, eru meira eða minna írskar, upprunalega dætur ljótustu karla í heimi....

....Vill ekki einhver rannsaka það?

Erfðarannsóknir hafa sýnt að 4 af hverjum 5 íslenskum körlum er með Y litning ættaðan frá Noregi. Á sama hátt sýna rannsóknir að u.þ.b. 2 af hverjum 3 hvatberalitningum eru ættaðir frá Bretlandseyjum. Hvatberalitningar erfast eingöngu frá móður og Y litningar eingöngu frá feðrum til sona. En það sem vantar í umfjöllun Jónasar er afgangurinn af erfðaefninu, hinir 23 litningarnir sem bera í sér 98% DNA frumna okkar.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, þessi 98% erfðamengisins, öll hin genin og litningarnir erfast óháð kyni. Það þýðir að erfðasamsetningin stokkast upp í hverri kynslóð. Þannig að þessar írsku ófrynjur sem Jónas lætur sig dreyma um, voru fljótar að umbreytast þegar írsku og norsku genin stokkast saman á þeim fjörtíu kynslóðum sem liðnar eru frá landnámi. Þetta sést best ef við skoðum bókhaldið í smáatriðum. Hvatberalitningurinn, sem erfist bara frá mæðrum, er u.þ.b. 16,570 basar. Y-litningurinn er u.þ.b. 50 milljón basar, en erfðamengi okkar í heild er u.þ.b. 3200 milljón basar.

Að endingu vill ég samt árétta, fyrir mitt leyti a.m.k., að margar írskar konur eru forkunnafallegar og rautt hár íslenskra kvenna mikil prýði. Einnig er ágætt að rifja upp að makaval gengur ekki eingöngu út frá snoppufegurð eða gullnum hlutföllum. Eins valdi stórabóla sér ekki skotmörk með hliðsjón af útliti. Stundum er betra að vera hraustur en sætur.

Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

Arnar Pálsson, 20/02/2014

Pétur H. Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2013 og á vefnum vísir.is - Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

-----------------------

Fátt er þjóðfélaginu mikilvægara nú en að skapa hagnýta þekkingu og skapa ný verðmæti. Þekkingin sem ný fyrirtæki eru byggð á er oftar en ekki afurð vísindalegra framfara. Og þær byggjast oftast á fyrirbæri sem landinn heyrir lítið um, svokölluðum opinberum samkeppnissjóðum.

Samkeppnissjóðir styrkja bæði grunnrannsóknir og tækniþróun með hagnýtingu og markaðssetningu að markmiði. Fyrirkomulagið er þannig að vísindamenn og frumkvöðlar keppa um fjármagn með því að senda inn ítarlegar áætlanir, sem metnar eru af fagfólki. Bestu hugmyndirnar, aðferðirnar og verkefnin fá styrki.

Grunnrannsóknir eru ákaflega mikilvægar vegna þess að þær skapa þekkingu sem er undirstaða hagnýtingar og annarra framfara. Miklu skiptir að hagnýtingin er sjaldnast augljós í upphafi. Með öðrum orðum, það er oftast ófyrirsjáanlegt hvaða grunnrannsóknir reynast stökkpallur fyrir hagnýtingu síðar meir. Lítið dæmi eru rannsóknir á frostþoli í skordýrum, sem síðar nýttust til að geyma líffæri fyrir ígræðslu. Ekki síður mikilvæg afurð grunnrannsókna er þjálfun fólks í að rannsaka og leysa vandamál.

Með því að styðja við samkeppnissjóði og rannsóknarháskóla græðir Ísland á nokkra vegu:

  1. Vísindamenn okkar geta uppgötvað nýjar staðreyndir eða lögmál, sem skipta okkur og umheiminn máli. Dæmi um þekkingu af þessu tagi má nefna nýlegar rannsóknir á eldgosum, krabbameinum og lífríki hafsins.
  2. Útskrifaðir nemendur með vísindalegan skilning og þjálfun geta tileinkað sér nýjustu framfarir í heimi vísinda og tækni. Slíkt fólk er forsenda þess að við getum hagnýtt erlenda þekkingu, heimfært hana upp á íslenskar aðstæður og jafnvel betrumbætt.
  3. Rannsóknarnám þjálfar nýja kynslóð vísindamanna sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Þær áskoranir eru margar ófyrirsjáanlegar og því nauðsynlegt að þjálfa fólk í vísindalegum vinnubrögðum, sem er aðferð til að takast á við opnar spurningar.
  4. Í rannsóknarháskólum kenna hæfustu einstaklingar landsins á hverju fræðasviði, sem hafa jafnan lært við bestu háskóla erlendis. Íslenskir nemendur kynnast bæði óleystum vandamálum og nýjustu aðferðum, sem eru kveikjan að nýjum lausnum og mögulega fyrirtækjum.

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhugaður margs konar niðurskurður í rannsóknum og nýsköpun, sérstaklega á samkeppnissjóðum um tugi prósenta milli ára.

Áframhaldandi niðurskurður er áætlaður næstu árin. Jafnvel alvarlegra er þó að þrátt fyrir að Íslendingar verji tiltölulega háu hlutfalli landsframleiðslu í rannsóknir (2,6%), þá setjum við einungis 14% þess í samkeppnissjóði. Til samanburðar fara 30 – 40% rannsóknarpeninga norrænna skattborgara í samkeppnissjóði. Til að bæta gráu ofan á svart hefur hlutfallslegt framlag okkar til rannsókna lækkað um 8% frá 2009 öfugt t.d. við Finna sem juku fjármagn til rannsókna og nýsköpunar í kreppunni fyrir aldamót. Finnar vissu að samkeppnissjóðir eru besta leiðin til að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun, líka á erfiðum tímum.

Íslensk vísindi og nýsköpun geta bætt efnahag og þjóðfélag landsins ef við berum gæfu til að verja (og stækka sem fyrst) samkeppnissjóðina og styðja við rannsóknarháskólana.

Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands

Arnar Pálsson, 27/05/2010

Þessi greinarstúfur var skrifaður af okkur og Pétri Henry Petersen dósent við Læknadeild HÍ, sem birtist í Fréttablaðinu 10. 10. 2013 (Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands). Frekari útskýringar og heimildir má sjá neðst.

--------------------

Ríkistofnanir bregðast ólíkt við fjársvelti og kröfum um niðurskurð og hagræðingu. Háskóli Íslands (HÍ) hefur undanfarin ár tekið niðurskurði, vanefndum ríkis á samningum, breytingum menntamálaráðaneytis á reiknisflokkum og skorti á stuðningi við grunnrannsóknir með því að rétta fram hinn vangann.

HÍ hefur borið sig vel og lagt áherslu á fjölda innritaðra nemenda, fjölda framhaldsnema og góða stöðu á einum lista yfir ágæti háskóla (sem er að mestu leyti vegna erlendrar samvinnu í vísindum Íslenskrar erfðagreiningar og Hjartaverndar)*.

Halda mætti að innra starf HÍ væri með ágætum en það er ansi fjarri lagi. Margir hafa bent á ótal atriði sem bæta þarf innan HÍ. Í stuttu máli er ekki hægt að reka rannsóknarháskóla með litlu og dvínandi fjármagni án þess að það bitni á gæðum.

Hluti af vandanum er að yfirstjórn HÍ virðist ekki skilja vandamál einstakra deilda eða rannsóknarsviða. Markmið HÍ eru skýr (gæðakennsla og gæðarannsóknir) en leiðirnar sem farnar eru til að ná þeim eru furðulegar á köflum.

Sem dæmi má taka úthlutun á afmælisgjöf Alþingis vegna aldarafmælis HÍ. Yfirstjórn HÍ ákvað að nýta afmælisgjöfina á nokkra vegu, í stoðþjónustu, innviði, nýdoktora og nýja kennara.

En útdeiling fjármuna í þessi atriði þarfnast heilmikillar umsýslu sem hefur ekki verið gagnsæ. Einfaldast og líklega áhrifaríkast hefði verið að setja stóran hluta afmælisgjafarinnar í rannsóknasjóð HÍ og útdeila honum beint til þeirra kennara og framhaldsnema sem eru að stunda rannsóknir. Þannig hefðu peningarnir nýst strax í erfiðu árferði.

Sussað á vísindafólk**
Mjög skiptar skoðanir eru innan HÍ um hvernig bæta eigi ástandið. Á tímabili var sussað á vísindafólk HÍ fyrir að benda á brotalamir eða „tala niður“ Háskóla Íslands. Það var ekki álitið heppilegt, sérstaklega ef yfirstjórn HÍ stóð í samningum við yfirvöld um einstök mál, að einstakir starfsmenn væru að gagnrýna menntastefnu stjórnvalda, stjórnsýslu eða rekstur HÍ.
Hugmyndin var líklega sú að HÍ ætti að hafa eina skýra stefnu og alls ekki margar ólíkar meiningar. Orsökin er að hluta sú að í gamla daga fóru allmargir starfsmenn HÍ í ráðuneytin til að betla, þ.e.a.s. færa rök fyrir fjárstuðningi við einstök verkefni eða stofnanir. Stjórnvöldum leiddist það suð og bað HÍ að hafa hemil á sínu fólki.

Á meðan HÍ sat þægur í kreppunni ákváðu aðrar ríkisstofnanir að lýsa raunveruleikanum. Landspítalinn minnir yfirvöld og landsmenn reglulega á áhrif fjárskorts á rekstur og viðhald spítalans. Matís kvartaði þegar IPA-styrkirnir brugðust. Hvorir tveggja fá áheyrn ráðamanna og loforð um úrlausn. Athugið, hér er ekki lagt neitt mat á hlutfallslegt mikilvægi ólíkra stofnana ríkisins, heldur bara fjallað um viðbrögð þeirra við fjárskorti.

Sannarlega eru hlutverk Landspítala og HÍ ólík. Á meðan flestir sjá augljóst gildi góðrar heilbrigðisþjónustu virðast færri átta sig almennilega á mikilvægi háskólamenntunar og rannsókna.

Samfélagið þarfnast vel menntaðs fólks fyrir margs konar störf og hlutverk sem oft er erfitt að sjá fyrir. Við þurfum góða lækna, vísindamenn, verkfræðinga, fjármálastjóra, félagsfræðinga og kennara.

HÍ hefur alltaf verið sparneytinn, t.d. miðað við norræna eða breska háskóla, en hann getur ekki keyrt á bensíngufu. Ef kenna á fleiri nemendum fyrir færri krónur mun gæðum námsins hraka. Og ef styrkir til rannsókna eru skornir niður munu íslensk vísindi ekki standa undir framförum og betra mannlífi.

Gæði í háskólastarfi byggja að miklu leyti á því að háskólakennarar og nemendur séu virkir í rannsóknum. Án rannsókna munu vísinda- og tækniframfarir framtíðar ekki vera íslenskar og fyrirtækin sem græða á þeim ekki heldur.

Rannsóknir leiða einnig af sér upplýst fólk og þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, hvorutveggja nauðsynlegt þjóðinni. Forsenda virkra rannsókna er að hlúa að rannsóknarsjóði HÍ og að tryggja fjárframlög til rannsóknarsjóða Rannís, sem fjármagna stóran hluta allra rannsókna hérlendis.***

-------------------

* Gestaprófessorar draga upp einkunnir HÍ - var skoðað í fyrra sbr. Decode dregur upp Háskóla Íslands (með fyrirvara um að greiningin var gerð á frekar einfaldan hátt). Kári Stefánsson hefur einnig stært sig af því að Decode hafi komið HÍ inn á Times Higher Education listann - í viðtali við Fréttatímann 2011 (Montinn að eiga þátt í frábærum árangri ).

** Millifyrirsögn er blaðsins.

*** Drög til fjárlaga miða að því að draga aftur úr fjármagni til rannsóknarsjóða. Þrátt fyrir að þeir séu mjög litlir hérlendis miðað við nágrannalönd okkar.