Um verk mín og rannsóknir
Niðurstöður rannsókna minna hafa birst í greinum og bókarköflum á Íslandi og erlendis. Sumt af þessu efni er í opnum aðgangi og má finna á vefnum timarit.is, t.d. þessar greinar í tímaritinu Sögu: „Sögulegir gerendur og aukapersónur. Kyngervi og sagnaritun þjóða(r)“ frá árinu 2019 „Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu” frá 2015 og „Kvennabréfin á Hallfreðarstöðum. Hagnýting skriftarkunnáttu 1817–1829“ frá 2013. Annars má sjá helstu birtingar í fræðibókum og tímaritum hér.
Af erlendum birtingum má benda á greinar í tímaritunum Life Writing (2010, 2015) og Women's History Review (2018). Einnig bókina Biography, Gender, and History: Nordic Perspectives (2016) sem ég ritstýrði ásamt finnskum og dönskum samstarfskonum. Loks má nefna grein eftir okkur Ragnheiði Kristjánsdóttur í bókinni Suffrage and Its Legacy in the Nordic and Beyond (2024).
Auk þess að hafa komið að ritstjórn bóka og hafa komið út eftir mig fjórar bækur. Doktorsritgerðin mín Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 kom út árið 2011, sama ár og ég varði rannsóknina við HÍ.
Árið 2020 kom út bókin Konur sem kjósa. Aldarsaga. Þar er ég einn af fjórum höfundum en bókin er skrifuð í tilefni af hundrað ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi 2015. Höfundar auk mín eru þær Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (1968–2020). Í bókinni skoðum við stöðu og réttindi kvenna á tuttugustu öld, í kjölfar kosningaréttar sem þær fengu til Alþingis árið 1915, og þau tækifæri sem þær fengu til að iðka réttindi sín sem borgarar í samfélaginu. Í bókinni er sagt frá fjölbreyttum hópi kvenna, lífi þeirra og kjörum, stjórnmálakonum, verkakonum, sveitakonum og menntakonum.
Bókin byggir á viðamikilli rannsóknarvinnu sem fram fór á vegum rannsóknarverkefnisins Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015, sem var styrkt af Rannís. Þáttakendur í rannsókninni voru auk mín þær Ragnheiður Kristjánsdóttir prófessor í sagnfræði, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir sagn- og listfræðingur, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir kynja- og sagnfræðingur, Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og Ása Ester Sigurðardóttir sagnfræðingur. Á vegum verkefnisins hafa komið út fjölmargar greinar og kaflar í tímaritum og bókum um sögu kvenna á 20. öld.
Konur sem kjósa. Aldarsaga var tilnefnd til nokkurra bókmenntaverðlauna og hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2021 og Bókmenntaverðlaun starfsfólks í bókaverslunum árið 2020.
Árið 2023 kom út bókin Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur, 1825–1832. Bókin er tvískipt. Annars vegar er ítarlegur inngangur þar sem ég skrifa um ástarsögu Kristrúnar og Baldvins, eins og hún birtist í bréfum hans til hennar, svik hans í Kaupmannahöfn, og set í samhengi við sagnfræðirannsóknir um ástina og bréfaskipti. Hins vegar eru birt bréf Baldvins til Kristúnar, sem ég hef fært til nútímastafsetningar og skrifað skýringar.
Árið 2024 kom svo út bókin Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Sú bók er afrakstur margra ára rannsókna og fjallar um Sigríði Pálsdóttur, sem er óþekkt kona í sögulegu ljósi, en hún skildi eftir sig vitnisburð um ævi sína í formi bréfa sem hún skrifaði bróður sínum í rúmlega hálfa öld frá 1817-1871. Sigríður fæddist á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu árið 1809, dóttir sýslumannshjónanna í Norður-Múlasýslu, næstelst fimm systkina sem lifðu. Hún dó á Breiðabólstað í Fljótshlíð árið 1871, hafði þá átt sex dætur, þrjár lifðu til fullorðinsára, og misst tvo eiginmenn. Þetta er saga af konu með djarfan hug, konu sem vildi ráða lífi sínu sjálf þótt henni fyndist hún stundum strá fyrir straumi; bréfin sýna eldheita ást, sorg og dauða, en líka hið hið skemmtilega og fagra, hið hversdagslega, lífið eins og það líður hjá.
Strá fyrir straumi var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og hlaut Viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2024. Í umsögn viðurkenningarráðs segir: „Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna.“