9. Um mig

Ópersónulegt

Árnagarður, Háskóla Íslands

Eins og þú sérð á ferilskránni minni hafði ég haft fast starf við Háskóla Íslands frá 1980-2016, en var þó fjögur ár (1991–1995) í launalausu leyfi úr því starfi og var þann tíma gistiprófessor við málvísindadeild Harvardháskóla. Áður hafði ég verið stundakennari við Háskóla Íslands um nokkurt skeið, þar áður kennt einn vetur við Menntaskólann við Hamrahlíð, tvo við Kielarháskóla og einn við Kennaraskóla Íslands, að mestu leyti með námi. Annars vísast í nánara yfirlit í ferilskránni. Þar er líka sagt frá helstu viðfangsefnum mínum í fræðunum. Yfirlit yfir fræðileg rit er að finna í flokkuðum ritaskrám og frá helstu rannsóknaverkefnum og afrakstri þeirra segir í kaflanum rannsóknaverkefni en líka í ferilskránni.

 Háskólabókasafnið í Harvard Yard

Persónulegt

 

Kvöld við Mývatn. Ljósm. HÞ

Ég hef eiginlega alltaf verið í skóla – ekki bara þann langa tíma sem ég var í formlegu námi (lauk doktorsprófi 1979) heldur er ég uppalinn í heimavistarskóla í Mývatnssveit þar sem foreldrar mínir kenndu og faðir minn var skólastjóri (ja, fyrsta eina og hálfa árið af ævi minni átti ég reyndar heima í svipuðum skóla í Mosfellssveit þar sem afi minn var skólastjóri).

En ég hef samt ekki bara áhuga á skólum og fræðum. Ég hef t.d. gaman af tónlist og hef lengi sungið í kórum, lengst í Karlakórnum Stefni. Á yngri árum, og jafnvel líka síðar, var ég í danshljómsveitum, aðallega sem söngvari. Á síðari árum hef ég líka tekið upp þráðinn í tónlistarnámi, en upphaflega lærði ég svolítið á píanó hjá móður minni. Ég hef líka áhuga á íþróttum og keppti í frjálsum íþróttum á árum áður, aðallega í hlaupum, og hef reyndar réttindi sem unglingaþjálfari og dómari í frjálsum íþróttum. Þegar ég keppti í hlaupum þótti mér best að vegalengdin væri sem styst (var t.d. liðtækur í hinni sjaldgæfu íþróttagrein 3×40 metra hlaupi innanhúss, þegar sýslumaðurinn á Blönduósi var að stíga sín fyrstu skref á hlaupabrautinni — hann fór síðar á ólympíuleika en ég ekki …) en á síðari árum hentar mér betur að skokka hægar og lengra með góðum félögum.  Þannig reyni ég að halda mér í viðunandi formi. Við hjónin höfum líka stundað gönguferðir, lengst af með hinum merka gönguhópi sem kallaði sig Dratthala (hópurinn drattaðist yfirleitt frekar seint af stað á morgnana en var þeim mun sprækari á kvöldin). Svo eigum við hluta af jörð norður á Skaga (við ysta haf) og sinnum þar um æðarvarp og fleira með meðeigendum okkar þegar tími gefst til á vorin og snemmsumars. Síðan eigum við líka athvarf í húsi sem foreldrar mínir byggðu í Mývatnssveit og höfum verið að lagfæra það undanfarin ár. Fjölskyldan ferðast líka býsna mikið saman og hefur búið á ýmsum stöðum erlendis, m.a. tvö ár í Kiel í Þýskalandi (1970–72) og í allt hátt í 10 ár í Boston (1974–1979, 1987, 1991–1995). Konan mín, Sigríður Magnúsdóttir, er fyrrverandi talmeinafræðingur á Landspítalanum og dósent emerita í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Börnin eru þrjú: Steinar, tónlistarupptökumaður í Los Angeles (eiginkona hans er Georgiana Jun Höskulds, kvikmyndagerðarkona); Guðrún Þuríður, læknir (býr núna í Gautaborg; hennar maður er Einar Haukur Óskarsson, verkstjóri og fyrrum golfvallarstjóri og golfleikari); Margrét Lára, grunnskólakennari, umbrotsmaður og ljósmyndari (býr núna í Mosfellsbæ ásamt kærasta sínum, Finni Frey Stefánssyni körfuboltaþjálfara). Barnabörnin eru fimm, Sidney Kier í Los Angeles, Sigríður Sóllilja og Helga Margrét í Gautaborg og svo Elísa Guðrún og Höskuldur Hrafn í Mosfellsbæ.

Úr gönguferð Dratthala í Ölpunum. Ljósm. HÞ