7. Rannsóknir

Rannsóknir sem unnið er að

Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd/Heritage language, linguistic change and cultural identity.

Þetta verkefni hlaut styrk frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) árið 2013. Gert er ráð fyrir að þetta verði þriggja ára verkefni. Verkefnisstjórar eru Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir. Aðrir umsækjendur eru Ásta Svavarsdóttir, Daisy Neijmann, Kristján Árnason, Matthew Whelpton og Úlfar Bragason.

Aðalmarkmið þessa verkefnis er að rannsaka vesturíslensku og þróun hennar og bera hana saman við þróun íslensku á Íslandi frá 19. öld til dagsins í dag. Í þessari rannsókn verður litið á vesturíslensku sem upprunamál (eða erfðarmál, e. heritage language), en sú nafngift hefur verið notuð um tungumál sem eru töluð heima við en eru minnihlutamál í viðkomandi málsamfélagi. Í þessu sambandi verður m.a. skoðað hvaða hlutverki tungumálið hefur gegnt í því að þróa og viðhalda menningarlegri sjálfsmynd Vestur-Íslendinga. Félagsleg og menningarleg staða íslensku á Íslandi hefur augljóslega verið allt önnur en sú sem vesturíslenska hefur búið við og með því að bera saman þróun þessara tveggja afbrigða íslenskunnar ætti að vera hægt að öðlast aukinn skilning á því hvaða hlutverki málfræðilegir þættir annars vegar og félagslegir og menningarlegir þættir hins vegar gegna í málbreytingum.

Sjá nánar á slóðinni http://malvis.hi.is/m%C3%A1l_m%C3%A1lbreytingar_og_menningarleg_sj%C3%A1lfsmynd_0.

Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð

Þetta verkefni hlaut verkefnisstyrk frá Rannsóknasjóði (gegnum RANNÍS) 2010-2012. Meðumsækjendur eru Kristján Árnason, Sigríður Sigurjónsdóttir, Matthew Whelpton og Þórhallur Eyþórsson, öll við Háskóla Íslands.

Málvísindamenn greinir á um það hvernig tungumál breytast. Sumir telja að breytingar á máli verði fyrst og fremst á þann veg að ný kynslóð tileinki sér annars konar mál en þær eldri. Breytingarnar verði þá á máltökuskeiði, ef svo má segja, þ.e. að börnin læri ekki að öllu leyti það sem fyrir þeim er haft eða túlki það ekki rétt.  Aðrir telja að málið breytist ekki síður þannig að málnotendur breyti máli sínu í áranna rás. Fræðilegt markmið þessa rannsóknaverkefnis er að skoða að hvaða marki síðari tilgátan er rétt þegar litið er á ákveðnar breytingar í íslensku hljóðkerfi og setningagerð.

Vísbendingar um málbreytingar má finna með tvennu móti. Önnur leiðin er sú að skoða tiltekin málfarsatriði hjá ólíkum aldurshópum á sama tíma. Ef finna má reglulegan mun á aldurshópunum má gera því skóna að sá munur endurspegli málbreytingar sem eru að eiga sér stað, þannig að yngri aldurshóparnir sýni hvað koma skal en mál þeirra eldri endurspegli gamla tímann. Þegar slíkur samanburður er gerður er oft talað um sýndartíma (e. apparent time), því í raun og veru fer rannsóknin fram á einum tíma, er eintímaleg (e. synchronic). Hin leiðin til að skoða breytingar er að bera saman mismunandi málstig, þ.e. athuga tiltekin málfarsfyrirbæri á ólíkum tímum. Í slíkum samanburði er þá um rauntíma að ræða (e. real time) því rannsóknin ber saman tvo eða fleiri tímapunkta eða tímabil, er fjöltímaleg (e. diachronic). Rauntímasamanburður er svo auðvitað sérlega áhugaverður ef hægt er að skoða mál sömu einstaklinga á ólíkum tímum, af því að þá gefur hann um leið upplýsingar um það að hvaða marki sama fólkið breytir máli sínu í áranna rás.

Sérstaða þessa verkefnis felst einkum í tvennu. Í fyrsta lagi felur það í sér skipulegan samanburð á málfari fleiri þátttakenda en áður hefur verið gerður — og þá er ekki bara miðað við Ísland. Í öðru lagi gefur það tækifæri á að bera saman ólíkar gerðir málbreytinga í rauntíma, þ.e. bæði breytingar sem snerta mismunandi þætti hljóðkerfis (eða framburðar) og svo samanburð breytinga á framburði og setningagerð.

Sjá nánar á slóðinni http://malvis.hi.is/malbreytingar_i_rauntima_i_islensku_hljodkerfi_og_setningagerd

 

Breytingar á framburði á 70 ára tímabili

Þetta verkefni fékk styrk úr Þjóðhátíðarsjóði 2009 og er nátengt því sem lýst er hér næst á undan. Meginmarkmið þess er að ná til sem flestra þátttakenda úr framburðarrannsókn Björns Guðfinnssonar og kanna framburð þeirra á nýjan leik, en þetta fólk er yfirleitt fætt í kringum 1930. Auk þeirra sem voru nefndir í lýsingu fyrra rannsóknaverkefnis og tóku þátt í rannsókn BG og líka í RÍN-rannsókninni 40 árum síðar, verður hér lögð sérstök áhersla á að ná til fólks sem BG ræddi við á sínum tíma en fluttist síðan "á mölina", þ.e. til Reykjavíkur. Í RÍN-rannsókninni var nánast eingöngu rætt við þá þátttakendur úr rannsókn BG úti um land sem höfðu haldið kyrru fyrir í sínu heimahéraði. Það verður líka gert að þessu sinni, en að auki verður safnað efni til samanburðar frá aðfluttu BG-fólki í Reykjavík. Með því móti fæst ný vídd í samanburðinn, þ.e. hægt verður að meta bera saman áhrif umhverfisins á þá sem fluttu burtu og þá sem sátu heima. Frumrannsóknir af slíku tagi benda til þess að umhverfið hafi mismikil áhrif á framburðareinkenni fólks — einstaklingar séu t.d. líklegri til að leggja niður skaftfellskan einhljóðaframburð en hv-framburð (sjá lýsingar og framburðardæmi á vefnum http://mallyskur.is) þótt börn sem alast upp í blönduðu mállýskuumhverfi séu aftur á móti líklegri til að taka upp einhljóðaframburðinn en hv-framburðinn.

 

Umskráning og aðlögun mállýskugagna

Þegar efni var safnað í mállýskurannsókn Höskuldar Þráinssonar og Kristjáns Árnasonar (Rannsókn á íslensku nútímamáli, RÍN) á 9. áratug síðustu aldar var stafræn upptökutækni ekki komin til sögunnar. Á undanförnum árum hefur Rannsóknasjóður Háskóla Íslands veitt styrk til þess að færa þetta mállýskuefni yfir í stafrænt form. Þetta er gríðarmikið efni (um 2.800 þátttakendur á öllum aldri frá öllum landshlutum, yfir 1.500 klukkutímar), en stafræna formið gefur auðvitað ný færi á að varðveita efnið, fjölfalda það og nýta til rannsókna. Auk þess að flytja efnið yfir í stafrænt form þarf síðan að hreinsa það og snyrta til á ýmsan hátt og bæta hljómgæðin, enda voru upptökugæðin á sínum tíma býsna misjöfn. Þetta verkefni er enn í gangi en sýnishorn af efninu má finna á vefsvæðinu http://mallyskur.is.  Bjarki M. Karlsson MA á mestan heiður af uppsetningu þessa vefsvæðis en Steinar Höskuldsson, hljóðupptökumaður, hefur séð um að snyrta upptökurnar og gera þær sýningarhæfar, ef svo má segja. Þær fyrstu sem komu á vefinn voru áður birtar á snældu sem fylgdi bókinni Mállýskudæmi (meðhöfundar Guðvarður Már Gunnlaugsson og Sigurður Jónsson, útg. Málvísindastofnun Háskóla Íslands) en kort og línurit eru mörg hver upphaflega komin úr grein á diskinum Alfræði íslenskrar tungu (ritstjórar Þórunn Blöndal og Heimir Pálsson, útg. Námsgagnastofnun) eða úr 11. kafla bókar Kristjáns Árnasonar Hljóð (Íslensk tunga III, Almenna bókafélagið 2005).

Eldri rannsóknaverkefni

Tilbrigði í færeyskri setningagerð

Rannsóknasjóður veitti tveggja ára styrk til þessa verkefnis (2008–2009). Meðumsækjendur voru Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson, en verkefnið var í raun framhald af eldri verkefnum sem umsækjendur höfðu unnið að. Markmiðið var að rannsaka tilbrigði í færeyskri setningagerð skipulega og með svipuðum hætti og gert hafði verið fyrir íslensku í Tilbrigðaverkefninu (sjá lýsingu hér neðar).  [... frekari lýsing og lokaskýrsla í vinnslu]

Tilbrigði í setningagerð

Þetta verkefni fékk öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði en meðumsækjendur voru  Eiríkur Rögnvaldsson, Sigríður Sigurjónsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Ásta Svavarsdóttir, Þórunn Blöndal. [Frekari lýsing í vinnslu, auk þess sem unnið er að bók um helstu niðurstöður. Sjá líka http://malvis.hi.is/tilbrigdi/]

Tilbrigði í setningagerð - Aðferðir og efnissöfnun

Áður en sótt var um öndvegisstyrk til verkefnisins Tilbrigði í setningagerð fékkst forrannsóknarstyrkur frá Rannsóknasjóði til undirbúnings. Markmiðið var annars vegar að kanna hvaða tilbrigði kynni að vera forvitnilegast að skoða og hins vegar að gera tilraunir með ólíkar aðferðir við efnissöfnun. [Frekari lýsing í vinnslu.  Sjá líka  http://malvis.hi.is/tilbrigdi/].

Samanburður norrænna eyjamála

Til þessa verkefnis fékkst styrkur frá Rannsóknasjóði 1996–1998.  Markmiðið var einkum samanburður íslensku og færeysku, eins og nafnið bendir til, og bókin Faroese – An Overview and Reference Grammar (2004) er helsti afrakstur þessa verkefnis, auk þess sem bókin The Syntax of Icelandic (2007) byggir að nokkru leyti á þessum rannsóknum. Færeyskubókin er almennt yfirlitsrit eins og nafnið bendir til og fjallar um hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði, setningafræði, mállýskur og málsögu, en á flestum þessum sviðum er samanburður við íslensku, og stundum líka forníslensku og önnur norræn mál, talsvert áberandi. Bókin The Syntax of Icelandic felur í sér mun fræðilegri og skipulegri samanburð norrænna mála, einkum íslensku og færeysku. Síðari rannsóknir á tilbrigðum í íslenskri og færeyskri (og norrænni) setningagerð hafa svo haldið áfram með þann þráð.

Styrkir til rannsókna í íslenskri setningafræði

Á árunum eftir 1995 fékk ég nokkra styrki úr Rannsóknasjóði Háskólans til rannsókna á íslenskri setningagerð. Markmiðið var að skrifa nokkurs konar framhald af kennslubókinni Íslensk setningafræði og reyndar byrjaði ég á þeirri vinnu fyrir 1991 og hélt henni áfram meðan ég kenndi við málvísindadeild Harvardháskóla 1991–1995.  Bókin Setningar (Íslensk tunga III) byggir m.a. á þessum rannsóknum og bókin The Syntax of Icelandic líka.

Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN)

Á 9. áratug síðustu aldar fengum við Kristján Árnason styrki úr Rannsóknasjóði, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og fleiri aðilum til að vinna að rannsókn á íslenskum framburðarmállýskum. Sú rannsókn var kölluð Rannsókn á íslensku nútímamáli, yfirleitt skammstafað RÍN. Rannsóknin náði til yfir 2.800 þátttakenda á ýmsum aldri um allt land. Við Kristján höfum gert grein fyrir helstu niðurstöðum þessarar rannsóknar á ýmsum vettvangi (sjá ritaskrá tengda þessari heimasíðu), en heildstæðustu yfirlitin er að finna í greinum í Íslensku máli (14, 1992), á margmiðlunardiskinum Alfræði íslenskrar tungu (2001), í greinasafni um norrænar mállýskur (Nordisk dialektologi, 2003) og í 11. kafla bókar Kristjáns Hljóð (Íslensk tunga III, 2005). Síðan er búið að setja verulegar upplýsingar, súlurit, línurit, kort og mállýskudæmi í stafrænu formi inn á mállýskuvefinn http://mállýskur.is.

Alþjóðlegt rannsóknasamstarf

Margt af þeim rannsóknaverkefnum sem hafa verið talin upp hér á undan hefur verið unnið í samstarfi eða einhvers konar tengslum við málvísindamenn í öðrum löndum, einkum norræna. Þetta á sérstaklega við tilbrigðaverkefnin (Tilbrigði í setningagerð, Tilbrigði í færeyskri setningagerð) sem tengjast hliðstæðum verkefnum annars staðar á Norðurlöndum í gegnum rannsóknanetin Nordic Language Variation Network (NLVN, sjá http://nlvn.uit.no/ ),  Nordic Center of Excellence in Microcomparative Syntax (NORMS, sjá http://norms.uit.no/) og  Scandinavian Dialect Syntax og í stjórn netsins (ScanDiaSyn, sjá http://uit.no/scandiasyn).

Samstarfsmenn við upphaflegar rannsóknir mínar á færeysku og meðhöfundar bókarinnar Faroese – A Handbook and Reference Grammar, þeir Zakaris Svabo Hansen, Jógvan í Lon Jacobsen og Hjalmar P. Petersen, hafa líka gegnt mikilvægu hlutverki og sama á við um fjölmarga færeyska aðstoðarmenn okkar við síðari rannsóknir á færeysku (sjá lokaskýrslu verkefnisins Tilbrigði í færeyskri setningagerð).