Heimsendir í nánd fyrir drengi á Íslandi?

Þann 31. janúar sl. hófst í Morgunblaðinu fjögurra greina flokkur sem birtist þá og næstu þrjár sunnudaga um málefni drengja – hálfgerð heimsendaumræða. Greinaflokkurinn hófst á orðunum „Það er gömul saga og ný að drengir eigi undir högg að sækja í íslenska skólakerfinu“. Í greinaflokkinum er byggt á þeirri tvíhyggju milli drengja og stúlkna að það sem annar hvor hópurinn fær sé tekið af hinum, til dæmis með því að halda því fram að fjölgun stúlkna úr brautskráningarhópum framhalds og háskóla geti leitt til „samfélagslegrar skekkju sem að óbreyttu á bara eftir að aukast“ (Grein 1, kynning, bls. 8).

Drengjaorðræðan – drengjaviðsnúningurinn

Drengaorðræðan um menntun og skóla er þekkt alþjóðlegt fyrirbæri og felur í sér viðsnúning frá því að huga sérstaklega að menntun stúlkna þar sem drengir séu orðnir eftir á í skólakerfinu, samanber fyrirsögn Morgunblaðsins 31. janúar: Þrengir að drengjum. Þessi orðræða um halla í skólakerfinu drengjum í óhag hefur flætt um meðal ríkari þjóða sem stundum eru nefndar alheimsnorðrið, meðan menntun stúlkna heldur áfram að vera meginviðfangsefnið sem Sameinuðu þjóðirnar leggja áherslu á meðal þjóða.

Í grein sem ég skrifaði með áströlsku kollegunum Bob Lingard og Martin Mills eftir að þeir höfðu heimsótt Ísland til að tala á ráðstefnu um drengjamenningu bárum við saman þessa orðræðu í löndunum tveimur. Við sáum skýr merki bakslags gegn meintum áhrifum femínisma á ástralskt skólakerfi en mun um slíkt bakslag á Íslandi. Síðan þá hafa verið haldnar ráðstefnur um málefni drengja og karla í kennslu, farið í átaksverkefni um nýliðun karla í yngri barna kennslu og skipaðir vinnuhópar, til dæmis um námsárangur drengja (skýrsla Reykjavíkurborgar 2011). Ein ráðstefna hefur verið í gangi síðan í haust og á fjórði hluti hennar að vera í mars – en þessi ráðstefna átti reyndar að vera eins dags ráðstefna í mars í fyrra og var frestað út af Covid.

Greinaflokkur Morgunblaðsins

Morgunblaðið ræddi við sjö karla og þrjár konur meðal fagfólks, stjórnmálafólks og leikmanna. Ég las greinarnar og sumar þeirra nokkrum sinnum til að átta mig á þeim þrástefjum sem kæmu fyrir í þeim og var þá einkum að leita að þekktum stefjum úr drengjaorðræðunni en einnig þeim heildarsvip sem var á umfjölluninni og ég gerði grein fyrir í upphafi.

Fyrirsagnirnar voru Þrengir að drengjum; Foreldrar hafi trú á færni sinni; Heil kynslóð er í húfi; Erum við tilbúin til að fórna einni kynslóð drengja? Eins og sjá má er fyrirsögn 2 nokkuð af öðrum toga. Eins er rétt að nefna strax að fyrirsögnin Heil kynslóð er í húfi, á grein númer 3, er ekki í góðu samræmi við viðtalið sem fylgir.

Þrástefin

Það er ekki þannig að ég setji mig móti öllu því sem sagt er í viðtölunum. Líklega er ég sammála meirihluta af því sem fram kemur þótt ég sé ekki ánægður með heildarumgjörðina eða heimsendaorðræðuna. Ég ákvað gera ekki greinarmun á orðum blaðs og viðmælenda og reyndar líka að nefna ekki viðmælendurna. Hér er tilraun til að greina orðræðu en ekki hanka viðmælendur fyrir einstök orð eða hrósa þeim fyrir önnur. Efftir atvikum er efnið endursagt eða orðrétt, oftast án gæsalappa.

Drengir í hættu – samfélag í hættu

Erum við tilbúin að fórna einni kynslóð drengja? (Grein 4, fyrirsögn, bls. 8).

Stórir hópar sem búa við skert tækifæri eru frjór jarðvegur fyrir ýmsar öfgahreyfingar í stjórnmálu, reiði og félagsleg vandamál (Grein 4, bls. 8).

Drengir gjalda árangurs kvenna - andfemínismi

Í meira en áratug hafa konur verið um 70% þeirra sem ljúka háskólaprófi á Íslandi sem er ein birtingarmynd þess vanda sem drengir glíma við innan skólakerfisins (Grein 4, kynning, bls. 8).

Í rammagrein er vísað í tveggja áratuga gamla bók, The war against boys: How misguided feminism is harming our young men, en reyndar er tekið fram að bókin hafi fengið misjafna dóma (Grein 4, bls. 10) – og er það ekki ofmælt.

Orka drengja og einbeitingarskortur drengja

Of langar kennslustundir (Grein 1, bls. 8).

Fanga þarf ástríðu drengjanna (Grein 1, bls. 12).

Brýnt að beisla orkuna (Grein 1, bls. 10).

Lengi hefur legið fyrir að skólakerfið virðist henta stúlkum betur en drengjum og við hljótum að þurfa að rýna í ástæður þess, skoða drengjamenninguna betur og vinna með hana. Þá er ég til dæmis að tala um orkuna, hvernig beislum við hana og leyfum henni að njóta sín? Við þurfum líka að vekja áhuga drengjanna svo að þeir upplifi að þeir hafi eitthvað fram að færa innan veggja skólans. Sé þeim bara troðið í boxið er það ávísun á vanlíðan, uppreisn og hegðunarvandamál (Grein 2, bls. 13).

Virkja þarf drengina frá fyrsta degi, örva áhuga þeirra og gera skólann merkingarbærari. (Grein 4, bls. 10).

Líffræðilegar skýringar – þörfin fyrir hreyfingu.

Að hans sögn eru líffræðilegar skýringar á því hvers vegna drengir eru fyrirferðarmeiri í leikskóla en stúlkur. Rannsóknir sýna að það tengist meðal annars testósteróni, sem drengir hafa meira af en stúlkur, en það hefur mikil áhrif á þeirra atferli. Testósterón hefur áhrif á þróun vinstri hluta heila drengja i fósturlífi. Testósteron er ein af ástæðum fyrir því að drengir eiga oftar í vanda með málþroska, hreyfiþroska, glíma oftar við lestrarerfiðleika, ADHD og einhverfu (Grein 1, bls. 10)

Mjög mikilvægt að kennslustundir séu ekki of langar í yngstu bekkjunum og boðið sé upp á hreyfingu alla daga sem börnin eru í skólanum (Grein 1, bls. 10).

Dagleg kröftug hreyfing skiptir sköpum hvað varðar vellíðan (Grein 3, bls. 10).

Skólakerfið hentar ekki drengjum

Fáir efast lengur um að skólakerfið hentar stúlkum betur en drengjum, það hefur ítrekað komið fram í þessum greinaflokki (Grein 4, bls. 10).

Karlkyns kennarar sem fyrirmyndir

Karlkennurum hefur fækkað jafnt og þétt á liðnum áratugum, ekki síst í grunnskólanum, og [viðmælandi] er í hópi þeirra sem gjalda var-hug við þeirri þróun. „Auðvitað horfa strákar ekkert síður upp til kvenna en karla í kennslu en jafnvægið þarf að vera meira. Þess utan gæti verið að strákar tengdu betur við karlkennara og fyndu í þeim fyrirmynd“. Hvað er hægt að gera til að snúa þessari þróun við og fjölga körlum í kennslu aftur? „Blasir það ekki við? Það hljóta fyrst og fremst að vera launin. Undirbyggingin frá hendi menntamálaráðuneytisins þarf líka að vera markvissari. Það þarf að leggja þetta þannig upp að bæði kynin sæki í þessi störf. Það þarf að hvetja drengi strax á grunnskólastiginu til að sækja síðar meir í kennslu, ekkert síður en stúlkur. En það er kannski erfitt þar sem fyrirmyndirnar eru svo fáar. Það eru vond skilaboð (Grein 2, bls. 13).

Vantar aðgerðir

Drengir í meirihluta þeirra 1100 nemenda í hverjum árgangi sem geti ekki lesið sér til gagns að loknu grunnskólaprófi. Á hverjum fjórum árum verður til hópur sem samsvarar íbúum Vestmannaeyja sem getur ekki lesið sér til gagns. Það sé ekki nóg að búa til tíu ára áætlun til þess að taka á þessu máli ... þetta sé alvarlegra en svo (Grein 4, bls. 8).

Við þurfum að byrja strax og grunnskólaganga hefst; vinna vinnuna betur þegar börnin eru sex og sjö ára. Við vorum þess umkomin að fara í markvissar aðgerðir varðandi stöðu kvenna á vinnumarkaði, þess vegna hljótum við að líka að geta tekið á vanda drengja í skólakerfinu. Markviss vinna skilar árangri. Virkja þarf drengina frá fyrsta degi, örva áhuga þeirra og gera skólann merkingarbærari. Skólinn þarf að tengja við drengina og taka betur utan um þá (Grein 4, bls. 11).

Kröfur til foreldra – stuðningur við foreldra

En þetta stendur ekki bara upp á skólakerfið. Foreldrar þurfa að gefa sér tíma til að hlúa að börnum sínum. Tala við þau, fylgjast með námi þeirra, veita þeim stuðning og aðhald og hjálpa þeim að finna leiðbeinendur og fyrirmyndir. „Það á ekki síst við um fyrstu árin, sem eru gríðarlega mikilvæg og mótandi. Það er útilokað mál að setja öll börn í sama farið.“ (Grein 1, bls. 12).

Aðgerðaleysi stjórnvalda leiðir því oftar en ekki af sér að hún [móðirin] annast meira um barnið. Líta má á slíkt aðgerðaleysi sem viðhaldandi afl við hefðbundin kynhlutverk eldri kynslóða. Auk þess fær móðirin mun meiri stuðning hjá heilbrigðiskerfinu á meðgöngu en faðirinn, samanber mæðravernd en ekki foreldravernd (Grein 2, bls. 12).

Það skiptir öllu máli að foreldrar hafi trú á færni sinni. Ef maður vill þá getur maður! (Grein 2, bls. 12).

Gegnum aldirnar hefur ábyrgð á barnauppeldi hvílt meira á mæðrum en feðrum en [viðmælandi] fagnar því að á seinni árum séu fleiri og fleiri feður farnir að taka virkari þátt og axla ábyrgð. „Það er sérstaklega mikilvægt að þeir gefi sér tíma til að tala við syni sína, um námið, áhugamálin, samskipti kynjanna og fleira, en kenningar um félagsnám benda á að við tileinkum okkur fremur hugmyndir og sjónarmið þeirra sem eru af sama kyni“ (Grein 2, bls. 12)

Þöggun

Fræðimenn eins og [nafni sleppt hér] eru búnir að hrópa þetta árum saman í eyðimörkinni (Grein 1).

Lokaorð

Kannski er of harmrænt að segja að blaðið spái heimsendi í umfjöllun sinni, en ef eingöngu eru lesnar fyrirsagnir og kynningarmálsgreinar blaðsins með stóru letri er það ekki fjarri lag. En ef greinarnar eru lesnar þá spá margir viðmælendur ekki slíkum örlögum.

Munu koma sérstakar aðgerðir til hagsbóta menntun drengja? Mín krafa er sú að allar sértækar aðgerðir fyrir tiltekna hópa verði ekki þess eðlis að þær geti bitnað á einhverjum öðrum. Ef gert verður ráð fyrir meiri hreyfingu fyrir drengi – þarf ekki að gera líka ráð fyrir meiri hreyfingu fyrir önnur börn? Annað viðmið sem ég set er að ekki verði slegið af kröfum til drengjanna til að koma til móts við meintan einbeitingarskort. Heppilegast er breytingar sem yrðu gerðar á skólastarfi nái til allra nemenda.

Vesturbæjarskóli stóð að þróunarverkefni sem hófst 2005 – varð móðurskóli um drengjamenningu (sjá til dæmis Morgunblaðið, 7. apríl 2005). Vesturbæjarskóli ákvað strax að fara eftir viðmiðum af því tæi sem ég hef nefnt: Að slá ekki af kröfum til drengja eða annarra barna og að breytingar næðu til allra barna. Kennarar úr skólanum heimsóttu skóla á Englandi sem voru þekktir fyrir að þær væri lítill munur á námsárangri drengja og stúlkna og innleiddi í kjölfarið kennsluaðferðir um ritun (sjá viðtal í Morgunblaðinu, 29. janúar 2008). Aðferðirnar hafa verið teknar upp í mörgum skólum (sjá til dæmis handbók eftir Önnu Svanhildi Daníelsdóttur og fleiri í Álftanesskóla).

Læt svo staðar numið í bili.

Heimildir

Anna Svanhildur Daníelsdóttir Brynhildur Snorradóttir Guðfinna Aradóttir Rannveig Stefánsdóttir. (2015–2017). Handbók. Kennsluhættir í anda John Morris. Sótt af https://www.gardabaer.is/media/throunarsjodur-grunnskola/Upp-a-bord---G2015-_Alftanesskoli.pdf

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Bob Lingard & Martin Mills. (2009). Possibilities in the Boy Turn? Comparative Lessons from Australia and Iceland. Scandinavian Journal of Educational Research, 53:4, 309­–3­25, DOI: 10.1080/00313830903043083

Kennsla sem skilar árangri, líka hjá strákum. (2008, 29. janúar). Morgunblaðið. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1188586/

Morgunblaðið, 31. janúar ,bls. 8, 10, 12; 7. febrúar, bls. 12–13; 14. febrúar, bls. 8, 10; 21. febrúar, bls. 8, 10.

Móðurskóli fyrir drengjamenningu. (2005, 7. apríl). Morgunblaðið. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1010753/