Ágengar (framandi) lífverur

Karl Benediktsson, janúar 23, 2011
Dálítið stormviðri hefur geisað undanfarið hér á landi vegna endurskoðunar á náttúruverndarlögum, sem stendur yfir. Skógræktarfólk andmælir ákvæðum um "ágengar framandi tegundir" sem lagt er til að setja inn í lögin. Vistfræðingar andmæla andmælum þeirra og færa fram sannleik sinna vísinda.
Ég hef lengst af verið heldur smeykur við "ágengar (framandi) tegundir" í "íslenskri" náttúru. Kannski skrifast það að hluta á fræðilegt uppeldi mitt á Nýja Sjálandi og í Ástralíu. Þar eru ummerki vistfræðilegrar heimsvaldastefnu auðsæ. En... ég get samt ekki varist þeirri hugsun að hér á Íslandi séu fulltrúar beggja sjónarmiða fastir í einhvers konar skotgröfum. Annað hvort ELSKAR þú eða HATAR alaskalúpínuna, sitkagrenið, spánarkerfilinn og stafafuruna. Ákveddu þig! NÚNA!
Var að enda við að lesa mjög fína grein eftir breskan landfræðing um þessi efni. Hann sýnir fram á að hugtakið "framandi" er harla vandmeðfarið og raunar ónothæft í þessu samhengi. Í staðinn vill hann að við einbeitum okkur að þeim skaða sem aðkomnar plöntu- eða dýrategundir kunna að valda lífríkinu sem fyrir er.
Það sem er áhugaverðast í þessu sambandi er hvernig umræðurnar leiða í ljós að náttúran er - alltaf - félagslega smíðaður raunveruleiki. Samfélagsleg gildi eru hluti af allri umræðu um náttúruna. Gildir þá einu hvort við tilheyrum kampi skógræktarfólks eða vistfræðinga.