Elskum köngulærnar

Karl Benediktsson, júlí 1, 2015

Araneus_diadematusÞær eru mættar utan á húsið mitt. Köngulærnar. Þessi stórmerkilegu dýr birtast þegar sumarið er komið í algleyming og vefa listaverk sín undir þakskegg og stundum jafnvel utan á glugga, mér til ómældrar ánægju. Það er ákaflega gaman að fylgjast með snjallri og einbeittri krosskönguló (Araneus diadematus) spinna vef sinn utan við rúðu. Að ég tali nú ekki um að fylgjast með pínulitlum ungum í tugatali stíga sín fyrstu áttfætluskref á húsveggnum. Náttúran er undursamleg, og það þarf ekki að fara langt til að njóta hennar.

Eitt sinn bjó ég í Ástralíu. Í því góða landi er mikið köngulóaval. Ég játa að þær voru mis-skemmtilegar í viðkynningu. Rauðbökurnar (Latrodectus hasseltii) héldu til í garðskúrnum mínum. Það var eins gott að halda sér í hæfilegri fjarlægð frá þeim, því stunga þessara áttfættu andfætlinga er eitruð þótt smáar séu þær. Hins vegar eru þær gullfallegar. Á stofuveggnum birtust hins vegar stundum stórar hlussur af allt annarri tegund, huntsman (Holconia immanis). Þótt þær hefðu kannski ekki útlitið með sér voru þær ágætar þegar maður kynntist þeim betur. Voru duglegar í að halda heimilinu lausu við ýmis skordýr, sem líka var nóg af þarna í landinu undir niðri.

En aftur til Íslands. Óskiljanlegur finnst mér annar fylgifiskur hins reykvíska sumars: Auglýsingar frá mönnum sem vilja ólmir fá að eitra fyrir blessuðum köngulónum! Þær birtast um sama leyti og köngulærnar. Greinilega er markaður fyrir svona lagað. En þarna er margs að gæta. Á sama tíma og landsmenn kvarta hástöfum yfir ýmsum pöddum, svo sem geitungum og nú síðast lúsmýi, er eitrað fyrir köngulóm, sem gera engum nema flugum mein! Kannski hefur það fólk sem heldur eiturbrösurunum uppi með viðskiptum við þá ekki hugsað þetta alveg til enda?

Almennt finnst mér afar ógeðfelld tilhugsun að úða eitri yfir hús og garða, af hvaða tilefni sem það kann að vera, en þetta lítur út eins og hrein heimska þegar köngulær eru annars vegar. Hættum þessu eiturbixi og njótum sumarsins með köngulónum.