Að troða plastmarvaðann

Karl Benediktsson, maí 6, 2017

Ég fattaði um daginn að ég er í rauninni lítill plastkall, sem lifi í plastheimi. Litla plastlandið mitt er umlukið af stóru plasthafi. Í stuttu máli: Líf mitt – og okkar allra – er allt í plasti.

Á ári hverju eru framleiddar 3–400 milljónir tonna af plastefnum. Að minnsta kosti átta milljónir þeirra enda á hverju ári í sjónum. Þar hjálpast útfjólublá geislun sólar og kraftur haföldunnar að við að brjóta plastefnin niður í örsmáar agnir sem finna sér leið inn í lífverur og valda þar skaða. Nýlega var áætlað að um 51 trilljón örplastagna væru á sveimi í sjónum um þessar mundir, eða 500 sinnum fleiri an allar stjörnur Vetrarbrautarinnar. Allt of stórar tölur auðvitað til að hafa einhverja raunverulega merkingu fyrir okkur venjulegt (plast)fólk.

Plast kom til sögu í iðnríkjum Vesturlanda um miðbik 20. aldar og varð strax að táknmynd einnotahagkerfis fjöldaneyslunnar. Hins vegar er um 60% þess plasts sem endar í hafinu nú um stundir talið koma frá einungis fimm löndum – sem öll eru í Asíu. Þetta eru Kína, Indónesía, Filippseyjar, Thailand og Víetnam. Hver er ástæðan?

Hún er margþætt. Fyrir að fyrsta eru öll þessi fimm lönd á hraðri leið inn í svipað neyslusamfélagsmynstur og við þekkjum úr eigin ranni. En meðferð úrgangs er víða ábótavant. Einungis lítill hluti sorps er hirtur með skipulögðum hætti á vegum opinberra aðila og komið á viðeigandi stað. Eða stundum alls ekki – þar sem eftirlit er lítið freistast sorpverktakar gjarnan til að sturta ruslinu einfaldlega á stöðum þar sem enginn sér, til að spara sér akstur og útgjöld.

Hins vegar er í Asíu og víðar afar líflegur markaður með endurnýtanlegt rusl. Safnarar, sem eins og kannski gefur að skilja tilheyra einkum fátækustu lögum samfélagsins, hirða það úr ruslinu sem selja má áfram til endurnýtingar. Þetta fólk vinnur sannarlega mikið þjóðþrifastarf. Þeir sem kaupa ruslið gegna líka stóru hlutverki. Undirritaður heimsótti fyrir skemmstu endurvinnslufyrirtækið Wongpanit, hið stærsta í Thailandi. Þar stóð her manns við færibönd og flokkaði plastefni, allt niður í stráin sem fylgja hverri plastflösku sem seld er í 7-Eleven-sjoppunum – en þær eru bókstaflega eru á hverju strái í því góða landi. Wongpanit selur síðan plastið flokkað og frágengið til frekari vinnslu. Fyrirtækinu hefur tekist að gera rusl af ótrúlega margvíslegu tagi að markaðsvöru. En sumt er einfaldlega ekki nógu arðbært frá sjónarhóli ruslasafnaranna. Í Indónesíu fylgdist ég með berfættum safnara með stóran sekk á baki tína upp plastflöskur af götunni. Plastpokana hins vegar lét hann alveg eiga sig. Þeir skila enda litlu í vasa safnarans. Mikið af plastpokum hafnar þess vegna í sjónum á endanum. Og reyndar furðu mikið af plastflöskunum líka.

Í áðurnefndum fimm löndum – og í allri Austur- og Suðaustur-Asíu reyndar – er ört stækkandi millistétt, sem tekur þátt í neyslusamfélaginu af krafti. Í Thailandi er t.d. mjög áberandi hversu mikið er selt af tilbúnum mat, í plastumbúðum að sjálfsögðu, til að taka með heim. Útbreidd fátækt í þessum heimshluta er hins vegar með vissum hætti líka orsök að ofgnótt plasts í umferð. Lítil kaupgeta almennings leiðir til þess að fyrirtæki selja gjarnan vöru sína í örlitlum og ódýrum skömmtum. Í Indónesíu er þetta mjög áberandi – smáskammtar af þvottaefni, sykri, kaffi og fleiri vörum til daglegs brúks eru fyrirferðarmiklir í hverri búð, í plastumbúðum að sjálfsögðu. Þegar pokinn litli er tæmdur lendir hann oftar en ekki í klóm vinda og vatns. Leiðin liggur á endanum til sjávar, það sér náttúran um.

Það er reyndar umhugsunarvert hve einkennileg þróunin hefur verið í kaffimálum á Íslandi og víðar, þar sem kaffivélar fyrir einnota plasthylki hafa rutt sér til rúms. Furðuleg öfugþróun það! Samkvæmt tölum sem finna má á heimasíðu Landverndar notar hver Íslendingur 40 kg af umbúðum úr plasti árlega. Best væri auðvitað að minnka þessa plastnotkun verulega. En að minnsta kosti hefur hið forríka Ísland enga afsökun til að standa sig ekki í stykkinu í því að koma í veg fyrir að plast endi í hafinu. Einstaklingar, fyrirtæki og yfirvöld þurfa að leggjast á eitt við að hætta að troða plastmarvaðann. Ísland þarf ekki að vera Plastland.

(Birtist fyrst 6. maí 2017 á vefnum Umhverfisfréttir)