Rafbílaþankar

Karl Benediktsson, október 17, 2019

Ég á bíl – og það þótt ég búi í miðborg Reykjavíkur. Nota hann nánast eingöngu til að komast út fyrir borgina af og til. En hann er farinn að eldast svolítið: Var skrúfaður saman í Japan árið 2005. Ef marka má málflutning bílainnflytjenda ætti ég löngu að vera búinn að setja hann í brotajárn. Ætti ég ekki að drífa í að fá mér rafbíl?

Nýlega var birt mjög áhugaverð skýrsla sem Orka náttúrunnar lét gera um kolefnisspor rafbíla annars vegar og hefðbundinna bensín- eða dísilknúinna bíla hins vegar. Þarna er litið á allan lífsferilinn – framleiðslu ökutækisins og notkun þess. Í ljós kemur að framleiðsla rafbíls hefur talsvert stærra kolefnisfótspor en framleiðsla bensínbíls. Þar munar mestu um rafhlöðurnar. Losun vegna viðhalds er hins vegar nokkru minni. Eins og gefur að skilja er munurinn mestur þegar kemur að orkunotkun við sjálfan aksturinn. Ólíkt því sem gerist víðast hvar annars staðar er raforka á Íslandi framleidd með mjög lítilli beinni losun koldíoxíðs (þótt vissulega sé hún nokkur, frá jarðvarmavirkjunum). Niðurstaða skýrsluhöfunda er að strax að loknu rúmu ári í notkun sé rafbíllinn farinn að skila minni heildarlosun en bensínbíllinn.

En fyrir íbúa í miðborginni er ekki endilega auðvelt að skipta. Það er hleðsluaðstaðan sem strandar á. Mikið er um fjölbýli, eins og reyndar víða í borginni. Nokkrir nágrannar mínir, sem búa í einbýli, hafa að vísu verið að búa til einkabílastæði á lóðum sínum. Þá er hægt að koma fyrir hleðslustöð (þótt sumir noti stæðin bara fyrir stóru díselpikkapana sína!). En þetta hvorki get ég né vil. Það er alls ekki góð þróun í borgarumhverfinu að klípa af litlum grænum blettum á milli þéttstæðra húsa og gera að bílastæðum. Hér þarf nýjar og skapandi lausnir.

Það er fleira sem skapar örlítið hik í huga mínum. Í skýrslunni góðu er ekkert fjallað um förgun á rafhlöðum. Tekið er fram að erfitt sé að meta þetta. Svo tími ég bara ekki að afskrifa gamla bílinn. Mig verkjar hreinlega í höfuðið í hvert sinn sem ég neyðist til að henda einhverju. Neyslusamfélag okkar tíma gengur út á að kaupa og henda. Bílainnflytjendur vilja að sjálfsögðu kynda undir þetta. Sumir reyna meira að segja að plata fólk með því að láta sem fullkomlega bensínknúnir bílar (tvinnbílar sem ekki er unnt að hlaða) séu „50% rafdrifnir“! Kjaftæði og skrum, svo það sé nú sagt hreint út.

Hugarfari neyslusamfélagsins þarf umfram allt að breyta. Ætli ég láti ekki gamla bílinn bara duga í einhver ár í viðbót. Hann er nú þrátt fyrir allt með rafknúnum rúðuvindum.