Sjúkrahús og flugvöllur: Tvö landfræðileg deilumál

Karl Benediktsson, 22/09/2013

Spitali

Enn er deilt um hvort flugvöllurinn í Vatnsmýri skuli vera eða fara. Í nýafstaðinni undirskriftasöfnun var mikið gert úr nálægð vallarins við Landspítalann – annað fyrirbæri hvers staðsetning hefur ekki verið óumdeild. Ég hef átt dálítið erfitt með að mynda mér sterkar skoðanir í þessum tveimur málum, en nú held ég að niðurstaðan sé komin.

Ég hef sannfærst um að það væri ekki rétt að byggja nýjan spítala á lóð þess gamla við Hringbraut. Betri staður væri vestanverður Ártúnshöfðinn, nánar tiltekið svæðið þar sem nú eru aðallega steypustöðvar og bílasölur. Kostur þessarar staðsetningar er ótvírætt sá hversu vel þetta liggur við samgöngum og byggð (sjá kort). Þarna er Vesturlandsvegurinn við hliðina og Suðurlandsvegur kemur inn á hann ögn austar. Fyrir þann stóra hluta landsins sem reiðir sig á landsamgöngur við höfuðborgina (þar með talið sjúkraflutninga með bílum) er þetta mun betri staðsetning en við Hringbraut. Fyrir höfuðborgarsvæðið sjálft þýðir þetta líka betra aðgengi fleira fólks að spítalanum. Þungamiðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu liggur í Fossvogi. Það kemur ekki til með að breytast verulega þótt skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi nú góðu heilli snúið frá úthverfavæðingu og unnið sé að því að þétta byggðina vestan Elliðaáa. Og þarna á Höfðanum er (ennþá) nægt landrými. Landfrek starfsemi eins og steypustöðvar og bílasölur er þeirrar náttúru að hún flyst gjarnan út í jaðar þéttbýlisins. Það er því einungis spurning um tíma hvenær landnotkun á þessu svæði tekur að breytast, svipað og gerst hefur á mörgum fyrri iðnaðarsvæðum innar í borginni.

Þessi hugmynd er ekki gallalaus samt sem áður. Húsakynnin sem fyrir eru við Hringbraut myndu til dæmis að sjálfsögðu ekki nýtast spítalanum. Þeim þyrfti að finna ný hlutverk. Talsvert hefur einnig verið gert úr nálægð Hringbrautarsvæðisins við aðallóð Háskóla Íslands og þeim möguleikum sem þetta skapar á frjóu samstarfi. Þetta held ég að sé ekki sérlega mikilvægt atriði á okkar rafrænu samskiptatímum. Og helstu strætóleiðir tengja vel saman háskólasvæðið og Ártúnshöfðann.

Og þá er það flugvöllurinn. Öllum held ég að sé ljóst að flugið verður ekki í Vatnsmýri um óendanlega framtíð. Þarna er prýðilegt borgarland fyrir framtíðina. Ég er nú samt satt að segja afskaplega feginn að svæðið lenti ekki í höndunum á óðum peningamönnum á forhrunsárunum – við hefðum endað með afskaplega ljóta og óvandaða byggð er ég hræddur um. Og fyrir mér má alveg dragast í nokkur ár enn að flytja flugið. Á meðan gefst tími til að læra betur að fóta sig í borgarskipulagi og borgarhönnun. En að lokum mun flugið flytja til Keflavíkur. Þaðan er beinn og breiður vegur á spítalann sem yfirvöld munu byggja á Ártúnshöfða þegar þau fatta þessi landfræðilegu rök mín.