Tollheimta við þjóðveginn
Þegar ég sá myndir í fjölmiðlum nýlega af kuldagallaklæddum hliðvörðum við Geysi í Haukadal reikaði hugurinn til baka um tuttugu ár. Þá dvaldi ég um níu mánaða skeið við rannsóknir í því fallega (en fátæka) landi, Papúu Nýju-Gíneu.
Ég bjó í þorpi ofarlega í Asarodal, í hálöndunum svokölluðu og hafði lítinn pallbíl til umráða. Vegir eru lélegir á þessum slóðum. Flestir höfðu þeir verið lagðir á nýlendutímanum, en landið hlaut sjálfstæði fyrir réttum fjörutíu árum. Síðan hafði regnið unnið sitt starf óslitið, en viðhald hafði verið af skornum skammti. Vegirnir voru því illir yfirferðar og oft nánast ófærir. Brýr voru margar hrörlegar orðnar og vantaði jafnvel hluta brúargólfsins. Að sjálfsögðu hafði þetta ástand lamandi áhrif á samgöngur og þar með á efnahags- og mannlífið í þessum annars gjöfula dal.
Af og til dró til tíðinda við sumar af hinum götóttu brúm. Ungir menn úr nærliggjandi þorpi tóku sig þá til, hjuggu nokkur tré og lögðu trjábolina yfir götin. Svo stóðu þeir vörð við veginn og innheimtu tveggja kína brúartoll af hverju ökutæki sem vildi komast yfir. Þetta voru kraftalegir strákar, gjarnan í götóttum gallabuxum og svörtum bolum með AC/DC merki framan á og sveðju í hönd.
Ég átti erfitt með að sætta mig við þetta einkaframtak. Ekki vegna þess að ég hefði ekki efni á því að borga tollinn, heldur vegna þess að þetta braut í bága við mín eigin grundvallarsjónarmið. Samkvæmt minni sýn á heiminn tilheyra vegir og brýr þeim innviðum sem samfélagið hefur komið sér upp í sameiningu og eiga að vera til afnota fyrir alla, enda kostaðir úr sameiginlegum sjóðum. Ég reyndi því að forðast þessa staði þegar ég vissi að eitthvað svona væri í gangi, en þegar það var ekki hægt lenti ég oft í heilmiklu þrasi við hina sjálfskipuðu brúarverði. Talsverður æsingur fylgdi oft samkomunni. Ósjaldan lagði megna áfengislykt af brúarvörðunum, í bland við ilminn af Cannabis sativa.
Einnig í Haukadal hafa „heimamenn“ tekið lögin í sínar hendur, með þeirri réttlætingu (í orði kveðnu) að ríkisvaldið hafi ekki staðið sig í stykkinu við að byggja upp innviði svæðisins til að búa það undir þann herskara sem þangað kemur á hverjum einasta degi.
En þarna við Geysi er þetta ekki spurning um að innheimta einhverja túkalla yfir daginn, svona rétt til að geta keypt nokkrar bjórkippur til viðbótar. Nei, við erum að tala um verulega fjármuni. Því er haldið fram að þetta sé allt í göfugum náttúruverndartilgangi gert. Kannski er það rétt – ef til stendur að leggja gangstígana ítölskum marmara og setja upp keðjur úr skíra gulli til að fólk detti ekki í hverina. Hveragufa er auðvitað tærandi, svo það er eins gott að nota almennilega eðalmálma.
Við Geysi snúast upphæðirnar nefnilega ekki um milljónir, og ekki um tugi milljóna, heldur hundruð milljóna króna á ársgrundvelli. Hver heilvita maður sér að þeir sem fara fyrir innheimtu við Geysi ætla sér einfaldlega að græða – heilan helling – á því að selja aðgang að náttúruskoðun, á stað sem er í þokkabót í ríkiseigu að hluta. Þetta er ömurleg þróun í landi þar sem frjáls aðgangur að náttúrunni hefur verið álitinn sjálfsögð samfélagsleg gæði til þessa. Almannarétturinn á sér djúpar rætur í íslenskri sögu og var ákvæði um hann að finna í Jónsbók. Síðan sérstök lög voru fyrst sett um náttúruvernd árið 1956 hafa þar verið ákvæði um þessi efni.
Vissulega hefur íslenska ríkið staðið sig afspyrnu illa við hlúa að vinsælum ferðamannastöðum, hvort heldur þeir eru í eigu ríkisins eða annarra aðila. Ríkið hefur enn fremur vanrækt að búa vaxandi ferðamennsku viðunandi umgjörð, þannig að fjármagn renni til náttúruverndar og endurbóta á áfangastöðum í takt við fjölgun ferðafólks. Þessu verður að breyta, en það verður að gera á máta sem ekki gengur í berhögg við almannaréttinn og við sómatilfinningu landsmanna sjálfra.
Frá mínum bæjardyrum séð er unnt að gera þetta með nokkrum ólíkum leiðum. Í fyrsta lagi þarf einfaldlega að veita hluta þess drjúga fjár sem ferðaþjónustan sjálf skilar nú þegar til sameiginlegra sjóða til bráðnauðsynlegra verkefna á ferðamannastöðum. Reyndar mætti minna á það í leiðinni að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu er af einhverjum undarlegum orsökum einungis 7%. Engar skynsamlegar ástæður liggja að baki því að ferðaþjónustan fái slíkan skattaafslátt. Í öðru lagi þurfa ferðaþjónustufyrirtæki sem selja náttúru og landslag að greiða fyrir aðgang að þessari sameign okkar – nokkurs konar auðlindagjald. Einkum er þetta borðleggjandi á þeim svæðum sem ríkið sjálft hefur verndað. Dugi þetta ekki til má vel hugsa sér komugjald sem lagt væri ofan á farmiða til landsins.
Þegar ég ber þessi tvö dæmi saman hallast ég að því að strákarnir í Asarodal hafi átt sér mun betri málstað en tollheimtumennirnir í Haukadal. Á Papúu Nýju-Gíneu er ríkisvaldið sannarlega vanmáttugt og pólitísk umræða veikburða. Tækifæri almennra íbúa til að hafa áhrif á gang mála eru takmörkuð. Á Íslandi höfum við hins vegar alla burði til að skipa málum á geðfelldari hátt en með því að reisa tollheimtuskúra út um allar koppagrundir. Stöndum á rétti okkar til aðgangs að náttúru landsins, gerum þá kröfu á stjórnvöld að þau stöðvi ólöglega gjaldtöku þegar í stað, en sinni náttúrunni og verndun hennar af þeim myndarskap sem hún á skilið.