Farsótt

Karl Benediktsson, 30/08/2015

Í götunni minni stendur gamla Farsóttarhúsið. Þetta er að mínu mati einkar glæsilegt hús (ég er kannski ekki alveg hlutlaus, því Farsóttarhúsið var teiknað og smíðað af sama húsameistara og byggði húsið sem ég bý sjálfur í – Helga snikkara og ‚lúðurþeytara‘ Helgasyni). Frá 1884 til 1902 var það aðalsjúkrahús smábæjarins Reykjavíkur.

Síðan hefur húsið gengið í gegnum ýmislegt. Nú síðast var Farsótt um margra ára skeið athvarf fyrir heimilislausa karlmenn. Síðdegis tíndust þeir inn eftir götunni minni með plastpokana sína, í misjöfnu ástandi, á leið í gistiskýlið. Góðir kallar sem höfðu marga fjöruna sopið og sem töluðu mörg tungumál. En nú er athvarf hinna heimilislausu flutt á Lindargötu. Ég sakna nágrannanna pínulítið. Nú eiga leið framhjá mínu húsi fyrst og fremst túristar með dragkistlana sína.

Hins vegar vekur Farsóttarhúsið upp ýmsar spurningar af minni hálfu. Skyldi ekki hafa verið freistandi að prjóna bara við sjúkrahúsið á sínum tíma, til að sinna brýnum þörfum vaxandi bæjar – og Íslands alls – fyrir spítala? Hvernig hefði það nú endað ef Landspítalinn hefði verið byggður sem viðbót við Farsótt, á þessum sama stað í Þingholtunum? Værum við þá kannski hér með gríðarlega flækju spítalabygginga, sem teygði sig vítt og breitt um annars smágerða byggðina í Þingholtum?

Þetta eru retorískar spurningar að sjálfsögðu. Landsspítali var á endanum byggður á þáverandi útmörkum Reykjavíkurbæjar, á spildunni milli Barónsstígs og Hringbrautar. Seinna var reyndar heill Borgarspítali byggður inni í Fossvogi, upp á margar hæðir, með lyftu og allt. Hvor tveggja ákvörðunin, um byggingu gamla Landspítalans og um Borgarspítalann, ber vott um dirfsku og framsýni á mælikvarða sinnar samtíðar.

Dirfska og framsýni einkenna ekki sérstaklega þau áform sem nú á að fara að framkvæma, um viðbyggingar við gamla Landspítalann við Hringbraut. Það væri svo upplagt núna að hugsa þetta allt upp á nýtt – taka mið af því að borgin sjálf er nú einhvernveginn allt önnur skepna en þorpið sem þetta var fyrir hundrað og þrjátíu árum þegar Helgi Helgason teiknaði Farsóttahúsið, og að landið í heild er einhvernveginn allt öðruvísi í laginu en þá.