Auðmagnið og tungan

Karl Benediktsson, nóvember 12, 2015

Getur verið að tungutak okkar hafi orðið auðmagninu að bráð? Mér datt þessi spurning í hug um daginn. Við virðumst nefnilega varla lengur getað talað um neitt sem skiptir okkur máli nema hnýta við það viðskeytinu -auður. Eða á útlensku: Kapítal.

Nafni minn Marx skrifaði auðvitað heilan doðrant um hugtakið: Das Kapital. Með stórum staf. Honum var mikið niðri fyrir. Auðmagnið er býsna merkilegt rit, skrifað í London sem gagnrýni á þær skelfingar sem hin klassíska auðhyggja hafði haft í för með sér á nítjándu öldinni. Bretland þessa tíma var umhverfi þar sem fjármagnseigendur – kapítalistar – höfðu nokkurn veginn frítt spil til að sanka að sér (fjárhagslegum) auði með því að arðræna verkalýð í eigin landi, að ekki sé minnst á þá sem orðið höfðu nauðugir að nýlenduþegnum Breta og annarra Evrópuþjóða.

En kapítal-hugtakið hefur heldur betur gengið í endurnýjun lífdaga á undanförnum árum. Tökum til dæmis hugtakið félagsauður (e. social capital), sem ég var sjálfur svolítið spenntur fyrir í upphafi þessarar aldar. Þetta hugtak þýðir í raun einfaldlega það sem skáldið Einar Ben orðaði svo vel: „Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“. Sem sagt, fólk nýtur margvíslegra gæða af því að vera samvistum við annað fólk. Meðal annars getur samfélag við aðra hjálpað manni að koma hugmyndum sínum og áformum í verk. En þarf endilega að tengja þetta við kapítal?

Verst af öllu finnst mér hugtakið mannauður (e. human capital), sem hefur bókstaflega tröllriðið samfélaginu á undanförnum árum. Þarna er átt við þá þekkingu og færni sem hver einstakur starfsmaður í fyrirtæki eða stofnun getur lagt af mörkum til fyrirtækis eða stofnunar. En hugtakið felur í sér ákaflega takmarkandi sýn á hlutverk hins vinnandi manns. Persóna hans skiptir litlu máli lengur. Hann er hlutgerður, gerður útskiptanlegur fyrir aðra þætti sem geta sem best stuðlað að vexti og viðgangi fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Og sagt að hlaupa sífellt hraðar: Frammistaðan er mæld og vegin með alls konar tilbúnum prikum og punktum.Svo hefur verið búin til heil stétt mannauðsstjóra (e. human resource managers) til að möndla með starfsfólkið. (Áður var bara talað um starfsmannastjóra. Það var skömminni skárra held ég.)HumResMan

Ég held að þessi almenna auðvæðing tungumálsins hafi með nýfrjálshyggjuna að gera: Þessa lúmsku pólitísku hugmyndafræði, sem hefur þrengt sér inn í flesta kima tilverunnar á síðari tímum án þess að við yrðum þess vör. Jafnvel Karl Marx sá þetta ekki alveg fyrir í doðrantinum Das Kapital.