Sjómenn í verkfall

Karl Benediktsson, desember 17, 2016

Þá er sjómannaverkfall víst skollið á. Ekki gott. Satt að segja hafði ég frekar brotakennda mynd af sjómannslífi áður sjálfur en ég tók upp á því að gerast nokkurs konar „akademískur farþegi“ einn túr á frystitogaranum Vigra RE-71 í febrúar-mars á síðastliðnu ári. Þetta var sannarlega mikilsverð reynsla. Yfirlýstur tilgangur ferðarinnar var að skoða tengsl sjómanna á stóru og tæknivæddu skipi á borð við Vigra við náttúruna sem er starfsvettvangur þeirra. Á endanum varð úr þessu grein sem birtist í tímaritinu „Environment, Space, Place“. Hvað sem því líður jókst skilningur minn á starfi sjómanna að mun við þessa reynslu, ekki síst skilningur á þeim veruleika sem þeir verða að búa við, að vera fjarri fjölskyldu og vinum svo vikum skiptir. Ég ber héðan í frá enn meiri virðingu fyrir starfi sjómanna og óska þeim góðs árangurs í samningaviðræðunum – ekki mun af veita ef að líkum lætur: Stórútgerðin er einn harðsnúnasti hópur fjármagnseigenda sem fyrirfinnst á Íslandi.