Á föstudaginn eftir hádegi fór ég ásamt nemendum í námskeiðinu Landslag, náttúrusýn og nýting lands í hringferð um Hvalfjörð. Við vorum að pæla í landslagi fjarðarins og þeim öflum sem það hafa mótað og eru enn að. Nemendur söfnuðu í sarpinn fyrir verkefnavinnu í námskeiðinu. Þetta var afar skemmtileg ferð - Hvalfjörðurinn er svo fjölbreytt, fallegt og spennandi svæði. Og ekki spillti að fá óvænta kennslustund í mannasiðum frá sjálfum Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf, þegar hópurinn staldraði við í nokkrar mínútur á Miðsandi.
Föstudaginn 24. september verður haldin Vísindavaka RANNÍS í Listasafni Reykjavíkur. Fulltrúi landfræðinnar þar verður Friðþór Sófus Sigurmundsson, meistaranemi. Hann hefur verið að gera merkilegar rannsóknir á gróðurfars- og búsetusögu Þjórsárdals. Landfræðingar koma sannarlega víða við í rannsóknum sínum.
Ég notaði góða veðrið síðdegis í fyrradag til að skreppa á sjó. Ekki hægt að sleppa þessu tækifæri áður en haustlægðirnar hindra róður á gamalli trillu. Ekki bærðist hár á höfði og sólin skein á milli skúranna. Múkki og máfur fylgdust með veiðinni af athygli og fengu dálítið í sinn hlut, þótt aflinn hafi nú ekki verið mikill - aðallega nokkrar smáýsur og frekar litlir þorskar.
En Reykjavík lítur öðruvísi út af sjó en af landi. Úr hæfilegri fjarlægð sér maður hið stóra samhengi borgarlandslagsins einkar vel. Víðáttur borgarinnar, sem vaxið hefur óralangt út frá upprunalegum kjarnanum í Kvosinni, verða ljósar. Umdeilanlegar ákvarðanir í skipulagsmálum í fortíðinni verða enn umdeilanlegri - eða kannski einmitt óumdeilanlega rangar.
Ein af þessum ákvörðunum var niðurrif gamalla iðnaðarbygginga við Skúlagötu og bygging háhýsa í Skuggahverfinu. Ef ég man rétt voru einmitt færð fram þau rök þegar þessar ákvarðanir voru teknar að gera þyrfti ásýnd borgarinnar „borgarlegri“ frá sjó - þannig að farþegar skemmtiferðaskipa fengju á tilfinninguna að þeir væri að koma til alvöru borgar! Þetta hlýtur að vera hámark yfirborðsmennskunnar í borgarskipulagi. Þetta var reyndar fyrir margt löngu, vel fyrir aldamótin síðustu. Og svo kom 2007 og allt það. Afsprengi þess ólánstíma er bygging sem sést langa vegu að frá sjó - glerturninn við Höfðatún.
Fyrir nokkrum árum las ég ágæta bók eftir bandarískan höfund að nafni James Kunstler: „The Geography of Nowhere“. Kunstler lýsir hvernig fjárhagslegir hagsmunir og skipulagskreddur sameinuðust um að rústa miðborgum Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni. Hér skynja mjög margir nú hverjar ógöngur byggðaþróun og skipulag á höfuðborgarsvæðinu hefur ratað í. En það er enn líf í gömlu Reykjavík þrátt fyrir allt og tækifæri til að taka upp ný og yfirvegaðri vinnubrögð. Þar þurfa landfræðingar, skipulagsfræðingar og aðrir sem pæla í nýtingu og ráðstöfun rýmis að leggjast á eitt.