Frá því í samkomubanninu höfum við verið að leita leiða við að bjóða skólahópum upp á eitthvað uppbrot í skóladaginn þar sem við getum ekki tekið á móti þeim hér í húsi. Nýlega frétti ég að Borgarsögusafn væri að hugleiða eitthvað slíkt og hefðu áhuga á reynslusögum annarra, svo ég ákvað að taka reynslu okkar saman hér.

Móttökurnar

Þetta hefur gengið upp og ofan. Mér sýnist þriðjungur skólanna hafa tekið slaginn en tveir þriðju afþakkað. Það er mikill munur á sveigjanleika dagskráa skólanna og þeir smærri eðlilega mun færari um svona. Í einhverjum þeirra stærri hittir hver bekkur bara einn kennara og sérgreinakennararnir hafa ekki viljað leggja það á kennara hópanna sem eiga bókaða heimsókn hjá okkur.

Þar sem því hefur verið við komið hafa kennararnir almennt séð verið afar þakklát uppbrotinu enda krakkarnir ekki að fá neinar vettvangsferðir og mér skilst að frímínúturnar séu sumstaðar bara göngutúr með kennara...

Ef boðið væri upp á fjarsmiðjurnar sem slíkar, en ekki sem valkost fyrir hópa sem áður áttu bókað, væru heimturnar vafalaust mun betri.

Tæknileg útfærsla

Við höfum notast við Zoom við fjarsmiðjurnar. Það er nokkuð þægilegt en við erum með svona keyptan aðgang með aukafídusum.
Við höfum sett upp ábendingar fyrir kennara hér:
http://visindasmidjan.hi.is/fjarsmidjur_i_visindasmidjunni
en við rákumst á það í fyrstu smiðjunum að ekki var rétt gengið frá hljóðinu þegar kennarar voru að reyna að nota ólíkar tölvur við upptöku og spilun.

Á okkar enda erum við með tölvu, fína Logitech vefmyndavél, ljóskastara til að bæta birtuna og auka skjá. Auka skjárinn er gagnlegur til að geta verið með gestina í mynd á sama tíma og við erum að deila skjánum okkar. Sér ljós bætir svo myndgæðin umtalsvert. Myndavélin er svo eilítið hækkuð svo viðmælendur séu ekki að tala við undirhökuna á okkur.

Fjarsmiðjuútfæranleg efnistök

Við tókum þann pólinn í hæðina að vera bara með að miklu leyti „sömu dagskrá“ og verið hefur en móta vinnusmiðjurnar þannig að þær gætu verið á þessu fjarsmiðjuformi. Ein smiðjan er ákaflega verkleg svo við skiptum henni bara út fyrir stjörnufræðispjall sem gengur ágætlega.

Einfalda útgáfa stjörnufræðismiðjunnar er bara spjall um stjörnufræði. Ég hef byrjað á því að safna saman hugtökum sem þau þekkja um fyrirbæri í himinngeiminum og svo ræða út frá þeim. Það hjálpar bæði við að virkja þau og til þess að fá hugmynd um hvar þau standa gagnvart efninu í þekkingu og áhuga. Ef kennarinn hefur áhuga á að undirbúa þau eitthvað undir smiðjuna hef ég ráðlagt þeim að velja einhverjar spurningar sem hópur, og tekið saman nokkrar myndir sem þau geta valið úr að læra meira um.
http://visindasmidjan.hi.is/verkefni/saga_og_gerd_alheims/

Önnur smiðja snýst um heimsmarkmiðin og hefur verið á formi borðspils í haust. Við gerðum borðspilið og leiðbeiningar bara aðgengileg á vefnum og þátttakendurnir prenta það út og klippa til. Hefur aðeins verið vandamál á einni starfsstöð þar sem prentarinn var í öðru sóttvarnarhólfi en kennarinn og það mátti ekki senda efni á milli...
http://visindasmidjan.hi.is/verkefni/heimsmarkmidaspilid

Þriðja smiðjan er DNA einangrun sem er nokkuð verkleg, en efnin og áhöldin einföld og lítið mál að gera verkefnið í skólanum. Við útbjuggum því leiðbeiningar með myndböndum fyrir kennarana, annars vegar til að vinna með okkur í fjarsmiðju, eða til að gera sjálf í eigin tómi. Þessi smiðja hefur sjaldan komið til kastanna þar sem hún er á föstudegi og margir föstudagar voru fráteknir í helgarverkefni sem við vorum með skipulögð í haust.
http://visindasmidjan.hi.is/verkefni/dna_einangrun

Fjórðu smiðjuna höfum við aldrei keyrt en þar hafa spilað inn í afbókanir hópa og annir umsjónarmanneskju hennar. Á fimmtudögum ættu hins vegar að vera efnafræðisýnitilraunir, en það er líklega sú smiðja sem best mundi falla að þessu formi!

Hópstjórn

Það er eðlilega mun erfiðara að lesa í hópinn í gegnum vefmyndavél, sér í lagi þegar hún eða nettengingin er slök. Við höfum því virkjað kennarana til að sjá um bekkjarstjórnunina, velja nemendur til að koma með spurningar eða athugasemdir, og jafnvel endurtaka spurningar þegar þær eru óskýrar.

Þetta hefur alveg gengið ágætlega en það er mun minna um samræður fram og til baka. Annars vegar eru þau eitthvað feimnari en í eigin persónu þar sem auðveldara er að ná til þeirra, en einnig hefur það áhrif að hljóðneminn nemur illa það sem er fjær honum, nemendur hafa verið með grímur undanfarið, og oft klippist fyrsta hálfa til heila sekúndan framan af því þegar einhver varpar fram spurningu eða athugasemd.

Í stjörnufræðismiðjunni okkar sem var áður eiginlega bara spjall út frá áhugasviði gestanna hef ég notað sögunálgun þar sem ég segi þeim elstu sögu alheimsins: Sögu alheimsins. Það hefur hjálpað þeim að halda þræði og svo er hægt að spyrja spurninga út frá því. Á þessu eru þó undantekningar og stundum eru nemendurnir allir áhugasamir og spurja haug spurninga.

Næstu skref

Vonandi líður senn að lokum samkomubanns og við getum farið að taka aftur á móti hópum í eigin persónu. Að sama skapi eru í raun bara nokkrar vikur eftir af móttöku hópa fyrir áramót svo ég á von á því að það náist ekki í ár. Það er valkostur að auglýsa betur fjarsmiðjurnar svo fleiri sem hafa tök á að mæta í svona fjarsmiðju hafi kost á því en ekki bara þau sem áttu bókaðan tíma.

Með óvissunni um hvenær samkomubanni léttir og flækjustiginu við að halda utan um samhliða bókunarkerfi höfum við ekki stigið það skref enn. Inn í það hafa líka spilað annir vegna annarra verkefna sem við höfum verið að vinna í tengt þessari stöðu í samkomubanninu. En meira um það síðar...