Meðal áskorana kennara er leitin að góðu námsefni til notkunar í kennslu. Kennarar eru margir kennarar iðnir við að aðlaga kennsluna að eigin starfskenningum og kennsluháttum; þróa slíkt og móta. Aðrir leita í tilbreytinguna en eins er nokkuð algengt að kennarar séu fengnir til að kenna nýtt námsefni – jafnvel námsefni sem þau hafa takmarkaða reynslu eða bakgrunn í.
Margir kennarar leita bjarga á vefnum en þar er töluvert af aðgengilegu efni að finna til innblásturs og jafnvel ítarlegar kennsluleiðbeiningar. Það reynist hins vegar nokkur þröskuldur að efnið er yfirleitt á ensku svo texta og verkefni fyrir nemendur þarf oft að þýða og staðfæra. Því búa margir kennarar til eigið efni eða útgáfur, aðlagað úr hugmyndum annarra eða mótað úr eigin þróunarstarfi.
Þessu efni deila kennarar oft nokkuð greiðlega en þeim má gróflega flokka í þrennt: Í fyrsta hópnum eru kennarar sem taka efnið saman, gera aðgengilegt á vefnum og deila því með öðrum. Í þeim næsta eru kennarar sem útbúa efni fyrir sig sjálf og deila greiðlega með hverjum sem um það biður, en hafa ekki tekið sig til og gefið efninu heimili á vefnum. Þriðji hópurinn er svo kennarar sem á hlaupunum taka saman efni til að geta boðið nemendum sínum en eru feimnir við að láta það lengra án yfirlesturs og endurgjafar.
Kennarar eru almennt mjög á því að vettvangur til samtals og tengslamyndunar sé ákaflega mikilvægur. Meðal annars vegna þess að þar kynnist fólk kennsluaðferðum og efni sem aðrir kennarar eru að nota; og þar með skapast tækifæri til að fá efni í stað þess að hver kennari þurfi að finna upp hjólið. Það er því að nokkru að vinna að skapa fleiri slík tækifæri fyrir kennara að ráða ráðum sínum og skiptast á hugmyndum og námsefni.
Þegar eru til nokkur slík sem vert er að líta til sem fyrirmyndir og byggja á. Ber þar að nefna allvirk samfélög kennara á Facebook (t.a.m. Skólaþróununarspjallið, Náttúrufræðikennarar og Stærðfræðikennarinn). Um tíma var einnig virkt samfélag á Twitter undir myllumerkingu #menntaspjall. Hvor tveggja þessara samfélagsmiðla hafa hins vegar fengið á sig gagnrýni, annars vegar fyrir hlut þeirra í neikvæðri þjóðfélagsumræðu og hins vegar fyrir það að þjóna illa markmiðum hópa. Erfitt er að leita að efni sem áður hefur verið deilt, varsla skjala er afar takmörkuð, og notendur sjá ekki öll innlegg nema þeir beri sig sérstaklega eftir þeim.
Í þessu umhverfi eru því sóknarfæri sem vert er að gefa gaum og hér að neðan leitast ég við að tilgreina nokkrar þeirra:
Gátt fyrir hlekki á verkefni
Til eru ýmsir vefir með safni hlekkja á ýmisleg verkefni og eru torgin góð dæmi um slíkt. Nokkuð vel þekktur vefur er Náttúrutorgið en þar eru hýst verkefni eins og Málþing um náttúrufræðimenntun, Vísindavakan og verkefnabanki NaNO. Torgin voru sett á laggirnar sem meira en bara vefsíður og stóðu verkefnisstjórar Náttúrutorgsins t.a.m. að menntabúðum sem góður rómur var gerður af.
Í stærðfræðinni eru það Flatarmál og Stærðfræðitorgið en það síðarnefnda hefur verið óvirkt í nokkur ár á meðan ritstjórn Flatar hefur verið öllu virkari við miðlun verkefna (en það er líka töluverð skörun á mannskap þessara vettvanga).
UT-torgið er annað torg sem hefur orðið óvirkt en upp hafa sprottið ýmsir vefir fyrir samþættingu námsgreina og verkefnamiðaða nálgun, en engir orðið að miðpunkti leitar að efni.
Mörg torganna mætti mætti þó gera töluvert aðgengilegra; grisja úrelda hlekki og gera gæðaefni hærra undir höfði. Þar sem „vörumerkið“ er vel þekkt (t.d. í tilfelli Náttúrtorgsins) er vert að byggja á því fremur en búa til nýjan vef frá grunni.
Hugmyndabanki fyrir verkefni með frjálsri aðferð
Kennarar búa að töluverðu efni sem taka mætti saman. NaNO er verkefni í slíka átt en hefur ekki náð flugi. Annars vegar er viðmótið takmarkað, síur skortir til leitar, og efnið er takmarkað að efnistökum og magni. Töluverð vinna liggur í því að efla slíkan verkefnabanka og halda honum við.
Áður en farið er í slíka vinnu væri ráðlegt að vinna talsverðan undirbúning með hópi kennara til að kanna hvaða þættir þyrftu að vera til staðar til að þau nýttu sér slíkan hugmyndabanka og slíkur hópur ætti að vera viðriðinn þróunarvinnuna til að meta hvort verkefnið sé að ná markmiði sínu. Að lokinni upphafsvinnunni þarf svo að fara í töluvert átak til að auglýsa hugmyndabankann til að tryggja að hann fái strax nægilega notkun til að festa sig í sessi.
Vinsæl útgáfa slíks hugmyndabanka er Teachers Pay Teachers, þar sem kennarar geta sett inn efni og deilt gegn (hóflegri) greiðslu. Slíkt getur gefið kennurum réttlætingu fyrir því að leggja aðeins meira í frágang og þróun verkefna. Þó er hætt við því að fjöldi kennara hérlendis sé það lítill að greiðslan komi frekar í veg fyrir að kennarar séu að nálgast efni sem þau eru ekki sannfærð um að sé þeim gagnlegt. Kennarasamband Íslands er reyndar duglegt við að greiða kennurum fyrir ýmis útgjöld svo mögulega er það ekki stór hindrun
Dæmi: https://www.scientix.eu/resources
Dæmi: https://www.teacherspayteachers.com/
Hugmyndabanki fyrir verkefni eftir ákveðinni beinagrind og ákveðna áferð.
Einn ókostur hugmyndabanka með frjálsri aðferð er að kennarar þurfa að byrja á því að fara í gegnum það allt til að meta hvort það falli að kennslustíl þeirra og hugmyndafræði. Séu verkefnin öll með svipaða áferð (hlutfall les-/ítarefnis og verkefnavinnu, þyngd texta, forkröfur þekkingar og reynslu, o.þ.h.) þarf kennari einungis að kynna sér eitt verkefni sérstaklega vel áður en hán tekur ákvörðun um að taka fleiri inn í kennslu.
Annar kostur slíks heildstæðs námsefnis er að hægt er að búa til röð eða safn ítarefnis og verkefna sem myndar samhangandi heild. Dæmi um slíka hugmyndabanka eru Leikur að rafrásum verkefnin á vef Vísindasmiðjunnar.
Dæmi: https://thescienceteacher.co.uk/
Vefsvæði fyrir kennara til að setja saman efni (Wiki/Google Sites?)
Þær bjargir sem standa kennurum til boða við miðlun efnis síns er aðallega í gegnum þau námsumsjónar- eða kennslukerfi (t.d. Inna, Moodle, Canvas) sem eru í notkun í þeirra skólum. Vefir skólanna eru almennt settar upp sem upplýsingaveitur fyrir málefni skólans og fá dæmi þess að kennsluefni sé deilt opið á vefsíðum þeirra.
Kennarar sem vilja deila efni sínu opið þurfa því að sækja í önnur verkfæri. Google Sites virðist vera það sem mörg eru að nota en Wix er annað verkfæri sem kennarar nýttu sér eitthvað. Kennaranemar sem hafa unnið námsefni í námi sínu hafa mörg hver notað WordPress vefi, en Sites virðist hafa lægri þröskuld fyrir mjög einfalda vefi.
Slíkir vefir líða hins vegar fyrir það að þeir eru ekki sjálfkrafa hluti af neti þess efnis sem þegar er orðið þekkt. Það kynni því að vera gagn af vettvangi þar sem kennari getur sett upp eigin vef (http://natturutorg.is/nafn, http://nafn.natturutorg.is/, eða http://nafn.kennarastofan.is/). Á yfirvefnum væri þá hægt að búa til yfirlit yfir nýjustu vefi eða nýjasta efni sem væri þá tekið saman svo áhugasamir kennarar geti séð hvað væri í gangi.
WordPress eða MediaWiki væru dæmi um hugbúnað sem nokkuð auðvelt væri að setja upp.
Frá því að þessi texti var settur saman réðst ég í að koma upp slíkum vef sem hlaut vinnuheitið Kennarakvikan. Vefurinn keyrir á MediaWiki hugbúnaði og getur hver sem er sett inn eigið efni eða lagfært sameiginlegt efni. Skrái einstaklingur sig inn sem notanda fær viðkomandi notendasíðu sem hægt er að nota til að geyma eigið efni eða gagnlega hlekki.
Netsamfélag kennara – Kennarastofan
Þessi misserin er lærdómssamfélag kennara oft gert að umtalsefni. Mikilvægi stuðningsnets samstarfsfólks með svipaða sýn er skýrt og gagnlegt að hlúa að því. Til að liðka fyrir samskiptum við kennara utan síns starfsstaðar leita kennarar mikið á ýmsa samskiptamiðla til að deila fréttum og hugmyndum, og skiptast á skoðunum og efni.
Margir samfélagsmiðlar líða hins vegar fyrir ýmsa þætti. Markmið þeirra er síður skynsamleg deiling efnis heldur uppskera athygli notenda. Það væri stórt verkefni og nokkur fjárfesting, en kynni að vera þess virði að koma á laggirnar heildstæðum fag-samfélagsmiðli kennara sem sameinar þessa miðlunarþættina sem tilteknir voru hér að ofan og bætir við samskiptaeiginleikum.
Eðlilegast væri að slíkt gæti væri opið öllum kennurum óháð faggrein en svo mætti móta smærri undirsamfélög innan þess (sbr. #menntaspjall, Náttúrufræðikennarar á FB, Skólaþróunarspjallið á FB, …). Vettvangur samskipta gæti verið einhver útfærsla eða blanda af póstlista, spjallhóp í stíl Facebook-hópa eða gömlu spjallborðanna, eða örblogga á við Twitter og Mastodon.
Hver notandi hefði þá sitt rými til að geyma verkefni og á samfélagsvettvanginum mætti einnig hýsa kennsluefni og verkefnabanka, en þar að auki væri virkt samtal sem drægi kennara reglulega á miðilinn. Þar mætti svo gerast áskrifandi að örbloggi, innleggjum, eða kennsluefni sem ákveðnir kennarar birta sem auðveldar kennurum að fylgjast með nýjungum.