Málþekki

Á árunum 2013–2016 var unnið að tveimur rannsóknum á grundvelli styrkja sem Kristján Árnason prófessor hlaut frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Þar var þess freistað á ýmsan hátt að afla vitneskju um vitund Íslendinga um landshlutabundinn framburðarmun, viðhorf þeirra og smekk. Fyrri rannsóknin, Félagsleg og hugmyndafræðileg áhrif í málþróun og breytileika,  skiptist í þrjá áfanga þar sem aðferðir voru ólíkar en markmið að hluta til þau sömu. Seinni rannsóknin, Dulin viðhorf til íslenskra málbrigða, mat á málnotkun, tengdist þremur doktors­verkefnum. Stefanie Bade rannsakaði dulin viðhorf til íslensku með hreim, Vanessa Isenmann sambærileg viðhorf til óformlegs máls á netinu og loks komu viðhorf til harðmælis/linmælis í minn hlut. Þrátt fyrir þetta má segja að fyrri rannsóknin og þáttur minn í þeirri seinni hafi myndað eitt samfellt ferli sem sameina má undir nýyrðinu Málþekki með vísan til þekkja í fornri og nýrri merkingu (‘verða var við’, ‘bera kennsl á’) og þekkur (‘geðþekkur’, ‘fallegur’).

Fyrsti áfangi:
Tvær spurningar voru lagðar fyrir í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar á útmánuðum 2013:

a. Hvaða framburður finnst þér fallegastur?
b. Hvaða framburður telurðu að Íslendingum almennt þyki fallegastur?

Boðið var upp á nokkra svarmöguleika sem vísuðu til svæða án þess að nefnd væru einstök framburðarafbrigði:

a. Norðlenskur framburður
b. Framburður eins og hann er algengastur á höfuðborgarsvæðinu
c. Vestfirskur framburður
d. Sunnlenskur framburður eins og í Árnessýslu (t.d. á Selfossi)
e. Framburður á Austfjörðum
f. Skaftfellskur framburður
g. Annar framburður
h. Mér finnst þetta allt álíka fallegt [spurning a]/Ég held að fólk geri ekki upp á milli fram­burðar á þennan hátt [spurning b]
i.  Ég átta mig ekki á því í hverju munurinn felst [spurning a]/Ég held að fólk átti sig ekki á því í hverju munurinn felst [spurning b]
j. Veit ekki

Þessu til viðbótar gátu þátttakendur sleppt því að svara.

Annar áfangi:
Tekin voru símaviðtöl við 39 einstaklinga sem tóku þátt í framburðarhluta RAUN-verkefnisins. Allt var þetta fólk fætt um 1930 og tók þátt í rannsókn Björns Guðfinnssonar á 5. áratug 20. aldar og flestir (31) tóku einnig þátt í RÍN um 40 árum síðar. Af þessum hópi voru 38 þátttakendur frá þremur svæðum, Norðurlandi, Skaftafells­sýslum og Vestfjarðakjálkanum, ýmist staðfastir eða brottfluttir, þ.e. sumir bjuggu enn á sama svæði og í fyrstu rannsókninni en aðrir höfðu flutt til höfuðborgarsvæðisins. Að auki var tekið viðtal við einn Reykvíking en í kjölfarið ákveðið að einskorða rannsóknina við þá sem áttu það sameiginlegt að hafa alist upp við staðbundin framburðarafbrigði.

Gerður var rammi með 16 meginspurningum sem sumar höfðu undirspurningar. Þessum ramma var ætlað að stýra viðtalinu og tryggja að sem flest fyrirhuguð umræðuefni kæmust á dagskrá og væru lögð upp á sama eða svipaðan hátt. Eins og við er að búast voru þátt­takendurnir misjafnlega ræðnir, stundum svöruðu þeir spurningum áður en þær voru lagðar fyrir, aðrir létu spyrilinn draga vagninn. Minnispunktar um svör og viðbrögð voru skráðir jafnóðum og skýrsla um hvern og einn skrifuð strax að loknu viðtali. Viðtölin voru hins vegar ekki hljóð­rituð.

Í þessum áfanga rannsóknanna komu fram upplýsingar um þekkingu fólks og vitund um eigin framburð og annarra og vísbendingar um merkingu orða eins og norðlenska, sunn­lenska og skaftfellska. Er það til dæmis raddaður framburður eða harðmæli sem fólk hefur í huga þegar það talar um norðlensku, annað afbrigðið frekar en hitt, eða kannski hvorugt? Einnig fengust vísbendingar um fegurðarmat þátttakenda á einstökum afbrigðum eða máli á tilteknum svæðum. Þessi áfangi lagði líka mikilvægan grunn að þeim næsta. Ekki síst urðu niðurstöðurnar til þess að heiti framburðar­afbrigða, eins og harðmæli eða skaftfellskur einhljóða­framburður, voru snið­gengin í framhaldinu og ekki var gengið út frá því að fólk vissi hvaða afbrigði einkenna mál tiltekinna svæða. Að því marki sem símaviðtölin snerust um sömu markmið og aðrir áfangar rannsóknanna, einkum varðandi fegurð framburðar, voru niður­stöðurnar í góðu samræmi við þá.

Þriðji áfangi:
Sumarið 2014 var gerð netkönnun með hjálp forritsins SurveyGizmo og var Hlíf Árnadóttir mér til aðstoðar. Stofnaður var svokallaður opinn viðburður á samskipta­miðlinum Facebook undir heitinu Könnun á íslensku máli. Þar var stutt kynning og þátttakendum vísað á netslóð. Þegar smellt var á hana opnaðist sjálf könnunin. Ýmsum ráðum var beitt til að vekja athygli á könnuninni og þá sérstaklega hugað að dreifingu um landið allt. 1048 svör bárust. Í úrvinnslunni voru þeir felldir út sem sögðust hafa lært íslensku eða málvísindi í háskóla, lagt stund á kennaranám og/eða kennt íslensku, einnig þeir sem ólust upp við annað mál en íslensku eða dvöldu að mestu leyti erlendis til 16 ára aldurs. Ekki var kannað hvort þessi bakgrunnur skipti máli. Eftir stóðu 658 þátttakendur. Þar voru konur mun fjölmennari, eða 471 (71,58%), en karlar voru 187 (28,42%).

Netkönnunin skiptist í þrjá hluta.

Í fyrsta hluta voru níu spurningar með hljóðskrám og snerust fimm þeirra um framburð. Innan um voru spurningar um ýmis málfarsatriði til að athygli þátt­takenda beindist ekki um of að framburði. Markmiðið var að kanna hvort þátttakendur greindu eða tækju eftir landshlutabundnum afbrigðum sem hljóðskrárnar innihéldu, þ.e. hv-framburði, skaftfellskum einhljóðaframburði, harðmæli, rödduðum framburði og vestfirskum einhljóðaframburði. Í ljósi símaviðtalanna var ákveðið að reyna að lágmarka áhrif þekkingar. Þar kom fram að fólk gat þekkt til framburðar­afbrigða án þess að vita hvaða svæði þau tilheyrðu. Í stað þess að spila til að mynda upptöku þar sem hv-framburður kom fyrir og spyrja síðan hvaðan mælandinn væri var byrjað á kynningu á uppruna eða búsetu mælandans, sem var kona í öllum tilvikum. Að lokinni þessari kynningu smelltu þátttakendur á hljóðskrána. Hún hafði að geyma stuttan lesinn texta þar sem ýmis frekar sjaldgæf orð komu fyrir en jafnframt tvö algeng orð borin fram með svæðisbundnum framburði. Dæmi:

Kynning: Konan sem talar er Sunnlendingur. Hún býr á Hvolsvelli en bjó líka í nokkur ár í Vík í Mýrdal.
Hljóðskrá (feitletruðu orðin með hv-framburði): Ég ferðaðist um skerið í sumar sem leið. Við skoðuðum mýgrút af söfnum, geystumst um hvítar breiður Langjökuls á vélsleðum, slógumst við flugurnar við Mývatn og skoðuðum hvali á Húsavík. Þetta var skínandi skemmtilegt sumar.

Þá voru þátttakendur spurðir:
Var eitthvað í máli konunnar sem þú heldur að tengist uppruna hennar sérstaklega?
Var eitthvað sem þú heldur að sé líklegra að maður heyri í máli fólks á sunnanverðu landinu en annars staðar? Hér á eftir eru nokkur orð sem konan sagði. Þú getur merkt við eitt eða fleiri. Merktu við þau orð þar sem þú tókst eftir einhverju sem þú heldur að tengist sunnlensku máli eða veldu aðra svarmöguleika.

Orðin/orðalagið sem hægt var að merkja við: skerið (ég tengdi þetta við sunnlensku), í sumar sem leið (ég tengdi þetta við sunnlensku), mýgrút (ég tengdi þetta við sunnlensku), geystumst (ég tengdi þetta við sunnlensku), hvítar (ég tengdi þetta við sunnlensku), breiður (ég tengdi þetta við sunnlensku), hvali (ég tengdi þetta við sunnlensku), skínandi (ég tengdi þetta við sunnlensku), einnig: Mér fannst eitthvað í máli hennar tengjast sunnlenskum uppruna hennar en ég veit ekki hvað það var, Ég tók ekki eftir neinu sérstöku í máli konunnar, Ég veit það ekki.

Þessi aðferð reyndist ágætlega til að kalla fram upplýsingar um hvort fólk greindi landshluta­bundnu afbrigðin. Margir virtust fúsir til að tengja hvaðeina framandi við svæði sem þeir þekktu lítt til. Orðið mýgrútur var til að mynda gjarna tengt við sunnlensku. Þar sem orðin sem borin voru fram með landshlutabundnum framburði voru „venjuleg“ eru hins vegar yfirgnæfandi líkur á að þeir sem merktu við þau hafi gert það vegna framburðarins. Þeir sem þekktu hann fyrir eða vissu um heimkynni hans tengdu hann við svæðið á grundvelli þeirrar þekkingar en aðrir vegna þess að hann var framandi og „hlaut“ því að tengjast svæðinu sem um var spurt. Einu gildir hver ástæðan var fyrir tengingunni, rannsóknin snerist um hvort þátttakendur tækju eftir framburðinum.

Í öðrum hluta netkönnunarinnar voru sex spurningar þar sem spiluð var hljóðskrá sem fól í sér samanburð á framburðareinkennum. Kona talaði í öllum tilvikum og spurningarnar voru orðaðar á sama hátt, dæmi:

Hljóðskrá: Mér finnst það fallegra eða hljóma betur þegar fólk segir [sou:pha], [lɪ:cʰɪtl̥] heldur en þegar það segir [sou:pa], [lɪ:cɪtl̥].

Í kjölfarið var spurt: Hversu sammála ertu konunni?
Boðið upp á möguleikana mjög sammála, frekar sammála, frekar ósammála, mjög ósammála auk Ég get ekki gert upp á milli þessara dæma um framburð og Ég heyri engan mun. Hér var markmiðið að kanna mat á einstökum framburðar­afbrigðum. Fram hafði komið í rannsókn Félagsvísindastofnunar að hjá flestum var norð­lenska í mestum metum en í þeim niðurstöðum fólust engar vísbendingar um hvað fólk hefði í huga. Þessi athugun varpaði skýrara ljósi á það.

Í síðasta hluta þessarar netkönnunar var spurt um aldur, kyn, búsetu og uppruna, einnig uppruna foreldra. Þá var spurt um móðurmál og menntun og sérstaklega spurt hvort við­komandi hefði lært málfræði í háskóla eða kennaranámi eða kennt íslensku.

Að þessu loknu kom spurningin: Hvaða framburður finnst þér fallegastur? Ekki er átt við upptökurnar hér að framan heldur framburð almennt.
Boðið var upp á nokkra svarmöguleika. Spurningin var höfð á þessum stað til að fá sem mesta fjarlægð frá dæmum um framburð. Þátttakendur gátu ekki farið aftur á bak í könnuninni til að hlusta á framburðarafbrigðin eða skoða fyrri svör sín. Þessi spurning (án viðbótarinnar um „upptökurnar hér að framan“) hafði áður verið lögð fyrir hjá Félagsvísinda­stofnun (sjá hér ofar) og var endurtekin til að fá samanburð og traustari niðurstöður.

Fjórði áfangi:
Það sem hér er kallað fjórði áfangi rannsóknanna var í raun sérstök rannsókn, þ.e. hluti af verkefninu Dulin viðhorf til íslenskra málbrigða, mat á málnotkun, og fékk ég Kristínu Ingibjörgu Hlynsdóttur til liðs við mig. Hún vann að rannsókninni og skrifaði um hana BA-ritgerð. Um var að ræða svokallað grímupróf (e. matched guise test) þar sem markmiðið var að komast að ómeðvituðum viðhorfum fólks til harðmælis og linmælis. Ítarlega lýsingu á rann­sókninni er að finna í ritgerðinni (sjá Kristínu Ingibjörgu Hlynsdóttur, Þykir harðmæli betra en linmæli? Rannsókn á ómeðvituðum viðhorfum, 2016).

Um niðurstöður:
Einn skýrasti afrakstur Málþekkis er dálæti landsmanna á norðlensku sem þó beinist mun frekar að harðmæli en rödduðum framburði. Í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar fannst 52% þeirra sem tóku afstöðu norðlenskur framburður fallegastur. Á flestum svæðum var hlutfallið um og yfir 40% en Norðlendingar sjálfir lyftu heildinni upp fyrir 50%. Í 2. sæti var framburður eins og hann er algengastur á höfuðborgarsvæðinu, hann völdu alls 17%. Fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins tilnefndu norðlenskan framburð (45%) en framburð á höfuðborgarsvæðinu (23%).  Nánari upplýsingar eru í töflu 3-9 í ritgerðinni Mál á mannsævi. Í ritgerðinni eru einnig frekari upplýsingar um niðurstöður Málþekkis.

Nú vaknar spurningin: Hvað er það við norðlenskan framburð sem fólki þykir svo fallegt? Þegar fólk hlustaði á samanburð annars vegar harðmælis og linmælis og hins vegar raddaðs framburðar og óraddaðs fékkst nokkurt svar við því. 67,2% voru mjög eða frekar sammála því mati að harðmæli væri fallegra en linmæli en 16% voru ósammála. Aðeins 23,9% voru sammála því að raddaður framburður væri fallegri en óraddaður og 59% ósammála. Þessi athugun beindist að meðvituðum viðhorfum (sjá nánar í töflu 3-10 í ritgerðinni Mál á mannsævi). Þegar ómeðvituð viðhorf til harðmælis og linmælis voru könnuð kom ekki fram eins afdráttarlaus munur. Þó hneigðust ómeðvituð viðhorf í sömu átt og þau meðvituðu, þ.e. þau voru heldur jákvæðari í garð harðmælis en linmælis.

Þó að jákvæð viðhorf til norðlensku beinist samkvæmt þessu frekar að harðmæli en rödduðum framburði benti athugun á því hvort fólk greindi eða tæki frekar eftir sumum landshlutabundnum framburðarafbrigðum frekar en öðrum til þess að raddaður framburður væri greinilegra einkenni norðlensku en harðmæli (sjá nánar í töflu 3-11 í ritgerðinni Mál á mannsævi). Í því virðist felast nokkur mótsögn: Fólki finnst norðlenska falleg og sú aðdáun beinist frekar að harðmæli en rödduðum framburði. Þó tekur það frekar eftir rödduðum framburði.

Þegar framburðarafbrigðin sem einkenna mál á Suðausturlandi, þ.e. hv-framburður og skaftfellskur einhljóðaframburður, eru borin saman á svipaðan hátt kemur ekki fram eins afdráttarlaus munur (sjá sem fyrr töflur 3-10 og 3-11). Þó voru 23,4% mjög eða frekar sammála því mati að hv-framburður væri fallegri en kv-framburður en aðeins 13,2% fannst skaftfellskur einhljóðaframburður fallegri en tvíhljóðaframburður. Sérstaða einhljóðaframburðar kom hins vegar fram í athugun á því hvort fólk tæki eftir eða greindi landshlutabundin afbrigði. Hlutfallslega fáir tóku eftir einhljóðaframburðinum. Þetta kom einnig fram í símaviðtölum. Skaftfellingar sjálfir, sem rætt var við, áttu oft erfitt með að greina mun á einhljóða- og tvíhljóðaframburði. Í viðtölunum komu einnig fram vísbendingar um að fólk hefði skýrari hugmynd um norðlensk máleinkenni en skaftfellsk og að Norðlendingar væru meðvitaðri um eigin sérstöðu að þessu leyti. Ekki er fráleitt að ætla að framburður eða mál almennt sé ríkari þáttur í sjálfsmynd Norðlendinga. Það væri vert að kanna betur.