Frá því ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á málefnum barna og ungmenna og velferð þeirra. Í námi og starfi leitaði hugurinn því alltaf í þessa átt. Sem lögfræðingur vann ég lengst af með fjölskyldumál. Við nám í lýðheilsu beindist áhuginn að börnum og ungmennum en þar vann ég meðal annars að verkefnum sem sneru að skimun á meðgöngu mæðra og þeim siðferðislegu spurningum sem vakna í kjölfarið. Í starfi á vettvangi í sveitarstjórn voru málefni barna og ungmenna enn á ný mín helstu viðfangsefni; einkum mennta- og forvarnamál en jafnframt ferlimál fatlaðra. Ég hef haft að leiðarljósi þá hugsjón að öll börn og ungmenni eigi að fá tækifæri til að blómstra – í öllum sínum margbreytileika og óháð félagslegum aðstæðum.
Meistara- og doktorsnám mitt í uppeldis- og menntunarfræðum var hluti af því markmiði að beina starfskröftum mínum alfarið inn á fræðasvið þar sem fengist er við málefni ungs fólks. Vettvangur þess er heimilið, skólasamfélagið og félagslegt umhverfi þeirra. Rannsóknir mínar og viðfangsefni í kennslu tengjast ýmsum þáttum í nærumhverfi ungmenna en jafnframt því hvernig þau smám saman með auknum aldri og þroska tengjast samfélaginu í víðara samhengi.
Öll börn eiga að fá tækifæri til að blómstra
Birt í Forsíða