Courses

ÞJÓ601M Menningararfur
Hvað er menningararfur og hvaða hlutverki þjónar hann? Af hverju er hann í stöðugri útrýmingarhættu? Hvernig tengir hann saman fortíð og samtíð? Hvað á hann skylt við þjóðríkið? Söguvitund? Hnattvæðingu? Kapítalisma? Stjórnmál? Í námskeiðinu verður leitað svara við þessum spurningum, kynntar nýlegar rannsóknir þjóðfræðinga, mannfræðinga, listfræðinga, félagsfræðinga, safnafræðinga, sagnfræðinga og fornleifafræðinga á menningararfi og tekinn púlsinn á því sem er að gerast á þessu ört vaxandi sviði.

ÞJÓ435G Lúsakambar, hlandkoppar og kynlíf: Þjóðhættir og daglegt líf í sveitasamfélaginu
Í námskeiðinu er fjallað um þjóðhætti og daglegt líf í íslenska sveitasamfélaginu fyrr á öldum, jafnt til sjávar og sveita. Rætt er um aðferðir við rannsókn á efnismenningu, þjóðháttum og daglegu lífi og viðfangsefnið sett í erlent rannsóknarsamhengi. Nemendur kynnast margvíslegum þjóðháttarannsóknum og fjallað er á gagnrýnin hátt um ólíka heimildaflokka - yfirlitsrit, fræðirit og ýmsar frumheimildir. Lögð er áhersla á að greina hugmyndafræði hversdagsins og lífsferil einstaklinga í gamla sveitarfélaginu, um leið og skoðað er hvaða aðferðir dugi best til að rannsaka lífshætti fólksins sem þar ól allan sinn aldur. M.a. er unnið með óprentaðar persónulegar heimildir, svör við spurningalistum og dagbækur.

ÞJÓ503M Ómenning: Frá postulínshundum til pönkara
Í námskeiðinu er rýnt í ýmis dæmi frá nítjándu öld til samtímans um „ómenningu“ allt frá áliti Jónasar Hallgrímssonar á rímum og Jónasar frá Hriflu á amerískum reyfurum og klessumálverkum til samtímaumræðna um graffítí, tölvuleiki og tónlistarmyndbönd. Fjallað er um hugmyndir, hegðun og menningarafurðir sem taldar eru hafa verið skaðvaldar í íslenskri menningu eða ógnað á einhvern hátt heilbrigðu menningarlífi. Þannig er meðal annars staðnæmst við andúðina á djassi, rokki og atómskáldskap og fjallað um eðli þeirrar ógnana sem talið var starfa af slíkum fyrirbærum. Samhengi samfélagslegs valds og menningar er tekið til rækilegrar skoðunar og spurt hverjir hafi skilgreint ómenningu, með hvaða aðferðum og í hvaða tilgangi. Spurt er hvort ógnvaldarnir eigi eitthvað sameiginlegt og hvort skilgreining þeirra sé háð hagsmunum, hugsjónum og siðferðisviðmiðum sem tekið hafa breytingum í tímans rás. Skoðað er að hvaða leyti hugmyndir um ómenningu sem andhverfu íslenskrar menningar hafa átt þátt í að móta hana og skilgreina: Hvaða þátt hafa hugmyndir um hið menningarlega og viðmið um siðmenningu átt í að marka viðteknar hugmyndir um íslenska menningu? Að hvaða leyti hefur íslensk menning mótast í viðnámi gegn erlendri fjöldamenningu sem meðal annars hefur verið álitin birtast í gervi danskrar kjólatísku og amerískra sápuópera?

ÞJÓ325G Líkamsmenning: Útlit, hegðun, heilsa
Í námskeiðinu er fjallað um mannslíkamann frá þjóðfræðilegu og menningarsögulegu sjónarhorni. Skoðuð eru mismunandi viðhorf til líkamans eins og þau birtast í hugmyndum um samband hugar og líkama, afstöðu til hreinlætis og líkamsumhirðu, líkamlegs útlits, siðlegrar hegðunar o.fl. Að hvaða leyti eru hugmyndir um líkamsfegurð og heilbrigði mótaðar af samfélaginu? Hvernig hefur breytt þekking og aðferðir í lífvísindum og heilsufræði mótað hvernig litið er á líkamann? Með hvaða hætti er líkamleg hegðun háð lögum og reglum samfélagsins og hvernig er skynjun okkar og sýn á líkamann háð viðmiðum samfélagsins? Sérstök áhersla er lögð á að kanna líkamann sem menningarlegt fyrirbæri í íslensku samfélagi frá nítjándu öld og til samtímans. Spurt er hvernig stefnur og straumar í heilsurækt hafa áhrif á líkamlega upplifun fólks, hvernig merking er lesin í útlit og framkomu; hvernig sómatilfinning og siðir marka líkamlega hegðun og hvernig samband mannslíkama og menningar birtist t.d. í þjóðbúningum og sundfatatísku, megrunarkúrum og borðsiðum, heilbrigðisreglugerðum og baðsiðum, mannkynbótum og fegurðarsamkeppnum eða gangráðum og brjóstastækkunum.

FOM101F Kenningar í félags- og mannvísindum
(ásamt Ingólfi V. Gíslasyni, Kristínu Loftsdóttur o.fl.)
Námskeiðið fjallar um nýleg verk og stefnur sem valdið hafa, eða eru líkleg til að valda, straumhvörfum í félags- og mannvísindalegri hugsun. Áhersla er lögð á samfélagslegt og sögulegt samhengi kenninganna. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum. Í lok námskeiðsins er ætlast til að nemandinn: Hafi lesið nýleg grundvallarrit í félags- og mannvísindum; Kunni skil á straumum og stefnum á 20. og 21. öld; Þekki þær breytingar sem félags- og mannvísindi hafa gengið í gegnum og þá sjálfsgagnrýnu umræðu sem fer nú fram innan þeirra; Hafi vald á lykilhugtökum í greiningu á samfélagi og menningu.

SAG266G Menningarsaga líkamans
Í námskeiðinu er fjallað um líkamann sem sögulegt fyrirbæri, einkum á nítjándu og tuttugustu öld í vestrænum samfélögum með sérstakri skírskotun til íslensks veruleika. Fjallað verður um hvernig vaxandi þekking og hugmyndir s.s. á sviði fagurfræði, líffræði og stjórnmála hafa haft áhrif á afstöðu manna til eigin líkama og líkama annarra. Líkaminn er skoðaður sem svið þekkingar og atferlis - sem vettvangur ögunar, sjálfsmótunar og samfélagsstýringar sem tengir saman ólíka menningarsögulega þræði s.s. sögu fangelsunar, skolplagna, hártísku, læknisfræði og leikfimiæfinga. Meðal viðfangsefna námskeiðsins er (1) hvernig aukin þekking í líffærafræði, heilsuvernd og líkamsrækt mótaði afstöðu til líkamans og eiginleika hans; (2) hvernig framfarir í tækni, húsakosti og hreinlæti breyttu umgengni fólks við eigin líkama; (3) hvernig tíska og viðhorf til persónulegt útlits hefur haft áhrif á hvernig fólk mótar og agar líkamlega sjálfsmynd sína.

HMM106F Miðlun og menning
Í námskeiðinu er menningarhugtakið teknar til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar.