Nýstárleg aðferð til þess að breyta nitri í ammóníak sem mun auðvelda áburðarframleiðslu varð hlutskörpust í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands. Þau voru afhent í fimmtánda sinn í Hátíðasal skólans í dag.
Alls barst 21 tillaga í samkeppnina af flestum fagsviðum skólans og voru mörg verkefnanna afar vel unnin að mati dómnefndar auk þess að vera frumleg, hagnýt og samfélagslega mikilvæg. Eftir nokkra yfirlegu valdi dómnefnd þrjú verkefni sem hún taldi hlutskörpust.
Önnur verðlaun, 500 þúsund krónur, hlaut verkefnið „Meðferð gegn blásýrueitrun“. Að baki verkefninu stendur Sigríður Guðrún Suman, dósent við Raunvísindadeild. Sigríður hefur þróað virkt mótefni við blásýrueitrun sem sett er í lyfjapenna en þannig má bæði auðvelda og flýta verulega fyrir meðferð þeirra sem verða fyrir slíkri eitrun í bruna, slysum í iðnaði eða efnahernaði. Í dag er ekki til meðferð við eitruninni sem hægt er að nota í bráðatilfellum. Sótt hefur verið um einkaleyfi á uppfinningunni í samvinnu við Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala með það fyrir augum að selja uppfinninguna til lyfjafyrirtækja. Grunnrannsóknir vegna verkefnisins hlutu styrk frá National Institute of Health, National Institute of Neurological Disorders og Stroke, CounterAct Research Network.