Rannsóknarverkefni

Skólastjórarannsókn

Á síðasta aldarfjórðungi höfum við Börkur Hansen staðið að rannsóknum á viðhorfum skólastjóra í grunnskólum með spurningalista­könnunum, þ.e. 1991, 2001 og 2006.  Þessar rannsóknir veita m.a. innsýn í það hvernig skólastjórar í grunnskólum verja tíma sínum og hvernig þeir vildu verja honum. Árið 2017 gerðum við sambærilega rannsókn á störfum skólastjóra en bættum við spurningum um gildi. Greint er frá niðurstöðum þeirrar rannsóknar í greininni Grunnskólastjórar á öndverðri 21. öld: Hlutverk og gildi sem birtist árið 2018 í Tímariti um uppeldi og menntun / Icelandic Journal of Education.

Áhrif efnahagskreppunnar á skólastarf

Á árunum 2013-2017 var ég formaður Rannsóknarstofu í menntastjórnun, nýsköpun og mati á skólastarfi  og í stjórn stofunnar frá stofnun hennar árið 2010 og til ársins 2015. Á vegum stofunnar var m.a.gerð rannsókn á áhrifum efnahagskreppunnar á skólastarf á árunum eftir hrun. Gerð var grein fyrir niðurstöðum síðari rannsóknarinnar í greininni Efnahagshrunið og skólastarf í Reykjavík sem  birt var í Netlu, Veftímariti um uppeldi og menntun, árið 2015. Ég var ritstjóri greinarinnar og meðhöfundar voru Anna Kristín Sigurðardóttir, Arna H. Jónsdóttir, Börkur Hansen og Guðný Guðbjörnsdóttir. Gerð var grein fyrir niðurstöðum fyrri rannsóknarinnar í greininni Efnahagshrunið og skólastarf í tveimur íslenskum sveitarfélögum: Skólakreppa? Sú grein birtist árið 2012 í Netlu-Veftímarit um uppeldi og menntun. Meðhöfundar voru: Sigurlína Davíðsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Anna Kristín, Sigurðardóttir, Arna H. Jónsdóttir, Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson.

Kynjajafnrétti og kennaramenntun

Á árunum 2010-2015 var ég í stjórn RannKyn, Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun. Frá árinu 2011 tók ég þátt i rannsóknum á kynjajafnrétti á vegum rannsóknarstofunnnar. Í fyrsta áfangangum beindum við Guðný Guðbjörnsdóttir athyglinni að viðhorfum kennara á Menntavísindasviði til kynjajafnréttis og kennslu um kynjajafnrétti. Á grundvelli hennar skrifuðum við greinina Þotulið” og “setulið” Kynjajafnrétti og kennaramenntun sem birt var í veftímaritinu Netlu árið 2012. Við könnuðum einnig viðhorf skólastjóra til jafnréttis og afurð þeirrar rannsóknar er greinin Hvernig er tekið á fræðslu um kynja­jafnrétti í skólum? Athugun á viðhorfum, þekkingu og áhuga skóla­stjóra þriggja skólastiga sem birtist í Netlu árið 2017. Við Guðný höfum báðar flutt erindi um þessa hluta rannsóknarinnar hér á landi og erlendis.

Starfsháttarannsókn

Á árunum 2009-2011 tók ég þátt í viðamiklu rannsóknarverkefni þar sem starfshættir í 20 grunnskólum voru athugaðir. Í rannsóknarteyminu voru 20 rannsakendur frá þrem háskólum, en samtals stóðu um 50 aðilar frá ýmsum stofnunum að rannsókninni. Rannsóknin beindist að starfsháttum í grunnskólum í víðu samhengi og var leitast við að varpa ljósi á þá fjölmörgu þætti sem hafa áhrif á námsgengi nemenda. Meginmarkmiðið var að gefa yfirsýn yfir núverandi starfshætti í íslenskum grunnskólum. Við Börkur Hansen vorum rannsakendur á sviði svonefndrar Skipulagsstoðar þar sem athyglinni var fyrst og fremst beint að skipulagi skólastarfs og stjórnun þess með megináherslu á kennslufræðilega forystu. Niðurstöður okkar rannsóknar var birt í bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. (sjá nánar framar í ferilskrá) og gefin var út árið 2014.