Fuglinn segir bí, bí, bí

Sólveig Jakobsdóttir, 31. október 2013

Í dag er 31. október sem er Hrekkjavaka. GPJ_hallow_norn3108Það er skemmtilegur dagur til að hefja tilraun hér við Menntavísindasvið að bjóða upp á menntabúðir undir yfirskriftinni Frjóir fimmtudagar  fyrir áhugafólk um upplýsingatækni í skólastarfi - við munum skemmta okkar vel að skoða trix og tækni. En ætlunin er að tengja saman kennaramenntun og vettvang og stuðla að starfsþróun á þessu sviði og myndun tengslaneta. Sjá nánar á UT-torgi.

Í þessum fyrstu menntabúðum eru margir búnir að gera tillögur um spennandi framlög og ég ætla sjálf að fjalla um notkun mína á Twitter en hún er reyndar á frumstigi. Það er reyndar nokkuð langt síðan ég skráði mig inn á þennan samfélagsmiðil. En aðalnotkunin hjá mér fólst í að tengja við NING samfélagsmiðilinn þannig að atburðir sem væru skráðir inn þar og örblogg kæmi líka fram á Twitter. Í millitíðinni hefur notkun Twitter færst gríðarlega í aukana, ekki síst meðal yngra fólks t.d. í Bandaríkjunum (ath. t.d. PEW Internet Project). Ég hafði líka tekið eftir því að á ráðstefnum sem ég sótt var mikið farið að nota tíst til að fjalla um erindi. Ég hvatti því nemendur mína til að byrja að tísta á Menntakviku, árlegu þingi Menntavísindasviðs í fyrra og hitteðfyrra og þá var fyrsta tístið sent á Twitter svo ég viti til um þá ráðstefnu. Við vildum svo gera átak fyrir Menntakviku ráðstefnuna sl. september en þá sendi ég eftirfarandi kynningarbréf á póstlista starfsmanna:

Við höfum verið að velta fyrir okkur möguleikum á að nota Twitter á Menntakviku. Notkun Twitter or orðin afar útbreidd samskiptaleið víða um lönd, til einkanota og í tengslum við nám og störf, til að fylgjast með ýmsum atburðum og einstaklingum og koma upplýsingum á framfæri. Á Íslandi virðist vera komin hefð að nota hugtakið tíst um Twitter enda er lógó þessa samfélagsmiðils fugl. 

Algengt er á ráðstefnum erlendis að Twitter sé nýtt, t.d. er hægt að vekja athygli á áhugaverðum erindum eða einhverju sem kemur fram í þeim, setja fram spurningar eða hugleiðingar. Oft er lítill tími fyrir hvert erindi og umræðu í tengslum við það svo tístið getur virkað sem framlenging, hægt er að velta upp spurningum sem koma upp í hugann eftir að erindinu er lokið. Tækifæri gefst fyrir fleiri að komast að, meðal annars þá sem eru feimnir að taka til máls á staðnum. Þetta eru engar langlokur sem hægt er að senda í einu heldur örskilaboð eða örblogg. En ef samskipti fara af stað um eitthvað ákveðið er þá hægt að senda fleiri skilaboð í kjölfarið.

 Ef þið viljið prófa þetta, eða hvetja hópa (nemenda?) til þess að gera það, þá þarf hver einstaklingur að:

  • skrá sig inn á http://twitter.com
  • Slá inn #Menntakvika í leitargluggann og passa að í þeim færslum sem sendar eru inn sé #Menntakvika með.

Einnig er hægt að skrá sig inn á http://tweetchat.com með Twitter aðgangsorðunum fara inn á viðkomandi #  (sem sé #Menntakvika) og taka þátt í umræðum, senda inn skilaboð. Ef það er gert losnar maður við að setja #Menntakvika inn í hvert framlag sem maður sendir. Ef snjallsímar eða spjaldtölvur eru notaðar í þessum tilgangi er hlaðið inn Twitter smáforritinu.

 Hér er sýnt hvernig Twitter virkar í MOOC námskeiði um upplýsingatækni í námi og kennslu https://www.youtube.com/watch?v=R1dSTRYdBZ4

Sem sé væri einnig hægt að nýta þessa möguleika í kennslu með margvíslegum hætti, t.d. ef maður vill fá fram hugmyndir nemenda um eitthvað ákveðið efni, til að mynda í stórum fyrirlestri. Þá geta þau notað snjallsímana sína. Hægt er að setja inn Twitter-streymi á ýmsar síður, t.d. í Moodle.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Twitter streymi var sett upp á Menntakviku-vefnum og voru á þriðjahundrað tíst send inn á meðan á aðalerindum og málstofum stóð, skv. úttekt Svövu Pétursdóttur sem þátt tók í tístinu. Ég hef síðan verið að prófa að setja tístsvæði inn í Moodle í námskeiðum sem ég hef kennt og hef áhuga á að þróa þá möguleika áfram. Ég var einnig að ræða við samstarfsmann minn um möguleika á nýtingu Twitter t.d. í heimspekikennslu þar sem nemendur í stórum námskeiðum gætu sent inn hugleiðingar frekar en að skrifa þyrfti upp á töflu hvað hver var að pæla. Gaman verður að heyra í þátttakendum í menntabúðum hvort fólk er farið að nýta þenna möguleika og þá hvernig. Svo eru önnur mál sem mætti ræða varðandi þenna örbloggs-kúltúr hjá ungu fólki og hugsanlega vandamál sem upp geta komið, t.d. í skólum þar sem far- og snjallsímanotkun er bönnuð. Twitter notkun virðist hins vegar ekki hafa náð svo mikilli útbreiðslu enn sem komið er hér á landi, og heldur ekki meðal ungs fólks ef marka má nýlega könnun SAFT.