Fuglinn segir bí, bí, bí

Sólveig Jakobsdóttir, 31. október 2013

Í dag er 31. október sem er Hrekkjavaka. GPJ_hallow_norn3108Það er skemmtilegur dagur til að hefja tilraun hér við Menntavísindasvið að bjóða upp á menntabúðir undir yfirskriftinni Frjóir fimmtudagar  fyrir áhugafólk um upplýsingatækni í skólastarfi - við munum skemmta okkar vel að skoða trix og tækni. En ætlunin er að tengja saman kennaramenntun og vettvang og stuðla að starfsþróun á þessu sviði og myndun tengslaneta. Sjá nánar á UT-torgi.

Í þessum fyrstu menntabúðum eru margir búnir að gera tillögur um spennandi framlög og ég ætla sjálf að fjalla um notkun mína á Twitter en hún er reyndar á frumstigi. Það er reyndar nokkuð langt síðan ég skráði mig inn á þennan samfélagsmiðil. En aðalnotkunin hjá mér fólst í að tengja við NING samfélagsmiðilinn þannig að atburðir sem væru skráðir inn þar og örblogg kæmi líka fram á Twitter. Í millitíðinni hefur notkun Twitter færst gríðarlega í aukana, ekki síst meðal yngra fólks t.d. í Bandaríkjunum (ath. t.d. PEW Internet Project). Ég hafði líka tekið eftir því að á ráðstefnum sem ég sótt var mikið farið að nota tíst til að fjalla um erindi. Ég hvatti því nemendur mína til að byrja að tísta á Menntakviku, árlegu þingi Menntavísindasviðs í fyrra og hitteðfyrra og þá var fyrsta tístið sent á Twitter svo ég viti til um þá ráðstefnu. Við vildum svo gera átak fyrir Menntakviku ráðstefnuna sl. september en þá sendi ég eftirfarandi kynningarbréf á póstlista starfsmanna:

Við höfum verið að velta fyrir okkur möguleikum á að nota Twitter á Menntakviku. Notkun Twitter or orðin afar útbreidd samskiptaleið víða um lönd, til einkanota og í tengslum við nám og störf, til að fylgjast með ýmsum atburðum og einstaklingum og koma upplýsingum á framfæri. Á Íslandi virðist vera komin hefð að nota hugtakið tíst um Twitter enda er lógó þessa samfélagsmiðils fugl. 

Algengt er á ráðstefnum erlendis að Twitter sé nýtt, t.d. er hægt að vekja athygli á áhugaverðum erindum eða einhverju sem kemur fram í þeim, setja fram spurningar eða hugleiðingar. Oft er lítill tími fyrir hvert erindi og umræðu í tengslum við það svo tístið getur virkað sem framlenging, hægt er að velta upp spurningum sem koma upp í hugann eftir að erindinu er lokið. Tækifæri gefst fyrir fleiri að komast að, meðal annars þá sem eru feimnir að taka til máls á staðnum. Þetta eru engar langlokur sem hægt er að senda í einu heldur örskilaboð eða örblogg. En ef samskipti fara af stað um eitthvað ákveðið er þá hægt að senda fleiri skilaboð í kjölfarið.

 Ef þið viljið prófa þetta, eða hvetja hópa (nemenda?) til þess að gera það, þá þarf hver einstaklingur að:

  • skrá sig inn á http://twitter.com
  • Slá inn #Menntakvika í leitargluggann og passa að í þeim færslum sem sendar eru inn sé #Menntakvika með.

Einnig er hægt að skrá sig inn á http://tweetchat.com með Twitter aðgangsorðunum fara inn á viðkomandi #  (sem sé #Menntakvika) og taka þátt í umræðum, senda inn skilaboð. Ef það er gert losnar maður við að setja #Menntakvika inn í hvert framlag sem maður sendir. Ef snjallsímar eða spjaldtölvur eru notaðar í þessum tilgangi er hlaðið inn Twitter smáforritinu.

 Hér er sýnt hvernig Twitter virkar í MOOC námskeiði um upplýsingatækni í námi og kennslu https://www.youtube.com/watch?v=R1dSTRYdBZ4

Sem sé væri einnig hægt að nýta þessa möguleika í kennslu með margvíslegum hætti, t.d. ef maður vill fá fram hugmyndir nemenda um eitthvað ákveðið efni, til að mynda í stórum fyrirlestri. Þá geta þau notað snjallsímana sína. Hægt er að setja inn Twitter-streymi á ýmsar síður, t.d. í Moodle.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Twitter streymi var sett upp á Menntakviku-vefnum og voru á þriðjahundrað tíst send inn á meðan á aðalerindum og málstofum stóð, skv. úttekt Svövu Pétursdóttur sem þátt tók í tístinu. Ég hef síðan verið að prófa að setja tístsvæði inn í Moodle í námskeiðum sem ég hef kennt og hef áhuga á að þróa þá möguleika áfram. Ég var einnig að ræða við samstarfsmann minn um möguleika á nýtingu Twitter t.d. í heimspekikennslu þar sem nemendur í stórum námskeiðum gætu sent inn hugleiðingar frekar en að skrifa þyrfti upp á töflu hvað hver var að pæla. Gaman verður að heyra í þátttakendum í menntabúðum hvort fólk er farið að nýta þenna möguleika og þá hvernig. Svo eru önnur mál sem mætti ræða varðandi þenna örbloggs-kúltúr hjá ungu fólki og hugsanlega vandamál sem upp geta komið, t.d. í skólum þar sem far- og snjallsímanotkun er bönnuð. Twitter notkun virðist hins vegar ekki hafa náð svo mikilli útbreiðslu enn sem komið er hér á landi, og heldur ekki meðal ungs fólks ef marka má nýlega könnun SAFT.

Opið aðgengi og menntarannsóknir

Sólveig Jakobsdóttir, 28. október 2013

Hér koma hugleiðingar að nýlokinni viku (21.-27. október) sem tileinkuð er opnu aðgengi (open access week, sjá t.d. Málþing 25.10. á vegum RANNÍS o.fl. um opið aðgengi og http://www.openaccessweek.org). Fyrir tæpu ári síðan sagði ég mig úr ritstjórn tímarits sem ég hef verið í allmörg undanfarin ár. Það var þá komið í hæsta gæðaflokk (A) samkvæmt ERIH-viðmiðum sem þýðir að fyrir birtingu greinar í því tímariti hefði ég eða aðrir fræðimenn við Háskóla Íslands fengið 20 stig (sjá vinnumatsreglur frá 2012). Á hinn bóginn var þetta tímarit ekki í opnum aðgangi og áskrift í landsaðgangi að tímaritinu var ekki lengur virk. Ég hefði því aldrei hvatt fólk hér á landi til að birta efni í tímaritinu þar sem það væri óaðgengilegt án gjalds og töluverðrar fyrirhafnar fyrir fræðimenn, nemendur, kennara eða almenning hér á landi.

Ég var þá búin að ætla mér alllengi að segja mig úr ritstjórninni eftir að ég hafði hlustað á erindi Sólveigar Þorsteinsdóttur, deildarstjóra Heilbrigðisvísindabókasafns Landspítalans í árslok 2011 sem hún flutti á málstofu RANNUM, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Menntavísindasvið. Ég stýri þeirri stofu en RANNUM er ein af 21 rannsóknarstofu á sviðinu. Aðgangur að erindinu er á vef stofunnar fyrir þá sem hafa áhuga. Sólveig benti þar meðal annars á Berlínaryfirlýsinguna (Berlin Declaration) frá 2003 um opið aðgengi að þekkingu í hug- og raunvísindum en í nýliðinni viku um opið aðgengi voru 451 aðilar búnir að undirrita hana. Hér á landi skrifaði Vísindaráð RANNÍS undir samþykktina í maí 2010. Í yfirlýsingunni er áhersla á opið og frjálst aðgengi að tímaritsgreinum ekki síst að greinum sem byggðar eru á rannsóknum styrktum af almannafé. En það á væntanlega við allar eða langflestar rannsóknir unnar af starfsmönnum Háskóla Íslands. Í Berlínaryfirlýsingunni er talið mikilvægt að hvetja vísindamenn til að hafa opið og frítt aðgengi að fræðilegu efni og ef mögulegt sé að halda sjálfir höfundarréttinum en láta hann ekki öðrum í té. Þá á að styðja hugmyndir um að rannsóknartengd skrif séu metin að eigin verðleikum en ekki verðleikum tímaritsins sem birtir efnið.

Sólveig benti á að útgáfa fræðitímarita væri að færast á sífellt færri útgáfufyrirtæki og í raun væri um að ræða milljarða-(svika?)myllu þar sem háskólar væru rukkaðir um risaháar upphæðir fyrir aðgang að mörgum þeirra tímarita sem reiknuðust með háan áhrifastuðul. Háskólarnir, mjög margir reknir af opinberu fé, sæju hins vegar um að fjármagna rannsóknirnar. Þá væri hefð fyrir því að fræðimenn taki að sér ritrýningu án greiðslu, væntanlega flestir á launum hjá háskólunum. Þeir gæfu höfundarréttinn af greinunum til útgáfufyrirtækjanna sem síðan rökuðu til sín fjármagni frá stofnunum og einstaklingum sem borguðu fyrir aðganginn. Ég "gúglaði" að gamni "science journals racket in publishing millions of dollars" og fékk þá upp mjög áhugaverða grein í the Guardian frá því í fyrra. Þar er blaðamaður the Guardian alveg gáttaður yfir því hvernig þetta kerfi geti staðist. Hann tók viðtal við Tim Gowers, prófessor og frægan stærðfræðing við Cambridge-háskóla, sem hefur skorið upp herör gegn útgefendum eins og Elsevier. Ég hvet fólk til að kynna sér greinina en þar kemur t.d. fram að talið sé að bara sú vinna sem starfsmenn breskra háskóla leggi í ritrýningu til að tryggja gæði tímarita sé áætluð á um 165 milljónir punda.

Útgáfufyrirtækin fá að leika þennan leik á meðan háskólarnir viðhalda sínu matskerfi og spila með. Það hriktir þó í kerfinu eftir því sem krafan um opið aðgengi verður háværari og sífellt auðveldara er að birta efnið, m.a. í tímaritum sem bjóða upp á opinn aðgang að greinunum (gullin leið í opnum aðgangi). Sum tímarit eru þá hins vegar að hluta til áfram lokuð en rukka þá sem senda inn greinar, oft um stórar fjárhæðir vilji þeir hafa aðgengi opið sem leiði til meiri lesturs greinanna. Slík gjaldtaka hefur verið umdeild, sjá til dæmis nýlega bloggfærslu. Þessari gjaldtöku hefur verið líkt við kröfu um lausnargjald fyrir eitthvað sem útgefendur ættu ekki að fá að slá eign sinni á. Mörgum hefur þótt svokölluð græn leið í opnum aðgangi fýsilegri en samkvæmt henni á að vera hægt að nálgast nokkuð endanlegar útgáfur af efninu í gagnagrunnum og þá umsamið við útgefendur um það.

Ég vil hins vegar benda á að mikið er til af tímaritum sem hafa aðganginn alveg opinn og rukka ekki fyrir ritrýningu og birtingu og á það við um NETLU - veftímarit um uppeldi og menntun sem Kennaraháskóli Íslands (nú Menntavísindasvið Háskóla Íslands) hefur gefið út samfellt frá árinu 2002. Á DOAJ-vefnum (Directory of Open Access Journals, http://www.doaj.org) er að finna skrá yfir mörg þúsund tímarit í opnu aðgengi (9.929 journals frá 123 löndum með 1.521.764 greinum þegar þetta er skrifað, þar á meðal Netlu) og er langstærstur hluti tímaritanna alveg opinn (án birtingargjalds) eða 6.569. Vonandi fer áhrifastuðull þeirra ört vaxandi.

Við sem stóðum að því að stofna NETLU á sínum tíma erum mjög stolt af því framtaki enda er þetta eitt fyrsta fræðitímaritið hér á landi sem aðgengilegt var á netinu og rafræn útgáfa fræðilegra tímarita var einnig að stíga sín fyrstu spor erlendis. Ekki síst erum við hreykin af því að frá upphafi var tekin ákvörðun um opið aðgengi. Við settum á oddinn að auka og bæta aðgengi alls skólasamfélagsins að fræðilegu efni tengdu uppeldi, menntun og skólastarfi. Í byrjun var þetta frumkvöðlastarf nokkuð umdeilt og vafi talinn leika á að gæðin gætu verið sambærileg við efni sem birt væri á hefðbundinn hátt í prentmiðlunum. Sagan sýnir hins vegar að á undanförnum árum hefur útgáfa fræðilegra tímarita í heiminum færst nær alfarið á netmiðilinn. Ég fullyrði að þeir sem taka að sér ritrýningu á greinum í Netlu og öðrum tímaritum í opnu aðgengi gera það ekki með öðrum hætti en varðandi þær greinar sem þeir eru beðnir um að ritrýna í erlendum tímaritum í lokuðu eða hálfopnu aðgengi sem fá í mörgum tilvikum aðra gæðaflokkun. Það á að minnsta kosti við um sjálfa mig sem hef ritrýnt greinar í nokkrum erlendum tímaritum og einnig stöku sinnum verið fengin til að ritrýna efni í Netlu.

Það má svo sem deila um hvort ritrýndar greinar séu endilega besta leiðin til að koma rannsóknarniðurstöðum á framfæri, sjá til dæmis nýlega bloggfærslu hjá Sigurði Fjalari Jónssyni þar sem hann vísar í umræðu á Menntakviku, árlegu þingi Menntavísindasviðs. Á ráðstefnunni hefur vel komið fram sú gróska sem er í menntarannsóknum hér á landi. En í færslu Sigurðar Fjalar hvetur hann til að samfélagsmiðlarnir séu nýttir í auknum mæli til að kynna niðurstöður menntarannsókna svo þær hafi meira hagnýtt gildi fyrir þróun skólastarfs. Það er því miður svo að slíkar kynningar væru taldar lítils sem einskis virði samkvæmt vinnumatskvarða Háskólans og það gildir reyndar um margt fleira af því rannsóknar- og þróunarstarfi sem unnið er á sviðinu.

Fræðimenn á Menntavísindasviði eru oft fengnir til að taka að sér matsrannsóknir og -verkefni. Fyrsta (og oft eina) birting slíkra verkefna er viðamikil matsskýrsla en samningsatriði er oft á tíðum hvort birta megi upplýsingar með öðrum hætti. Dæmi um það eru skýrslur um matsrannsóknir sem RANNUM hefur tekið að sér. Þar sem ég hef sjálf ekki verið sérlega sniðug að spila eftir vinnumatskerfinu hef ég því miður mun takmarkaðri stigafjölda en ef ég hefði neitað að taka að mér viðkomandi verkefni og/eða haft skemmri skírn á skýrslugerð en sett mestan hluta niðurstaðna í greinar til birtingar í háttmetnum erlendum tímaritum. Nokkur stig (1-5 stig) geta hugsanlega fengist fyrir eina skýrslu, ef það er vel rökstutt, en klipið er af þeim stigafjölda þegar höfundar eru margir.

Sem dæmi má nefna að fyrir eftirfarandi fjórar skýrslur á árunum 2010-2012 fékk ég alls samkvæmt vinnumatskerfi háskólans sem samsvarar 9 stigum (ca. 2,25 fyrir hverja skýrslu) um helmingi minna en fengist hefði fyrir eina grein í tímaritinu sem ég sagði mig úr fyrir ári. Ekkert af þessum verkefnum væri þó hægt að vinna almennilega án þess að hafa góðan grunn í rannsóknum á sviði menntavísinda.

Ef ég hefði sem sé unnið sambærilegar rannsóknir án nokkurs samstarfs við aðra og fengið grein birta um hverja rannsókn í tímaritinu góða væri ég með 4x20 eða 80 stig í stað 9. Þarna munar 71 stigi.

Sem betur fer eru auknar kröfur hér á landi um opið aðgengi að niðurstöðum rannsókna sem unnar eru fyrir almannafé. Þar hefur RANNÍS  sett fordæmi fyrir rannsóknir sem eru styrktar af þeim. Þetta virðist einnig ætla að verða meginregla hjá Háskóla Íslands en þar þarf þá væntanlega einnig að huga að stigamati í því samhengi. Til dæmis þarf að skoða hvort hafa eigi jafn ströng viðmið  og nú eru viðhöfð varðandi styrkumsóknir í Rannsóknasjóð HÍ. Samkvæmt þeim er allt að því ómögulegt að fá styrk úr sjóðnum fyrir verkefni nema hafa birt á nýliðnum árum niðurstöður rannsókna í virtum tímaritum sama hversu háa einkunn sjálf áætlunin fengi. Þessi viðmið eru ekki í samræmi við Berlínaryfirlýsinguna og ekki í samræmi við það mat sem notað var fyrir umsóknir í Rannsóknarsjóð Kennaraháskóla Íslands sem flestir núverandi starfsmenn Menntavísindasviðs gátu áður sótt í fyrir sameiningu háskólanna í til að fjármagna sínar rannsóknir.

Varðandi rannsóknasjóð hjá RANNÍS er áhugavert að skoða hver fagráðin eru sem fjalla um umsóknir um styrki. Þau eru fimm eins og sviðin við Háskóla Íslands: verkfræði, tækni- og raunvísindi; náttúru- og umhverfisvísindi; heilbrigðis- og lífvísindi; félagsvísindi og lýðheilsa; og hugvísindi. Reyndar er nýbúið að aðskilja félags- og hugvísindaráðin (áður var eitt ráð fyrir bæði sviðin). Glöggir lesendur sem þekkja fræðasviðin við Háskóla Íslands vita að skiptingin þar er í Verkfræði- og náttúruvísinda-, Heilbrigðisvísinda-, Félagsvísinda-, Hugvísinda- og Menntavísindasvið. Það síðastnefnda á sér ekki samsvarandi fagráð í RANNÍS en það fyrstnefnda á hins vegar tvö. Við sem gerum áætlanir um menntarannsóknir sendum umsóknirnar okkar til annarra ráða. Því miður er samkeppnin vægast sagt hörð um styrkina hjá RANNÍS og mér skilst að svo til engin von sé í ár til nýrra verkefna vegna niðurskurðar. Þannig að sú mikla vinna sem fór í umsókn hjá mér og mínum samstarfsaðilum til RANNÍS sl. vor fer væntanlega í súginn nema hægt sé að senda hana á erlenda grund þar sem menntarannsóknir fá kannski meiri séns.

(English) Solveig - Intro

Sólveig Jakobsdóttir, 3. september 2013

Ekki á íslensku