Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet (2015)

Gullfoss kapumynd

Í bókinni Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet er kastljósinu beint að Dönum búsettum á Íslandi og dönskum áhrifum á íslenskt samfélag og menningu á 20. öld. Fjallað er um hvernig Danir aðlöguðust íslensku mannlífi, en einnig hvernig þeir héldu sínum menningareinkennum og höfðu áhrif á íslenska menningu, viðskiptalíf og samfélag. Einnig er fjallað um áhrif dönskunnar á Íslandi og málið sem Danirnir töluðu. Þá hefur bókin að geyma grein um hvernig Ísland birtist í skrifum danskra rithöfunda.

Í bókinni eru níu greinar eftir sjö höfunda: Auði Hauksdóttur, Christina Folke Ax, Guðmund Jónsson, Írisi Ellenberger, Erik Skyum-Nielsen, Sigurð Pétursson og Þóru Björk Hjartardóttur. Formála að bókinni rita Vigdís Finnbogadóttir og Jørn Lund, en auk þess er ítarlegur yfirlitskafli um rannsóknir á samskiptasögu landanna.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Hauksdóttir, Erik Skyum-Nielsen og Guðmundur Jónsson.  Forlagið Vandkunsten í Kaupmannahöfn gefur bókina út.