Stökkbreytist veiran sem veldur COVID-19 hraðar en aðrar RNA-veirur?

Arnar Pálsson, 24/03/2020

Erfðamengi veira er lítið, það getur verið frá rúmlega þúsund bösum upp í um milljón basa. Til samanburðar eru um 6,5 milljarðar basa í hverri frumu manna. Stökkbreytihraði erfðaefnis er í öfugu hlutfalli við stærð erfðamengja, þannig að minni erfðamengi stökkbreytast örar. Fjallað er meira um þetta í svari við spurningunni Stökkbreytast veirur hraðar en flóknar lífverur? Árið 2020 hafa margir eðlilegar áhyggjur af kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum COVID-19 sem orðinn er að heimsfaraldri. Kórónuveirur eru með RNA-erfðaefni, á formi einsþátta RNA-sameindar, ólíkt DNA sem er tvíþátta kjarnsýra. Einsþátta kjarnsýrur eru mun berskjaldaðri fyrir ytri áhrifum og stökkbreytast þess vegna hraðar. Stökkbreytingar á veirum geta breytt eiginleikum þeirra, til að mynda ytri byggingu, fjölgunargetu og stöðugleika. Breytingar á ytri byggingu geta til dæmis gert veiru kleift að sleppa undan vöktun ónæmiskerfa fjölfruma dýra.

Lituð rafeindasmásjármynd af SARS-CoV-2-veirum sem valda sjúkdómnum COVID-19. Kórónuveirur eru með RNA-erfðaefni sem er einsþátta ólíkt DNA sem er tvíþátta.

Því er eðlilegt að velta fyrir sér hver stökkbreytihraði veirunnar SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 sé, og hvort hann sé hærri en hjá öðrum RNA-veirum? Ef þessi veira stökkbreytist hraðar en aðrar RNA-veirur sem við þekkjum, ættum við þá að hafa meiri áhyggjur? Vísindamenn eru enn að að meta stökkbreytihraðann hjá SARS-CoV-2, en rannsókn Zhao og félaga frá árinu 2004 á hinni náskyldu veiru SARS-CoV-1, greindi hraða hennar sem 0,8 til 2,4 × 10-3. Samanburður við aðrar RNA-veirur sýnir að ólíklegt er að kórónuveirur, þeirra á meðal SARS-CoV-2, hafi hærri stökkbreytihraða en aðrar RNA-veirur. Það er því ekki ástæða til að óttast SARS-CoV-2-veiruna vegna þess að hún stökkbreytist hraðar en aðrar veirur. Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir stökkbreytihraða í fjórum gerðum af RNA-veirum. Taflan er þýdd og aðlöguð frá Zhao og félögum 2004. Í þeirri grein er einnig að finna vísanir í frumheimildir sem meta stökkbreytihraðann.

Veiruflokkur og gerð Fjöldi stökkbreytinga í basapari á ári
Einsþátta RNA-veirur (jákvæður þáttur) – kórónuveirur
Músalifrarbólguveira 0,4 – 2,8 × 10-2
SARS-CoV-1 0,8 – 2,4 × 10-3
Einsþátta RNA-veirur (jákvæður þáttur) – ekki kórónuveirur
Lifrarbólguveira C 0,8 × 10-3
Gin- og klaufaveikiveira 6 ×10-3
Einsþátta RNA-veirur (neikvæður þáttur)
Flensuveirur af gerð A 2,3 × 10-3
Retróveirur
HIV-1 1,7 × 10-3
Visnuveira 1,7 × 10-3

Samantekt:

  • RNA er með hærri stökkbreytitíðni en DNA
  • Kórónuveirur hafa einsþátta RNA erfðaefni.
  • Stökkbreytitíðni kórónuveira er svipuð og annara RNA-veira

Heimildir:

Mynd:

Langri spurningu Davíðs S. er hér svarað að hluta.