(English) Nordic Committee on Bioethics Conference: Facing Death - End of life decisions

Arnar Pálsson, 15/08/2017

Sorry this part has not been translated

(English) Session on bioethics at NeIC 2017

Arnar Pálsson, 09/05/2017

Sorry this part has not been translated

Voru loðfílar erfðafræðilega úrkynjaðir og var útdauði þeirra óhjákvæmilegur?

Arnar Pálsson, 11/04/2017

Loðfílar (Mammuthus primigenius) eru eitt frægasta dæmið um útdauða tegund. Þeir eru skyldir afríkufílnum (Loxodonta africana africana) og áttu tegundirnar sameiginlegan forföður fyrir um 6,2–17,4 milljón árum*. Vísindamenn hafa náð heillegu erfðaefni úr loðfílshræjum sem varðveist hafa í sífreranum. Með nútímatækni er hægt að raðgreina erfðaefnið og skoða erfðafræði og sögu tegundarinnar. Niðurstöður benda til þess að loðfílar á Wrangel-eyju (þar sem síðustu loðfílarnir lifðu) hafi verið erfðafræðilega úrkynjaðir og að ef til vill voru þeirra einu mögulegu örlög útdauði.

Erfðamengi loðfíla

Hver er skyldleiki, fjölbreytileiki og þróunarfræði loðfíla? Mikilvægt skref til að svara þessum spurningum var stigið af Love Dalen við Náttúruminjasafnið í Stokkhólmi og samstarfsmönnum hans sem birtu grein í Current Biology árið 2015 um raðgreiningu á erfðamengi tveggja loðfíla. Annar fíllinn var frá Síberíu og um 45.000 ára gamall – þegar hann lifði var stofninn stór og útbreiðslan mikil. Hinn loðfíllinn er um 4.300 ára og tilheyrði smáum og einangruðum stofni á Wrangel-eyju norðan Síberíu rétt vestan Beringssunds. Eyjan er lítil, flatarmál hennar er aðeins um 7.600 km2. Stofninn var um 500-1.000 dýr og tórði á eyjunni í um 6.000 ár. Wrangel-eyjar var síðasta vígi loðfílanna en talið er að stofninn hafi dáið út fyrir um 3.700-4.000 árum. Rannsóknir hafa sýnt að loðfílarnir á Wrangel-eyju voru um fjórðungi minni en meginlandsfílarnir, en dæmi eru um enn smávaxnari loðfíla á Krít og eyjum undan strönd Kaliforníu**. Þeir dóu þó út mun fyrr.

Ein merkilegasta niðurstaða greinar Dalen og félaga er sú að loðfíllinn á Wrangel-eyju hafði minni arfblendni en loðfíllinn af meginlandinu. Arfblendni er mælikvarði á það hlutfall gena í erfðamengi einstaklings sem eru á arfblendnu eða arfhreinu formi. Ef einstaklingur fær sama eintak af geni frá báðum foreldrum er viðkomandi arfhreinn um það gen. Í flestum tegundum er arfblendni há, margar útgáfur eru til af hverju geni, og einstaklingar arfblendnir um flest eða öll sín gen. Það gefur tegundum þróunarfræðilegt bolmagn til að svara áskorunum framtíðar. Lág arfblendni (það er lítill erfðabreytileiki) er óæskileg. Ef einhver er arfhreinn um mörg gen er líklegt að viðkomandi sé arfhreinn um eina eða fleiri skaðlega samsætu. Þannig birtast genagallar. Innræktun leiðir til minni arfblendni einstaklinga og eykur líkurnar á því að afkvæmi fæðist sem þjáist af genagöllum.

Samspil náttúrulegs vals og stofnstærðar

Stofnerfðafræði fjallar um krafta sem hafa áhrif á erfðabreytileika innan hópa og tegunda. Veigamestu kraftarnir eru stökkbreytingar, hending (genaflökt), stofnstærð, stofnbygging og náttúrulegt val.

Stökkbreytingar leiða til nýs breytileika. Þær geta verið breytingar á stökum bösum, en einnig innskot eða úrfellingar af lengri strengjum, til dæmis vegna svonefndra hoppandi gena (svokallaðra stökkla***) . Ekki eru allar stökkbreytingar eins, sumar eru góðar (fóður fyrir aðlögun), margar eru hlutlausar (hafa engin áhrif á hæfni), en stór hluti er skaðlegur - skemma gen og líffræðileg kerfi (til dæmis virkni hjartans, lyktarskyn, eiginleika húðar og felds og svo framvegis).

Hending hefur áhrif á stofna því myndun kynfruma og pörun einstaklinga er töluverðri tilviljun háð. Hending er eins og teningakast, stundum koma upp fimm sexur - stundum engin. Áhrif hendingar eru mest ef stofnar eru litlir. Þá getur tilviljunin leitt til mikilla breytinga í tíðni gena, jafnvel stökkbreytinga sem eru skaðlegar fyrir tegundina.

Náttúrulegt val er kraftur sem bæði býr til aðlaganir og varðveitir þær. Náttúrulegt val virkar best ef stofninn er stór og býr þannig yfir þeim erfðafjölbreytileika sem þarf til að laga sig að breyttum aðstæðum og það sem er ekki síður mikilvægt, nægilega stór til að að fjarlægja slæmar útgáfur (samsætur) gena.

Uppsöfnun skaðlegra breytinga í loðfílum á Wrangel eyju

Rebekah Rogers og Montgomery Slatkin greindu upp á nýtt gögn Dalen og félaga úr raðgreiningu erfðamengja loðfílanna tveggja, frá Síberíu og Wrangel-eyju. Þau beindu sjónum að hlutfalli slæmra breytinga og leituðu sérstaklega að breytilegum stöðum og úrfellingum á genum eða hlutum þeirra. Niðurstaða þeirra var sú að margskonar erfðagallar voru algengari í Wrangel-loðfílnum en Síberíufílnum. Þau fundu 25% fleiri úrfellingar í erfðamenginu sem eyðilagði eða fjarlægði gen, hærra hlutfall alvarlegra stökkbreytinga og hærra hlutfall hoppandi gena í Wrangel-fílnum.

Niðurstöðurnar eru nokkuð skýrar en samt verður að slá varnagla. Einungis var unnið með tvo einstaklinga, einn úr hvorum stofni. Það er mögulegt að úrkynjað eintak hafi valist frá Wrangel-eyju og heilbrigður fíll frá Síberíu. Það er því nauðsynlegt að kanna erfðaefni fleiri loðfíla og frá öðrum stöðum til að meta hversu traust mynstrið er.

Aðrir stofnerfðafræðilegir eða aðferðalegir þættir geta dregið fram þau mynstur sem sáust í gögnunum. Helsta röksemdin fyrir því að gögnin séu líklega rétt er að þótt mögulegt sé að fá skekkju í eina mælistærð vegna annarra þátta er ólíklegt að fá samskonar skekkju í þær allar. Fyrst allar mælistikurnar benda í sömu átt er líklegt að mynstrið sé raunverulegt.

Spyrja má hvað getur útskýrt þessa uppsöfnun skaðlegra breytinga í stofninum. Ástæðan er að öllum líkindum sú að stofninn var bæði lítill og einangraður í margar aldir og árþúsundir. Stofninn á Wrangel-eyju var líklega aðeins um 500-1.000 dýr vegna takmarkaðs burðarþols eyjunnar. Náttúrulegt val virkar ekki sem skyldi í litlum stofnum þar sem það nær ekki að hreinsa erfðagalla úr stofninum. Ef stofninn er of lítill er hætt við að tíðni slæmra samsæta í stofninum aukist með tímanum og einnig aukast líkur á innræktun og arfhreinum erfðagöllum.

Höfundar rannsóknarinnar, Rogers og Slatkin, álykta að loðfílastofninn á Wrangel-eyju sé dæmi um genahrun (e. genomic meltdown) og spyrja hvort útdauði þeirra hafi verið óumflýjanlegur þar sem erfðamengi þeirra var uppfullt af skaðlegum breytingum og arfblendnin lítil.

Er genahrun líklegt í öðrum stofnum og tegundum?

Lífverur hafa tvær meginleiðir til að aðlagast nýju umhverfi; erfðabreytileika og sveigjanleika. Ef stofninn býr yfir nægilegum erfðabreytileika og er nægilega stór getur náttúrulegt val leitt til aðlögunar hans að nýju aðstæðum. Hin leiðin er sveigjanleiki í atferli, formi eða virkni lífvera. Slík aðlögunarhæfni er innbyggð í lífverur, en mismikil eftir tegundum og hópum. Dýr geta lagast að breytingum í umhverfi með því að færa sig til. Plöntur geta ekki fært sig en margar geta hins vegar breytt vaxtarformi sínu til að bregðast við nýjum aðstæðum, vaxið á einn hátt í miklum þurrki og annan veg í raka. Slíkt finnst reyndar líka meðal dýra, til dæmis í bleikju sem er með eina sveigjanlegustu þroskun sem finnst meðal hryggdýra.

Genahrun eins og virðist hafa orðið í Wrangel-loðfílunum er mögulegt í öðrum tegundum og er líklegast í tegundum sem eru með mjög litla stofnstærð í langan tíma. Samkvæmt líkani Rogers og Slatkin er hætt við að stofnar sem lenda í hringiðu smárrar stofnstærðar og erfðagalla þokist óhjákvæmilega í átt að útdauða.

Vegna áhrifa mannsins á vistkerfi og búsvæði lífvera eru margar tegundir í þeirri stöðu að teljast ógnað eða í beinni hættu á því að deyja út. Lítil arfblendni eins og sást í Wrangel-fílum sést í öðrum tegundum í útrýmingarhættu eins og ljónum, tígrum, tasmaníuskollum, górillum, blettatígrum og ísbjörnum. Nauðsynlegt er að framkvæma álíka greiningar á þeim til að reyna að meta ástand tegundanna og þróunarfræðilegt þrek.

Er hægt að spyrna við genahruni tegunda?

Líklega er besta leiðin til að sporna við genahruni sú að koma í veg fyrir að stofnar villtra tegunda verði of litlir. Einnig þarf að gera ráðstafanir til að draga úr uppskiptingu. Athafnir manna, til dæmis lagning hraðbrauta eða bygging borga, hafa rofið búsvæði með þeim afleiðingum að stofnar einangrast og gen flæða ekki á milli þeirra. Sem dæmi eru simpansar nú klofnir í marga smærri hópa og hafa lítil samskipti, og þar með verður genablöndun þeirra lítil. Við slíkar aðstæður getur genagallahringiða komist í gang og skaðlegar breytingar safnast upp í litlum stofni.

Dýragarðafræðingar vita að innræktun er ógnun við viðgang tegunda. Í dýragörðum eru haldnar ættbækur fyrir fágæt dýr og þau sem eru í útrýmingarhættu, og einstaklingar (eða sæði) eru fluttir garða og landa á milli til að tryggja erfðafræðilegan fjölbreytileika. Reyndar má spyrja hvort að 100 górillur í dýragörðum séu í raun górillur? Er tegundin varðveitt ef hún lifir ekki í sínu náttúrulega umhverfi? Stóra vandamálið er samt sem áður eyðing búsvæða og ofnýting jarðar. Það að flytja ljónasæði milli landa leysir ekki vandann.

Hérlendis er vitað um eina tegund sem hefur dáið út frá landnámi, það er geirfuglinn. Önnur tegund í mikilli hættu er haförninn. Reyndar finnst örninn víðari en á Íslandi en stofninn hér er agnarsmár. Kristinn Haukur Skarphéðinsson á Náttúrufræðistofnun hefur kortlagt stofnstærð hafarnarins á Íslandi síðustu öldina. Stofninn er nú um 150 einstaklingar sem mynda um 70 pör. Af þeim verpa um 35 pör. Á fyrri hluta síðustu aldar var örninn ofsóttur, hreiðrum var steypt og eitruð hræ ætluð refum lögðu marga erni. Fæst voru verpandi pör innan við tuttugu. Spurning er hvort stofninn hérlendis hafi orðið of lítill til að viðhaldast. Það verður að rannsaka með því að greina erfðabreytileika í stofnum hérlendis og ytra.

Samantekt

  • Erfðafræðileg mynstur, genagallar og lág arfblendi benda til erfðafræðilegs hruns í loðfílum á eyju norðan Síberíu.
  • Náttúrulegt val virkar verr í litlum stofnum og nær ekki að hreinsa burt skaðlegar breytingar.
  • Möguleiki er á genahruni í öðrum tegundum með smáa stofnstærð, meðal annars ljónum, górillum og ísbjörnum.

Heimildir og athugasemdir:

  • Palkopoulou E, Mallick S, Skoglund P, Enk J, Rohland N, Li H, Omrak A, Vartanyan S, Poinar H, Götherström A, Reich D og Dalén L. (2015). Complete genomes reveal signatures of demographic and genetic declines in the woolly mammoth. Current Biology. 2015 25 (10):1395-400. doi: 10.1016/j.cub.2015.04.007.
  • Rogers R.L. og Slatkin M. (2017). Excess of genomic defects in a woolly mammoth on Wrangel island. PLoS Genetics. 13(3):e1006601. doi: 10.1371/journal.pgen.1006601.
  • Um náttúrurannsóknir á Wrangel eyju - síða National Geographic.
  • *Mikil skekkja í mati á aðskilnaði loðfíla og afríkufíla er vegna þess að það er byggt á DNA gögnum og að viðmið vantar með aldursgreindum steingervingum.
  • **Leifar dvergvaxta loðfíla hafa fundist á nokkrum eyjum, m.a. á Santa Rosa og öðrum eyjum undan strönd Kaliforníu og á Krít.
  • ***Stökklar eru DNA sníkjudýr, þeir lifa og deyja á DNA formi. Þeir eru aldrei lifandi vera í sjálfu sér, bera einungis upplýsingar sem eru afritaðar og innlimast og fjölga sér.

Pistillinn var ritaður fyrir vísindavefinn, titli var breytt lítillega.

Arnar Pálsson. „Er rétt að loðfílar hafi verið erfðafræðilega úrkynjaðir og var útdauði þeirra óhjákvæmilegur?Vísindavefurinn, 6. apríl 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=73765.

Ég vil þakka Leifi Hauksyni og Dagnýju Sveinbjörnsdóttur margfaldlega fyrir hjálpina við pistilinn. Kveikjan var upphringing frá Leifi og samtal okkar í Samfélaginu 7. mars (um uppsöfnun genagalla í loðfílum og örlög tegundanna). Ritstjórn Vísindavefsins tók vel í að fá pistil um loðfílana og hjálpaði mikið með textann.

(English) Maedi-visna virus persistence: Antigenic variation and latency.

Arnar Pálsson, 11/04/2017

Sorry this part has not been translated

Hvernig eru lífsýni rannsökuð í glæparannsóknum og af hverju er ekki hægt að gera það á Íslandi?

Arnar Pálsson, 03/03/2017
Arnar Pálsson. „Hvernig eru lífsýni rannsökuð í glæparannsóknum og af hverju er ekki hægt að gera það á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=73299.
Lífsýni (e. biopsy) eru sýni úr lífverum. Uppruni sýnanna er fjölbreytilegur, þau geta verið úr ólíkum lífverum og notagildi þeirra er einnig margháttað, allt frá grundvallarrannsóknum til glæparannsókna. Eins og nafnið gefur til kynna koma lífsýni alltaf úr lífverum eða innihalda lífveruleifar. Algengast er að lífsýni séu úr mönnum en þau geta líka komið úr öðrum tegundum lífvera, til dæmis finkum eða sebrahestum. Hægt er að taka lífsýni úr margskonar vefjum, til að mynda blóði, húð, fæðingarblettum, brjóstavef, meltingarvegi eða lifur. Sýnatakan er misjafnlega auðveld, blóðtaka eða munnstrok eru auðveldust en innri líffæri eru óaðgengileg og mörg hver viðkvæm. Til að ná sýnum er oft notaður sérhæfður búnaður, til dæmis rörmyndavélar með sérhæfðum klippum sem þræða má í meltingarveg og iður. Einnig eru til lífsýnasöfn, til dæmis svonefndar krukkuborgir með vefjasýni eða líffæri úr látnum einstaklingum, eins og sögupersónan Erlendur kynntist í glæpasögunni Mýrinni eftir Arnald Indriðason.

Lífsýni eru mikilvæg í læknisfræði. Hér er beinmergssýni tekið.

Notagildi lífsýna eru margvísleg. Þau eru sérstaklega mikilvæg í læknisfræði, við lögreglurannsóknir og vitanlega í grundvallarrannsóknum í líffræði og skyldum greinum. Í læknisfræði og líffræði eru lífsýni meðal annars notuð til að rannsaka eiginleika fruma, erfðasamsetningu, efnasamsetningu eða jafnvel tjáningu gena í vefjum. Lífsýni eru mikilvæg til að fylgjast með ástandi ólíkra vefja og greina sjúkdóma, til dæmis eru þau notuð til að kanna hvort frumuklasi sé góðkynja eða illkynja æxli. Grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði byggja að miklu leyti á lífsýnum, til dæmis er hægt að kanna eiginleika fruma úr ólíkum hlutum hryggsúlunnar með ræktun á tilraunastofu eða þróun með því að skoða erfðabreytileika í stofnum lífvera. Lífsýni eru einnig notadrjúg fyrir rannsóknir á glæpum. Lögregla getur nýtt margskonar lífsýni, til dæmis blóð, hár eða húðflögur af vettvangi glæps, undan nöglum fórnarlambs eða morðvopni. Við glæparannsóknir er langalgengast að greina erfðasamsetningu í lífsýnum og bera þau síðan við gagnagrunna eða sýni úr mögulegum fórnarlömbum eða grunuðum einstaklingum. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) notast við 13 lengdarbreytileika (DNA-örtungl) í sínum rannsóknum. Í þessu samhengi má benda á svar sama höfundar við spurningunni Hvernig virka erfðapróf?

Á Íslandi er unnið með margskonar lífsýni en um notkun og meðhöndlun sýna úr mönnum gilda strangar reglur. Vísindasiðanefnd metur umsóknir um rannsóknir, til dæmis á sviði mannerfðafræði. Greiningar á lífsýnum í glæparannsóknum eru bara gerðar á sérstökum rannsóknarstofum. Fyrir þær er krafist strangra öryggisstaðla, sérþjálfaðs starfsfólks, staðlaðra og vottaðra vinnuferla og öryggisventla. Ströng alþjóðleg vottun á slíkum rannsóknarstofum er nauðsynleg, til að tryggja áreiðanleika niðurstaðna svo ekki sé hægt að kasta rýrð á sönnunargögn. Hér á landi er ekki aðstaða fyrir hendi til að greina allar gerðir lífsýna. Á rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði er hægt að greina til dæmis ólík eiturlyf og alkóhól. Hér er hins vegar engin vottuð aðstaða til að gera erfðapróf á lífsýnum fyrir glæparannsóknir. Rannsóknir sem tengjast þess háttar málum eru því gerðar erlendis.

Samantekt:

  • Lífsýni eru úr lífverum.
  • Þau eru notuð í læknisfræði, líffræði og rannsóknum á glæpum.
  • Hér á landi er hægt að greina nokkrar gerðir lífsýna, en ekki erfðagreina fyrir glæparannsóknir.

Tilvitnanir og myndir:

Afneitun loftslagsvandans

Arnar Pálsson, 08/02/2017

Eftirfarandi pistill sem við Hrönn Egilsdóttir skrifuðum birtist í Kjarnanum 16. janúar síðastliðinn.

Til­gangur og mark­mið vís­inda er að afla skiln­ings á nátt­úru­legum fyr­ir­bærum og skapa þekk­ingu. Vís­inda­legar rann­sóknir og þró­un­ar­vinna eru und­ir­staða dag­legs lífs lang­flestra jarð­ar­búa. Þar má nefna hluti sem okkur þykja sjálf­sagðir eins og lyf, sam­göng­ur, ýmis raf­tæki, nýt­ingu auð­linda o.s.frv. Þökk sé vís­inda­legum rann­sóknum vitum við að reyk­ingar valda krabba­mein­i, HIV veiran veldur alnæmi og hreyf­ingar í kviku­hólfum í jarð­skorp­unni geta orsakað jarð­skjálfta. Þetta allt er almennt við­ur­kennt og óum­deilt.

Vís­inda­legar rann­sóknir sýna líka ótví­rætt að stærsta ógnin við líf og lifn­að­ar­hætti manna (og ann­arra líf­vera á jörð­inni) eru lofts­lags­breyt­ingar sem stafa af auknum gróð­ur­húsa­á­hrifum og súrnun sjávar en hvort tveggja stafar af losun mann­kyns á koldí­oxíði (CO2) út í and­rúms­loft­ið. Það er bráð­nauð­syn­legt og áríð­andi er að takast á við þennan vanda og þjóðir heims­ins hafa flestar kom­ist að sam­komu­lagi um að setja metn­að­ar­full mark­mið um aðgerðir til að draga úr ógn­inni. Þrátt fyrir þetta heyr­ast enn háværar raddir sem afneita þess­ari ógn. Það er sér­stak­lega alvar­legt mál þegar stjórn­mála­menn, aðrir kjörnir full­trúar eða jafn­vel áhrifa­ríkir hags­muna­að­ilar afneita lofts­lags­vand­an­um, því þar með eru þeir að neita kyn­slóðum fram­tíðar um þær lausnir sem hægt er að grípa til nú strax til að leysa vand­ann. Og lausn­irnar eru svo sann­ar­lega til!

Afneitun á lofts­lags­vand­anum getur verið af nokkrum ástæð­um, t.d.:

  1. Skorti á skiln­ingi á því hvernig vís­inda­legar rann­sóknir fara fram og því hlut­verki sem vís­indin hafa í sam­fé­lagi manna, þ.e.a.s. vegna skorts á vís­inda­læsi.
  2. Vegna blindrar trúar á tækni­legar lausnir eða mátt mark­að­ar­ins.
  3. Af ein­dregnum vilja til þess að ljúga, t.d. til að vernda eigin hags­muni eða ganga erinda hags­muna­að­ila.

Ekki er alltaf auð­velt að sjá hvaða ástæður liggja að baki afneit­unar hvers ein­stak­lings. Nær­tækt dæmi eru pistlar sem Heiðar Guð­jóns­son, stjórn­ar­for­maður olíu­leit­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Eykon Energy skrif­aði nýverið í Kjarn­ann. Í pistl­unum birt­ist mikil trú á mátt mark­að­ar­ins og tækni­legar fram­far­ir, en efni pistils­ins kann að vera dæmi um alvar­legan skort á vís­inda­læsi, blinda trú á kap­ít­al­isma eða ein­beittan vilja til að afvega­leiða umræð­una um þá ógn sem mann­kynið stendur frammi fyr­ir.

Erlendis er vel skrá­sett að andóf gegn lofts­lags­vís­indum er skipu­lagt af hags­muna­að­ilum í olíu og gas­iðn­aði. Iðn­aði sem jafnan svífst einskis til þess að kasta rýrð á vís­inda­menn, fræða­sam­fé­lagið og alþjóð­legar stofn­anir til þess að gæta fjár­hags­legra hags­muna sinna. Beitt er svip­uðum aðferðum og tóbaks­iðn­að­ur­inn not­aði gegn vís­inda­mönnum sem afhjúp­uðu skað­semi reyk­inga.

Taka skal fram að vís­indin og vís­inda­legar aðferðir eru alls ekki yfir gagn­rýni hafð­ar. Þvert á móti því vís­indin þríf­ast á gagn­rýnni umræðu. En skipu­lagðar og vel fjár­magn­aðar áróð­urs­her­ferðir eru ekki gagn­rýnin umræða, heldur til­raun til að afvega­leiða almenn­ing og stjórn­völd. Fram­tíð kom­andi kyn­slóða manna og alls lífs á jörð­inni veltur á því við verj­umst þessum áróðri. Hér er hlut­verk fjöl­miðla mik­il­vægt, og ábyrgð kjör­inna full­trúa enn meiri.

Því þrátt fyrir það veislu­borð upp­lýs­inga sem inter­netið færir okk­ur, þá vilja rang­færslur og stað­reynda­villur ósjaldan yfir­taka almenna umræðu um ýmis mál­efni. Erfitt er að eiga við ein­dreg­inn vilja til að afvega­leiða umræðu með rang­færsl­um. En almennt vís­inda­læsi er auð­velt, og nauð­syn­legt að bæta með því að efla ábyrga upp­lýs­inga­miðlun og mennt­un. Því þrátt fyrir það veislu­borð upp­lýs­inga sem inter­netið færir okk­ur, þá vilja rang­færslur og stað­reynda­villur ósjaldan yfir­taka almenna umræðu um ýmis mál­efni.

Vís­inda­menn eru fjöl­breyttur hópur fólks sem vinnur bæði í sam­vinnu og í sam­keppni við aðra vís­inda­menn. Vís­inda­legar rann­sóknir ganga út á prófa til­gátur sem lagðar eru fram út frá fyr­ir­liggj­andi þekk­ingu. Stundum er til­gátum hafnað en stundum renna rann­sókn­irnar stoðum undir til­gát­urn­ar. Til­gátur sem hafa stað­ist ítrekuð próf fest­ast í sessi og með tím­anum verður almenn og víð­tæk sátt um sann­leiks­gildi til­gát­unnar sem eftir það litið á sem stað­reynd, jafn­vel lög­mál eða kenn­ingu. Dæmi um þetta eru m.a. þyngd­ar­lög­mál Newtons, erfða­lög­mál Mendels eða þró­un­ar­kenn­ing Darwins. Nú er það við­ur­kennt sem vís­inda­leg prófuð stað­reynd að stór­tækur útblástur manna á koldí­oxíði (CO) er að valda og mun halda áfram að valda víð­tækum nei­kvæðum áhrifum á sam­fé­lög manna og annað líf­ríki á jörð­inni.

Byggjum umræðu um lofts­lags­málin á nið­ur­stöðum sem aflað er með vís­inda­legum próf­un­um. Gagn­rýnin hugsun gengur ekki út á að efast um allt, heldur að spyrja um gæði upp­lýs­inga og ræða um þær á yfir­veg­aðan hátt. Þar bera all­ir, stjórn­völd, fjöl­miðla­menn, fræði­menn og  aðr­ir, mikla ábyrgð. Sam­þykkjum ekki stað­reynda­villur og sam­sær­is­kenn­ing­ar. Veg­ferð mann­kyns byggir á því.

Arnar er dós­ent við líf- og umhverf­is­vís­inda­deild HÍ. Hrönn er dokt­orsefni við Jarð­vís­inda­deild HÍ.

Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn?

Arnar Pálsson, 16/01/2017

Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn?

Greinin var birt í Fréttablaðinu og á vefnum visir.is 9. janúar síðastliðinn.

Í fyrra voru framleidd um 8.000 tonn af eldislaxi hérlendis. Hugmyndir eru um margfalda framleiðsluaukningu, í 60.000 til 90.000 tonn á ári. Til samanburðar er um helmingur eldislax á heimsvísu (um 1,3 milljónir tonna) framleiddur á hverju ári í Noregi. Eðlilegt er að horfa til reynslu Norðmanna og kanna hvort og hvernig byggja má upp laxeldi hérlendis, því fjárhagslegur ávinningur virðist umtalsverður. Ég tel mikilvægt að skoða einnig umhverfisáhrif eldis. Norðmenn komust fljótt að því að laxeldi hefur neikvæð umhverfisáhrif, og ber þar helst að nefna mengun umhverfis, laxalús og erfðamengun. Hið síðastnefnda er til umræðu hér. Villtum laxastofnum hefur hnignað á síðustu öld, vegna áhrifa ofangreindra þátta og annarra. Töluvert hefur áunnist í að draga úr áhrifum sumra þessara þátta, en erfðamengun er mun erfiðari viðfangs.

Norskur eldislax er ræktaður stofn, með aðra erfðasamsetningu en villtur lax. Með kynbótum í fjölda kynslóða var valið fyrir eiginleikum sem gera hann heppilegan í eldi, t.d. stærð, kynþroska og vaxtarhraða. Á Íslandi hófust kynbætur á laxi á síðustu öld, en þeim var hætt þegar ljóst var að norski laxinn óx mun hraðar og betur. Allur eldislax hérlendis er norskur að uppruna.

Kynbætur breyta erfðasamsetningu tegunda. Ákveðin gen, sem eru fátíð í villtum laxi, jukust í tíðni við ræktun eldislaxins. Því er hann erfðafræðilega frábrugðinn villtum stofnum í Noregi og á Íslandi. Norskir erfðafræðingar skoðuðu í fyrra erfðabreytileika í 4.500 genum í villtum laxi og eldislaxi. Út frá þessum upplýsingum mátu þeir erfðamengun í villtum stofnum. Rannsóknin náði til rúmlega 20.000 fiska í 125 ám, frá Suður-Noregi til Finnmerkur. Þeir fundu ákveðnar erfðasamsætur sem einkenna eldislax og athuguðu hvort þær mætti finna í villtum laxastofnum og hversu algengar þær væru. Þannig var hægt að meta erfðablöndun í hverjum villtum stofni, á skalanum 0 til 100 prósent.

Niðurstöðurnar eru skýrar. Einungis þriðjungur stofnanna (44 af 125) var laus við erfðamengun. Annar þriðjungur stofnanna (41) bar væg merki erfðablöndunar, þ.e. innan við 4% erfðamengun, og þriðji parturinn (40) sýndi mikla erfðablöndun (þ.e. yfir 4%).

Sláandi er að 31 stofn var með 10% erfðamengun eða meiri. Flestir menguðustu stofnanir voru á vesturströndinni þar sem flestar fiskeldisstöðvar eru. Mikið mengaðir stofnar fundust einnig syðst og nyrst í Noregi. Vísindamennirnir reyndu ekki að meta áhrif erfðamengunar á lífvænleika stofnanna, en aðrar rannsóknir benda til þess að þau séu neikvæð. Ástæðan er sú að villtir stofnar sýna margháttaða aðlögun að umhverfi sínu, í tilfelli laxa bæði að ferskvatni og sjógöngu. Eldisdýr eru valin fyrir ákveðna eiginleika, og viðbúið að þau standi sig illa í villtri náttúru (hvernig spjara alisvín sig í Heiðmörk?). Eldislaxar hafa minni hæfni í straumvatni eða sjógöngu. Sama má segja um afkvæmi sem þeir eignast með villtum fiski.

Erfðamengun byggist á genaflæði á milli hópa. Genaflæði er eðlilegur hluti af stofnerfðafræði villtra tegunda, en þegar genaflæði er frá ræktuðu afbrigði í villta tegund er hætta á ferðum. Hættan er sérstaklega mikil þegar ræktaði stofninn er miklu stærri en sá villti. Það er einmitt tilfellið í Noregi. Þar er um 2.000 sinnum meira af laxi í eldisstöðvum en í villtum ám. Þótt ólíklegt sé að eldisfiskur sleppi, eru stöðvarnar það margar að strokufiskar eru hlutfallslega margir miðað við villta laxa. Meðalfjöldi strokulaxa sem veiddir eru í norskum ám er um 380.000 á ári. Ef stór hluti hrygnandi fisks í á er eldisfiskur, er hætt við að erfðafræðilegur styrkur staðbundna stofnsins minnki.

Er hætta á að genamengun frá norskum eldisfiski spilli íslenskum laxi? Því miður er hættan umtalsverð. Villtir íslenskir og norskir laxar eru ekki eins, því að a.m.k. 10.000 ár eru síðan sameiginlegur forfaðir þeirra nam straumvötn sem opnuðust að lokinni ísöldinni. Munurinn endurspeglar að einhverju leyti sögu stofnanna og ólíka aðlögun að norskum og íslenskum ám. Eldislaxinn er lagaður að norskum aðstæðum og eldi, og hætt er við að blendingar hans og íslenskra fiska hafi minni hæfni við íslenskar aðstæður.

Í ljósi víðtækra hugmynda um aukið laxeldi, t.d. á Vestfjörðum, er eðlilegt að kalla eftir varúð og vandaðri vísindalegri úttekt á hættunni á erfðablöndun, ekki bara á innfjörðum heldur einnig á Vestur- og Norðurlandi. Öruggasta eldið er í lokuðum kerfum, sem eru að ryðja sér til rúms erlendis, og mun auðvelda fiskeldisfyrirtækjum að fá vottun fyrir umhverfisvæna framleiðslu.

Hafa nútímalæknavísindi gert okkur ónæm fyrir lögmálum Darwins?

Arnar Pálsson, 04/01/2017

Svarað fyrir vísindavef Háskóla Íslands. Í heild hljóðaði spurningin til vísindavefsins svona:

Til að svara spurningunni þurfum við að kynna nokkrar staðreyndir. Sú fyrsta er náttúrulegt val sem er, ásamt hugmyndinni um þróunartré og stofna, lykilatriði í þróunarkenningu Darwins. Náttúrulegt val er afleiðing þess að:

i) einstaklingar í stofni eru ólíkir

ii) breytileikinn á milli þeirra er arfgengur (að hluta að minnsta kosti)

iii) einstaklingar eignast mismörg afkvæmi.

Af þessum ástæðum veljast vissar gerðir einstaklinga fram yfir aðrar, alveg náttúrulega. Og vegna þess að barátta er fyrir lífinu, ekki komast allir einstaklingar á legg eða eignast afkvæmi, mun náttúrulegt val leiða til aðlögunar lífvera.

Önnur staðreyndin er sú að náttúrulegt val er af tveimur megin gerðum. Jákvætt val stuðlar að betrumbótum á lífverum og aðlagar þær að breytilegu umhverfi. Á hinn bóginn fjarlægir hreinsandi val skaðlegar stökkbreytingar eða óhæfari gerðir. Fyrir þessa spurningu skiptir hreinsandi val meira máli.

Þriðja staðreyndin er sú að stökkbreytingar eru algengar í stofnum lífvera, líka mannsins. Stökkbreytingar falla í þrjá meginflokka með tilliti til áhrifa á hæfni einstaklinga. Fátíðastar eru breytingar sem betrumbæta lífverur (þær eru hráefni jákvæðs vals sem stuðlar að því að tíðni þeirra eykst í stofninum). Algengast er að stökkbreytingar sem finnast í stofnum séu hlutlausar, hafi engin áhrif á hæfni einstaklinga, til að mynda lífslíkur eða frjósemi. Þriðji flokkurinn eru breytingar sem draga úr hæfni, skerða lífslíkur eða frjósemi einstaklinga. Hreinsandi val virkar á þær á þann hátt að ef breytingin er mjög skaðleg þá getur hún ekki orðið algeng í stofninum. Skaðlegar stökkbreytingar geta dulist hreinsandi vali á tvo vegu, ef áhrif þeirra eru víkjandi eða ef áhrifin birtast bara við ákveðnar umhverfisaðstæður. Af þessum orsökum finnast í öllum stofnum margar fátíðar skaðlegar breytingar, svo kölluð erfðabyrði.

Við getum því umorðað spurninguna á eftirfarandi hátt:

Hafa læknavísindin dregið úr styrk hreinsandi náttúrlegs val vegna þess að í dag geta einstaklingar lifað og æxlast sem fyrir tveimur öldum eða hundrað þúsund árum hefðu ekki komist á legg?

Það er rétt að sumar stökkbreytingar sem áður drógu fólk til dauða eru ekki banvænar í dag. Með þekkingu okkar á eðli sjúkdóma breytum við umhverfi genanna. Það gerum við til dæmis með því að sneiða hjá útfjólubláum geislum ef við erum með galla í DNA viðgerðargenum eða forðast amínósýruna fenýlalanín í fæðu ef við erum með PKU-efnaskiptasjúkdóm. Í öðrum tilfellum, til dæmis ef um mikla líkamlega galla er að ræða, geta læknavísindin gert sumum kleift að lifa ágætu lífi og jafnvel eignast afkvæmi. Þetta á að minnsta kosti við á Vesturlöndum en gæðum læknavísinda er misdreift á jörðinni eftir landsvæðum og efnahag.

Dreyrasýki er arfgengur blæðingarsjúkdómur. Lífslíkur blæðara hafa breyst mikið með framförum í læknavísindum. Með því að veita sjúklingi viðeigandi meðferð frá unga aldri er hægt að draga verulega úr einkennunum þannig að lífsstíll verði nánast eðlilegur og ævilengd svipuð og hjá heilbrigðum.

Erfðafræðingar síðustu aldar höfðu áhuga á þessari spurningu og notuðu jöfnur stofnerfðafræði til að skoða samspil nokkurra stærða, stökkbreytitíðni, styrk hreinsandi vals og áhrif hendingar í stofnum. Stökkbreytitíðni í erfðamengi mannsins er um 12,8 × 10-9 á hvern basa í hverri kynslóð. Í hverri kynfrumu eru mismargar nýjar stökkbreytingar, fjöldinn er oftast á bilinu 20-100. Hægt er að meta stofnstærð mannsins frá stofnerfðafræðilegum gögnum, og síðan setja inn í jöfnur til að meta samspil þáttanna. Með jöfnur stofnerfðafræði að vopni er hægt að spyrja hvað gerist ef náttúrulegt val er aftengt. Árið 2010 reiknaði Michael Lynch út að áhrif uppsöfnunar skaðlegra breytinga væri 1-3% minni hæfni í hverri kynslóð. Hann bendir á að slík uppsöfnun sé ekki alvarleg þegar litið sé til næstu kynslóða en geti haft veruleg áhrif eftir nokkrar aldir.

Stefnir mannkynið þá hraðbyri að erfðafræðilegri endastöð? Ekki endilega og kemur þar fernt til.

Í fyrsta lagi er hreinsandi náttúrulegt val ennþá virkt meðal Vesturlandabúa. Það birtist meðal annars í umtalsverðri tíðni kímblaðra sem ekki þroskast eðlilega og fósturláta.

Í öðru lagi er hæfni arfgerða tengd umhverfi. Ef breytingar verða á umhverfi getur stökkbreyting sem var hlutlaus orðið skaðleg, og það sem var skaðlegt getur orðið hlutlaust. Ef læknavísindum fleytir fram og almenn hegðan og atlæti batnar, þá ættum við að geta mótað umhverfið þannig að það henti genum okkar betur. Umhverfi afkomenda okkar eftir 10 kynslóðir verður líklega annað (og vonandi betra) en það sem við búum við.

Í þriðja lagi bendir allt til að hreinsandi val fjarlægi margar skaðlegar breytingar í einu. Samkvæmt þessu hefur fóstur með margar skaðlegar stökkbreytingar mjög litla hæfni því að áhrif breytinganna magnast upp (með öðrum orðum, áhrifin leggjast ekki saman heldur margfaldast).

Í fjórða lagi er hægt að sjá fyrir sér aukið hlutverk fyrir erfðaskimanir á fóstrum eða foreldrum. Þetta væri í raun framhald af skimunum sem nú eru gerðar fyrir þrístæðu á litningi 21 sem veldur Downs-heilkenni og nokkrum erfðagöllum með sterk áhrif. Hér verðum við þó að stíga afar varlega til jarðar því svipaðar hugmyndir voru kveikjan að mannkynbótastefnunni (e. Eugenics) sem margar þjóðir á Vesturlöndum og í Ameríku aðhylltust og útfærðu hroðalega. Jafnvel mildari útgáfur á Norðurlöndum voru harkalegar, geldingar og hælisvistun undirmálsfólks, og það þarf vonandi ekki að rifja upp markvissa æxlun aría og örlög gyðinga og sígauna í útrýmingarbúðum í þriðja ríkinu.

Samantekt

  • Hreinsandi náttúrulegt val fjarlægir skaðlegar stökkbreytingar úr stofnum og viðheldur hæfni þeirra.
  • Ef hreinsandi val er aftengt, til dæmis með miklum framförum í læknavísindum, getur tíðni skaðlegra breytinga aukist og það dregið úr hæfni mannkyns.
  • En ólíklegt er þetta hafi mikil áhrif á mannkynið á næstu öldum.

Heimildir og myndir:

  • Lynch M. 2010. Rate, molecular spectrum, and consequences of human mutation. Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. 107:961-968.
  • Crow JF. 1997. The high spontaneous mutation rate: is it a health risk? Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. 94:8380–8386.
  • Unnur B. Karlsdóttir 1998. Mannkynbætur, hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20. öld. Háskólaútgáfan Reykjavík. 160. bls.
  • Mynd: 3 factors driving high hemophilia treatment costs - Optum.com. (Sótt 28. 11. 2016).

(English) The University of Iceland individual evaluation system

Arnar Pálsson, 09/11/2016

Sorry this part has not been translated

(English) Fungal and cyanobacterial gene expression in a lichen symbiosis: Acclimatization and adaptation to temperature and habitat

Arnar Pálsson, 29/08/2016

Sorry this part has not been translated