Category: Í hnotskurn

Um mig

Erla Hulda Halldórsdóttir, 13. ágúst 2020

Ég er prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, með kvenna- og kynjasögu sem sérsvið. Störf mín og rannsóknir um árabil hafa að mestu leyti snúist um sögu kvenna og kyngervis. Árið 2011 varði ég doktorsritgerð í sagnfræði og kom hún út sama ár, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903.

Niðurstöður rannsókna minna hafa birst í greinum og bókarköflum á Íslandi og erlendis, sjá nánar í lista yfir útgefið efni. Nokkrar greinar og kafla úr bókum má nálgast á academia.edu. Auk fræðilegs efnis hafa birst fáeinir pistlar um sögulegt efni á vefnum, sjá nánar hér.

Árið 2020 kom út bókin Konur sem kjósa. Aldarsagasem er skrifuð í tilefni af hundrað ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi 2015. Höfundar eru fjórir en auk mín eru það Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Þótt bókin sé sjálfstætt verkefni, útgáfan kostuð af Alþingi og gefin út af Sögufélagi, hvílir hún að verulegu leyti á rannsóknum okkar í verkefninu Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015 (sjá hér, bls. 10). Rannsóknin hlaut verkefnisstyrk frá Rannís árið 2017 og áður undirbúningsstyrk frá EDDU-öndvegisneti. Þáttakendur í rannsókninni auk mín hafa verið Ragnheiður Kristjánsdóttir prófessor í sagnfræði, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir sagn- og listfræðingur, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir kynja- og sagnfræðingur, Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og Ása Ester Sigurðardóttir sagnfræðingur. Á vegum verkefnisins hafa komið út greinar og kaflar í tímaritum og bókum.

Auk ofangreinds verkefnis hef ég unnið að því að ljúka bókinni Bréf til bróður míns, sem er rannsókn á ævi og bréfaskrifum Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871). Þar koma saman helstu áhugasvið mín og rannsóknaráherslur síðustu ára, þ.e. kynjasögulegt sjónarhorn, notkun persónulegra heimilda, (sagn)fræðilegar ævisögur og verðugleiki sögulegra viðfangsefna, einkum út frá sjónarhorni kyngervis.

Einnig er ég að skrifa grein um bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur á þriðja áratugi 19. aldar og vinn að því að gefa bréfin út á bók.