Guðmundur Hálfdanarson

Uppruni og fjölskylda

Ég er fæddur í Reykjavík 1. febrúar 1956 og ólst upp á Hvolsvelli, Vík í Mýrdal og Hellu á Rangárvöllum. Faðir minn var Hálfdan Guðmundsson, skattstjóri, og móðir Anna Margrét Jafetsdóttir, kennari og skólastjóri. Ég er kvæntur Þórunni Sigurðardóttur, rannsóknaprófessor við handritasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og eigum við einn son, Sigurð Jónas (f. 1979, d. 2016).

Menntun

Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974.
Hóf nám í fornleifafræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð haustið 1975 og lauk þremur stigum þar. Flutti mig síðan um set og hóf nám í sagnfræði við Háskóla Íslands í byrjun árs 1977 og lauk BA-prófi þaðan árið 1980 og cand. mag. prófi 1982.

Á árunum 1982-1990 stundaði ég nám við Cornell háskóla í Íþöku, Bandaríkjunum, og lauk MA-prófi árið 1985 og varði doktorsritgerð árið 1990. Aðalleiðbeinandi minn í doktorsnáminu var Steven L. Kaplan (sérfræðingur í franskri 18. aldarsögu), en aðrir leiðbeinendur voru John H. Weiss (evrópsk félagssaga 19. og 20. aldar), Clive Holmes (bresk 17. og 18. aldar saga) og Davydd Greenwood (félagsleg mannfræði).

Háskólakennsla og stjórnun

Á námsárunum í Bandaríkjunum kenndi ég sem aðstoðarkennari í nokkrum námskeiðum og sem stundakennari við Háskóla Íslands vormisserið 1987. Ég var ráðinn lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1991, fékk framgang í dósentsstarf árið 1993 og prófessorsstarf árið 2000. Árið 2012 var mér veitt prófessorsstarf í nafni Jóns Sigurðssonar til fimm ára. Í byrjun árs 2016 tók ég síðan við starfi forseta Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og gegndi því til ársloka 2020.

Við Háskóla Íslands hef ég kennt almenn yfirlitsnámskeið í Íslands- og heimssögu, málstofur í hugmynda- og félagssögu, og valnámskeið um sögu þjóðernisstefnu, íhaldssemi og frjálslyndi á Íslandi, sögu Frakklands, fyrri heimsstyrjöldina, o.s.frv.

Rannsóknir

Síðustu ár hafa rannsóknir mínar einkum snúist um sögu íslenskra og evrópskra þjóðernishugmynda á 19. og 20. öld, en ég hef einnig skrifað um íslenska fólksfjöldasögu, sögu sagnfræðinnar á Íslandi og doktorsritgerð mín var samanburðarrannsókn á myndun nútímaríkja í Frakklandi og Íslandi á síðari hluta 19. aldar.