Ritið 1: 2013

Browse: Home / 2013 / April / Ritið:1/2013 um minni og gleymsku

Ritið:1/2013 um minni og gleymsku

ritid12013Fyrsta hefti Ritsins á þessu ári er nú komið út og er þemað í þetta skipti „Minni og gleymska“. Heftið hefur að markmiði að varpa ljósi á hlutverk minnis og gleymsku á mismunandi sviðum. Orðræðan um minni og gleymsku er orðin gríðarlega mikilvæg. Eftir stríðsátök 20. aldarinnar, á tímum upplýsingatækninnar og fólksflutninga, þurfum við að muna. En það vekur líka spurningu um hvað við kærum okkur um að muna og af hverju og hverju við kjósum helst að gleyma. Hvað verður um minni þjóðar eftir stríð, áföll eða kreppu; hvers konar úrvinnsla á fortíðinni á sér stað eða á sér ekki stað? Hvert er samband þjóðar við fortíð sína: lærir hún af henni, eða vill hún sælu algleymis svo sagan geti endurtekið sig? Þessar spurningar sýna að rannsóknir á minni og gleymsku eiga brýnt erindi við okkur í dag.

Í heftinu eru að finna sjö þemagreinar og fjalla þær m.a. um menningarlegt minni, minnismenningu Íslendinga, félagslegt minni og hlutverk bókmennta í þjóðarminni. Marion Lerner fjallar um vörður og ferðatexta, Kristín Loftsdóttir skoðar viðtökur á endurútgáfu Negrastrákanna og Jón Karl Helgason skrifar um varðveislu minninga þjóðskálda. Irma Erlingsdóttir ræðir hið svokallaða blóðhneyksli í Frakklandi og Róbert H. Haraldsson fjallar um falskar eða tilbúnar minningar, Úlfar Bragason og Sverrir Jakobsson fjalla í sínum greinum um söguvitund og samspil minninga og sagnaritunar á miðöldum. Auk þeirra eru kafli um minnisvarða og helfararminni á fjölmiðlaöld eftir Andreas Huyssen í þýðingu Gunnþórunnar Guðmundsdóttur og myndaþáttur um minnismerki á Íslandi eftir Ketil Kristinsson. Loks spyr Eyja Margrét Brynjarsdóttir hvort heimspeki sé kvenfjandsamleg í grein sem fellur utan þema.

Gestaritstjórar eru Daisy Neijmann og Gunnþórunn Guðmundsdóttir