Rannsóknir

Rannsóknir mínar eru einkum á sviði sögulegra málvísinda. Viðfangsefnin eru flest úr íslenskri málsögu en ég hef einnig fengist nokkuð við germanska samanburðarmálfræði.

Meðal þeirra verkefna sem ég vinn að um þessar mundir eru:

Breytileiki í íslensku máli á fjórtándu öld

Markmið þessarar rannsóknar, sem hófst 2006, er að öðlast betri þekkingu á breytileika í íslensku máli á fjórtándu öld en áður hefur verið fyrir hendi. Allnokkur þekking hefur skapast á bókagerð á fjórtándu öld í rannsóknum fræðimanna á undanförnum áratugum. Vísbendingar hafa fundist um ritunarstað allmargra handrita og einnig handritahópa þar sem fleiri en einn skrifari hafa unnið saman að bókagerð. Ætlunin er að bera saman kerfisbundið málfar á þremur vel þekktum handritahópum sem tengdir hafa verið klaustrunum á Helgafelli, Þingeyrum og Möðruvöllum í Hörgárdal. Þarna hafa verið að verki að minnsta kosti sjö skrifarar sem ætlað er að hafi starfað um miðbik fjórtándu aldar. Búast má við að samanburður á málfari ólíkra skrifara, sem störfuðu á sama tíma á ólíkum stöðum á landinu, muni bæta þekkingu okkar á framrás fjölmargra málbreytinga, bæði þeirra málbreytinga sem síðar hörfuðu og þeirra sem náðu fullnaðarútbreiðslu eða því sem næst og eru hluti af íslensku nútímamáli. Rannsókn á breytileika í máli er því dýrmætt framlag til rannsókna á íslenskri málsögu og mun hún auk þess hafa mikið hagnýtt gildi við frekari rannsóknir á þeim fjórtándu aldar handritum sem ekki hafa verið aldursgreind til hlítar eða staðsett. Þetta verkefni hefur hlotið styrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS).

Rafræn útgáfa Konungsbókar eddukvæða

Konungsbók eddukvæða, GKS 2365 4to, er aðalhandrit eddukvæðanna, talið ritað nálægt 1270. Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er nú unnið að nýrri fræðilegri útgáfu á texta þessa mikilvæga handrits. Í hinni nýju útgáfu, sem verður að hluta til rafræn (aðgengileg á vef), verða litmyndir af hverri síðu handritsins og nákvæm útgáfa textans, ásamt rækilegri greinargerð fyrir sögu handritsins, gerð þess og skrift. Jafnframt verður lemmaður orðstöðulykill yfir allan texta handritsins. Verkefnið er styrkt af Rannsóknamiðstöð Íslands og er Vésteinn Ólason verkefnisstjóri. Mín vinna að þessu verkefni lýtur einkum að gerð orðstöðulykilsins.

Sjá einnig ritaskrá.