Íslenskar mállýskur á fyrri öldum

Haraldur Bernharðsson, 2. júní 2011

Flutti hinn 12. apríl erindið „Íslenskar mállýskur á fyrri öldum“ í Málstofunni á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Í erindinu fjallaði ég um nokkrar málbreytingar og mállýskur í sögu íslenskrar tungu. Fjölmargar málbreytingar hafa átt sér stað í íslensku frá því að land byggðist. Þessar málbreytingar hafa ekki gengið yfir landið allt í einni svipan heldur hefur útbreiðsla þeirra í sumum tilvikum tekið margar aldir. Því hefur óhjákvæmilega fylgt mállýskumunur. Hlýða má á erindið á vef Málstofunnar.

Doktorsritgerð um Morkinskinnu, GKS 1009 fol.

Haraldur Bernharðsson, 2. júní 2011

Föstudaginn 4. mars var ég andmælandi við doktorsvörn Alex Speed Kjeldsens við Kaupmannahafnarháskóla ásamt Oddi Einari Haugen frá Björgvinjarháskóla og Bent Jørgensen frá Kaupmannahafnarháskóla. Ritgerðin ber titilinn „Et mørt håndskrift og dets skrivere. Filologiske studier i kongesagahåndskriftet Morkinskinna“ og fjallar um íslenskt skinnhandrit frá síðari hluta 13. aldar sem á síðari tímum hefur verið nefnt Morkinskinna en ber safnmarkið GKS 1009 fol. Ritgerðin er glæsilegt framlag til rannsókna á íslenskri skriftar- og málsögu.

Málbreytingar og heimildir um íslenskt mál til forna

Haraldur Bernharðsson, 2. júní 2011

Flutti hinn 8. febrúar erindið „Málbreytingar og heimildir um íslenskt mál til forna“ í Málstofunni á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Þar ræddi ég um heimildir við rannsóknir á máli genginna kynslóða og málbreytingar sem skjóta upp kollinum í íslenskum handritum frá fjórtándu öld. Hlýða má á erindið á vef Málstofunnar.

Vika í Björgvin

Haraldur Bernharðsson, 2. júní 2011

Dvaldist í Björgvin 23. janúar til 1. febrúar í boði Senter for middelalderstudier við Björgvinjarháskóla og flutti þar fyrirlestur um breytileika í íslensku máli á fjórtándu öld. Kærar þakkir til Elsu Mundal og Sverre Bagge fyrir boðið. Ég notaði einnig tækifærið og fundaði með Oddi Einari Haugen og fleira góðu fólki úr MENOTEC-verkefninu (Medieval Norwegian Text Corpus).