Rannsóknir

Málvísindi spanna gríðarlega stórt svið en mitt helsta áhugasvið hefur alltaf verið setningafræði, þar á meðal tengsl setningafræði og merkingarfræði. Meðal viðfangsefna innan setningafræðinnar sem ég hef fengist við má nefna fallmörkun (bæði frumlaga og andlaga), stílfærslu, tilvistarsetningar, upphrópunarsetningar, andlagsstökk, tvöföldun forsetninga, nýju þolmyndina, nefnifallsandlög og margt fleira.

Mínar rannsóknir ná ekki aðeins yfir íslenskt nútímamál heldur einnig forníslensku, færeysku og íslenskt táknmál. Á allra síðustu árum hef ég líka fengist við ýmis viðfangsefni sem tengja saman málvísindi og bókmenntir og ég ætla að halda því áfram á næstu árum eins og kostur er.

Í ársbyrjun 2019 fengum ég og Cherlon Ussery, dósent við Carleton College, þriggja ára styrk frá Rannís til að stýra alþjóðlegu verkefni um tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku (sjá https://tvoandlog.hi.is/). Verkefninu lýkur því formlega í árslok 2021 en vinna við það mun þó halda áfram a.m.k. eitt ár í viðbót.