Af Skagaströnd

Karl Benediktsson, október 17, 2011

Í síðustu viku fórum við Guðrún Gísladóttir, kollegi minn, ásamt fríðum flokki stúdenta í landfræði og ferðamálafræði í fimm daga námsferð. Slík ferð er farin ár hvert með nemendur sem eru komnir á þriðja ár í grunnnámi og var hópurinn óvenju stór að þessu sinni, eða 58 manns. Stúdentarnir afla gagna fyrir margvísleg verkefni, sem þeir velja sjálfir með tilliti til áhuga síns innan þess fags sem þeir eru að læra. Að þessu sinni var Austur-Húnavatnssýsla könnuð frá mörgum hliðum. Svo dæmi séu tekin spönnuðu verkefni landfræðinema allt frá gróðurfari á Skaga til umhverfisstjórnunar í fyrirtækjum á svæðinu, og verkefni ferðamálafræðinema fjölluðu um allt frá möguleikum til fuglaskoðunar á Norðurlandi vestra til ímyndar þéttbýlisstaðanna Skagastrandar og Blönduóss.

Við höfðum einmitt bækistöð á Skagaströnd. Og ég held ég verði að ljóstra því upp að ímynd þess ágæta staðar var frekar óljós í mínum huga fyrir ferðina. Jú, ég mundi eftir staðnum frá upphafi frystitogaravæðingarinnar, og svo tengdi maður Skagaströnd auðvitað við Hallbjörn Hjartarson og kántrýtónlist, eins og sennilega flestir landsmenn.

En ímyndin breyttist. Á Skagaströnd fundum við mjög áhugavert og að mörgu leyti framsækið lítið pláss, þar sem fólk hefur fitjað upp á ótrúlega frjóum og frumlegum hlutum til að treysta tilveru sína. Sjávarlíftæknisetrið BioPol er eitt af þessu. Ekki síður frumlegt er listamiðstöðin Nes, þar sem listamenn úr öllum heimshornum dvelja og vinna að list sinni. Við lögðum einmitt ítalska listamanninum Dario Lazzaretto lið í hljóðlistaverki sem hann er að gera um Ísland sem land hins stöðuga neyðarástands... Og í þessu 500 manna þorpi hefur líka Háskóli Íslands sett upp eitt af rannsóknasetrum sínum, sem starfar raunar á öllu Norðurlandi vestra. Setrið sinnir einkum rannsóknum í sagnfræði og öðrum hugvísindum. Afar áhugaverður staður þegar öllu er á botninn hvolft, Skagaströnd.