Hjólað á vegum Vegagerðarinnar

Karl Benediktsson, nóvember 7, 2011

Á föstudaginn  var ég ásamt Davíð Arnari Stefánssyni, meistaranema og hjólabloggara, með erindi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar. Við sögðum frá verkefni okkar um gæði hjólaleiða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var eina erindið um hjólreiðar á ráðstefnunni, sem er til vitnis um þá staðreynd að hjólreiðar hafa ekki verið teknar sérlega alvarlega sem samgöngumáti hérlendis fram til þessa. Og sannarlega ekki utan borgarmarkanna. Maður finnur næstum til með því hjólreiðafólki sem hættir sér út á mjóa þjóðvegi landsins á sumrin. Engar hjólabrautir þar, ekki einu sinni malbikaðar axlir til að hjóla eftir. Hins vegar verður æ algengara að reiðvegir séu lagðir meðfram þjóðvegum. Endurspeglar þetta mismun á slagkrafti þessara tveggja hagsmunahópa – hestamanna og hjólreiðafólks – eða er skorturinn á innviðum fyrir hjólreiðar bara afleiðing af viðhorfum veghönnuða?