National Purist Routes

Karl Benediktsson, mars 5, 2012

Á síðasta ári tóku hús á mér tveir arkitektanemar frá Noregi, þau Mathias Kempton og Gislunn Halfdanardottir. Þau voru að undirbúa lokaverkefni sitt í meistaranámi við Arkitekta- og hönnunarskólann í Osló, sem snerist um landslag, ferðamennsku og orkumál á Íslandi, ekki síst í ljósi (eða skugga) deilnanna um Kárahnjúkavirkjun. Við áttum gott spjall og mér fundust pælingar þeirra mjög athyglisverðar. Og nú er verkefnið þeirra komið út: National Purist Routes: Industrial Expansion and Moving Icelandic Landscapes. Þar setja þau meðal annars fram hugmyndir um framsæknari og fjölbreyttari nýtingu íslenskrar orku en birtist í Kárahnjúkaverkefninu. Orkueyðibýli, kræklingar í netsambandi, upphitaðir sólbaðsvellir á Þeistareykjum og endurreist Eden („drive-in Paradise“) í Hveragerði eru meðal þeirra hugmynda sem þau viðra. Þau setja meðal annars spurningar við hugmyndafræði nýlokinnar Rammaáætlunar um vernd of nýtingu náttúrusvæða og vilja meina að það sé ekki sérlega snjallt að hugsa um heiminn í niðurnjörvuðum hugtökum eins og „manngert“ og „náttúrlegt“. Virkilega flott og ögrandi verkefni.