Samfélagslegar hliðar fiskveiðistjórnunar
Einu sinni enn er sjávarútvegurinn í brennidepli hinnar pólitísku umræðu í landinu. Og enn eina ferðina er oft meiri hávaði en upplýsing í umræðunni. Fyrir nokkrum dögum sendi hópur félagsvísindafólks - þar á meðal ég sjálfur - bréf til forsætisráðherra, með áskorun um að gerð verði vönduð fræðileg heildarúttekt á samfélagslegum hliðum fiskveiðistjórnunar. Okkur finnst að þessum mikilvæga þætti hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Umræðan um fiskveiðistjórnun fer fram á þröngum forsendum hagfræði og lagatæknilegra sjónarmiða. Þetta er því óheppilegra sem hinar samfélagslegu spurningar eru alltaf í bakgrunni þegar þessi mál eru rædd. Mikið er rifist en litlar rannsóknir liggja að baki. Hvaða áhrif hefur kvótakerfið t.d. í raun haft á byggðaþróun? Þetta er mikilvæg landfræðileg spurning, sem þó hefur ekki verið svarað til hlítar með rannsóknum. Né hafa þær félagsvísindalegu rannsóknir á sjávarútvegi, sem þó hafa verið gerðar, fundið sér leið inn í umræðuna. Þessu viljum við breyta.