ISS – skiptir ræstingafólk nokkru máli?
Nú um síðustu áramót var skipt um fólk í ræstingateyminu hér í Öskju. Þetta hefur gerst með vissu millibili á undanförnum árum. Maður heyrir ótrúlega fjölbreytt tungumál töluð af ræstingafólkinu, sem án undantekninga hefur reynst ljúft fólk og skemmtilegt þegar maður fer að þekkja það aðeins. Fyrst voru ‚innfæddir‘ Íslendingar í þessum störfum, ásamt fólki frá Víetnam sem sest hafði að hér á landi til frambúðar. Svo kom pólskt teymi til starfa. Síðan tók við starfsfólk frá Litháen. Ég hef ekki enn fundið út hvert upprunaland þeirra er sem tilheyra núverandi ræstingateymi. En það er brosmilt og þægilegt í umgengni eins og fyrirrennarar þeirra.
Þetta er auðvitað ein birtingarmynd hnattvæðingarinnar margumræddu. Frjálst flæði vinnuafls um heiminn og allt það. En það er eitthvað í þessu sem nagar mig ofurlítið. Áður var ræstingafólkið ráðið til stofnunarinnar sjálfrar. Síðan var þessu verkefni útvistað í nafni hagræðingar og sparnaðar. Og við vitum ekki hvað verktakarnir eru að hugsa. Getur það verið að fólki sé einfaldlega sagt upp reglulega, áður en það fer að gera of miklar kröfur um kjör sín, til þess að geta sett til verka nýja og meðfærilega starfsmenn? Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað það hefur í laun – vil nú helst trúa því að kjarasamningum sé fylgt, en kæmi þá svo sem ekki á óvart að taxtinn væri allsber lágmarkstaxti. Og lágmarkslaun á Íslandi standa undir nafni – þau eru í algeru lágmarki.
Hugtakið „samfélagsleg ábyrgð“ er nokkuð sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir skreyta sig með. Held meira að segja að ég hafi heyrt stjórnendur Háskóla Íslands taka sér þau í munn. Skyldi þessi breyting á tilhögun ræstinga á sínum tíma hafa verið liður í að auka samfélagslega ábyrgð háskólans? Ég veit það ekki.