Spuni í heilbrigðisvísindum

Þórarinn Sveinsson, 29. september, 2021

Undanfarið hafa birst þónokkuð af vísindagreinum innan heilbrigðisvísinda sem skoða kerfisbundnar samantektargreinar með tilliti til spuna (e.spin) í útdráttum. Spuni er það, þegar höfundar setja fram fullyrðingar eða ályktanir sem ekki eru að öllu leyti studdar af framsettum eða tilvísuðum gögnum. Ýmsar gerðir af spuna hafa verið skilgreindar eða alls 39 gerðir og þar af 21 sem koma fyrir í útdráttum (Yavchitz o.fl., 2016). Þessar mismunandi gerðir má flokka í þrjá megin flokka: 1) afvegaleiðandi framsetning; 2) afvegaleiðandi túlkun; og 3) óviðeigandi framreikningur. Með öðrum orðum má segja að um sé að ræða, meðvitaðar eða ómeðvitaðar, rangfærslur, sem geta leitt af sér rangtúlkun á rannsóknaniðurstöðum eða að lesendur séu á einhvern hátt afvegaleiddir með villandi framsetningu. Taka skal fram að spuni getur verið mis alvarlegur. Hann getur verið allt frá því að vera tiltölulega meinlaus upp í að flokkast sem nánast fölsun á niðurstöðum. Niðurstöður þessara greina, samantekta á samantektar greinum, eru misjafnar eftir því hvaða efni er verið að skoða. Þær eru allt frá því að spuni sé tiltölulega fátíður, eða í um eða undir 10% samtektargreina (Faulkner o.fl., 2021; Ottwell o.fl., 2021), upp í að finnast í 80% af greinum (Nascimento o.fl., 2020). Leikmenn, fjölmiðlar og sérstaklega klínískir starfsmenn, nýta sér kerfisbundnar samantektir og lesa gjarnan eingöngu útdrætti, gagnrýnislaust. Því verður það að teljast í besta falli mjög varhugavert, þegar tíðnin á spuna er orðin þetta há. Mikilvægt er því að sporna við þessu og gera þá kröfu til höfunda samantektagreina að vanda orðræðuna sem þeir nota í vísindaskrifum. Reyndar má telja líklegt að spuni sé ekki minna algengur í rannsóknargreinum (Chellamuthu, Muthu, Damodaran og Rangabashyam, 2021) og því eigi þetta líka við um alla þá er koma að vísindalegum skrifum. Þetta undirstrikar ekki síður mikilvægi þess að vera mjög gagnrýnin á allar vísindagreinar og fréttir af rannsóknarniðurstöðum.

 

Chellamuthu, G., Muthu, S., Damodaran, U. K. og Rangabashyam, R. (2021). "Only 50% of randomized trials have high level of confidence in arthroscopy and sports medicine"-a spin-based assessment. Knee Surgery Sports Traumatology Arthroscopy, 29(9), 2789-2798. doi:10.1007/s00167-021-06614-8

Faulkner, J. J., Polson, C., Dodd, A. H., Ottwell, R., Arthur, W., Neff, J., . . . Vassar, M. (2021). Evaluation of spin in the abstracts of systematic reviews and meta-analyses focused on the treatment of obesity. Obesity, 29(8), 1285-1293. doi:10.1002/oby.23192

Nascimento, D. P., Gonzalez, G. Z., Araujo, A. C., Moseley, A. M., Maher, C. G. og Costa, L. O. P. (2020). Eight in Every 10 Abstracts of Low Back Pain Systematic Reviews Presented Spin and Inconsistencies With the Full Text: An Analysis of 66 Systematic Reviews. Journal of Orthopaedic & Sports Physical Therapy, 50(1), 17-+. doi:10.2519/jospt.2020.8962

Ottwell, R., Esmond, L., Rea, W., Hartwell, M., Som, M., Harris, R., . . . Vassar, M. (2021). Spin infrequently occurs in abstracts of systematic reviews for the pharmacological treatment of type 2 diabetes mellitus. Diabetic Medicine, 38(10), 8. doi:10.1111/dme.14653

Yavchitz, A., Ravaud, P., Altman, D. G., Moher, D., Hrobjartsson, A., Lasserson, T. og Boutron, I. (2016). A new classification of spin in systematic reviews and meta-analyses was developed and ranked according to the severity. Journal of Clinical Epidemiology, 75, 56-65. doi:10.1016/j.jclinepi.2016.01.020