Sókn, vörn eða samræða — á 21. öldinni

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það eru til ýmis konar kirkjur, til dæmis ríkiskirkjur, þjóðkirkjur og fríkirkjur. Þá er einkum litið til stjórnskipunar. Það eru líka til meirihlutakirkjur og minnihlutakirkjur. Þá er litið til hlutfallslegrar stærðar þeirra. Svo er mögulegt að „flokka“ kirkjur út frá starfsháttum. Þá má tala um „sóknarkirkjur“, „varnarkirkjur“ og „samræðukirkjur“.

„Sóknar-“ og „varnarkirkjurnar“ skynja sig ekki sem hluta af samfélaginu. Þær líta svo á að að þær eigi við andstæðinga að etja og spila ýmist sóknar- eða varnarleik.

„Sóknarkirkjurnar“ sækja fram með sístæðan boðskap sinn, fagnaðarerindið um Krist, oft í yddaðri eða skerptri mynd. „Varnarkirkjurnar“ hopa aftur á móti undan gagnrýni eða aukinni samkeppni, finna sig ofsóttar eða á sig hallað. Kirkjusagan vitnar um sókn og vörn í 2000 ár.
Sókn og vörn kunna að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvitund kirkna þó með mismunandi móti sé. Leikfléttan segir nefnilega meira um kirkjurnar sjálfar og túlkun þeirra á stöðu sinni en raunverulegt umhverfi þeirra. Kristin kirkja hefur á liðnum öldum oft liðið vegna ofsókna en eigi að síður spilað sterkan sóknarleik. Hin líðandi kirkja er raunar ávallt sigrandi kirkja. Það er vegna þess að hún líður ekki ein. Hún líður með stofnanda sínum. Svo hafa líka stórar og sterkar kirkjur hrokkið í vörn af litlu tilefni. Það endar oftast illa. Meirihlutakirkjur eiga erfitt með að bregða sér í hlutverk píslarvotts.

Öldin okkar, 21. öldin verður öld fjölhyggjunnar. Nú verðum við að læra að lifa saman í sátt og samlyndi hvaðan sem við komum, hvert sem við stefnum, hvað sem okkur finnst eða hverju við trúum. Á því veltur velferð okkar og barna okkar í framtíðinni. Ella mun fjölhyggjan steypa okkur í glötun. Þessvegna er mikil þörf fyrir „samræðukirkjur“.

„Samræðukirkjur“ líta ekki svo á að þær séu á keppnisvelli heldur á torginu í þorpinu miðju — heimsþorpinu. Áður fyrr komu „öldungarnir“ eða hinir frjálsu karlar saman á torginu, réðu þar ráðum sínum og ráðskuðust með aðra. Nú verður torgið að vera vettvangur allra, kvenna og karla, ungra og gamalla, hinseigin og svona. Þar talar hver fyrir sig. “Samræðukirkjurnar“ setjast í hringinn til þess að taka þátt í samræðum.

Í þessu felst ekki undansláttur eða aðlögun að tíðaranda. Á torgi tekur enginn eftir rödd þess sem ekki finnst neitt, hefur enga skoðun eða trúir engu. Á torgi verður hver og einn að hafa skýran málstað og standa með honum. Á torgi þarf að hlusta, hugsa og tala frá hjartanu. Þetta reyna „samræðukirkjurnar“ að gera en vænta þess um leið að aðrir geri slíkt hið sama.