Category: Kosning til stjórnlagaþings

Arnfríði Guðmundsdóttur #8023 á stjórnlagaþing

Árni Daníelsson, 24. November 2010

Á YouTube er nú komið stutt kynningarmyndband. Þið megið gjarnan deila því sem víðast:

Virðing eða umburðarlyndi?

Árni Daníelsson, 23. November 2010

eftir Hjalta Hugason 7132 og Arnfríði Guðmundsdóttir 8023

Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Margt sem áður þótti sjálfsagt er það ekki nú. Við getum ekki lengur gefið okkur að allir Íslendingar séu norrænir í útliti, eða mótaðir frá barnæsku af vestrænum hugsunarhætti og kristnum gildum. Fjölbreytileikinn er smátt og smátt að taka við af einsleitninni og spurningin er áleitin: Hvernig ætlar íslenskt samfélag að bregðast við?

Margt bendir því miður til þess að við sem samfélag höfum ekki staðið okkur sem skyldi við að aðlagast breyttum aðstæðum. Alltof oft heyrum við af því að þeim sem skera sig úr á einhvern hátt sé sýndur hroki og yfirlæti, ekki síst ef þau hafa ekki náð fullum tökum á íslenskri tungu. Þau sem hafa búið í öðru landi lengur eða skemur þekkja af eigin raun hve erfitt það getur verið að þurfa að tjá sig á öðru máli en móðurmálinu. Undir ákveðnum kringumstæðum getur það reynst flókið þegar umræðuefnið krefst orðaforða sem er viðkomandi framandi. Almennt er innfæddum Íslendingum sem ekki tala sérstaklega „góða íslensku“ sýndur mun meiri skilningur en þeim sem tala með hreim. Við þurfum að taka á þessum vanda og þeim fordómum sem koma fram í viðhorfum til þeirra sem eru hluti af samfélagi okkar en eiga íslensku ekki að móðurmáli.

Til þess eru vítin að varast þau. Margir benda á reynslu nágrannaþjóða okkar af breyttri samfélagsgerð sem innflutningur fólks af öðru þjóðerni hefur haft í för með sér. Vissulega hefur ekki allsstaðar gengið vel að byggja gott og öruggt fjölmenningarsamfélag. Af þeirri reynslu verðum við að læra. En við getum líka lært af reynslu okkar sjálfra við að glíma við fordóma gagnvart þeim sem skera sig úr fjöldanum. Á síðustu árum hefur vissulega ýmislegt breyst til batnaðar á meðal okkar. Afstaða samfélagins til samkynhneigðra hefur til dæmis breyst mikið á skömmum tíma. Í framhaldinu hafa aðstæður samkynhneigðra einstaklinga batnað mikið. Við getum lært margt af þessari reynslu okkar. Það er vissulega hægt að taka á fordómum, ef vilji er til.

Fjölmenningarsamfélag er ekki valmöguleiki sem við stöndum frammi fyrir. Það er þvert á móti verkefni sem okkur ber að leysa. Fjölmenningarsamfélag verður að byggja á virðingu fyrir þeim sem skera sig úr. Umburðarlyndi nægir ekki. Það er ekki nóg að við umberum þau sem falla ekki undir staðalmynd hins íslenska borgara. Við verðum að virða þau sem jafningja og læra að meta það sem þau vilja og geta lagt til samfélags okkar. Virðing en ekki umburðarlyndi er lykillinn að góðu og öruggu samfélagi þar sem margbreytileiki nýtur sín og auðgar samfélagið.

Þetta þarf að vera leiðarljós við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir íslenskt fjölmenningarsamfélag.

Auðlindirnar og stjórnarskráin

Árni Daníelsson, 23. November 2010

eftir Hjalta Hugason 7132 og Arnfríði Guðmundsdóttir 8023

Það er margt sem gerir fólk að þjóð umfram sameiginlega stjórnarskrá, lög og réttarreglur. Okkur Íslendingum er tamt að benda á sameiginlega tungu og sögu. Margir bæta við sameiginlegri trú. Á 21. öld má reikna með að svörin breytist. Stöðugt fleiri bætast í okkar raðir sem eiga annað móðurmál, aðra sögu og aðra trú. Við verðum að búa okkur undir að hér verði fjölmenningarlegt samfélag á borð við það sem gerist í grannlöndum okkar. Ef okkur auðnast að taka vel á móti þeim sem hingað kjósa að flytjast mun fjölbreytileikinn auðga samfélag okkar. Fjölmenning er því ögrun en ekki ógn.

Eitt munum við þó alltaf eiga sameiginlegt sem hér búum. Það er landið með auðlindum þess til lands og sjávar. Landið er ekki eign sem við megum ráðskast með út frá eigin skammtímahagsmunum, eftir því hvernig árar hverju sinni. Okkur er skylt að líta á landið sem ættarauð sem við höfum tekið í arf frá gengnum kynslóðum og ber að skila til óalinna í betra ástandi en við tókum við því. Þess vegna ber okkur að standa vörð um náttúru landsins, sporna við uppblæstri og draga úr útblæstri. Umhverfispólitík er þegar orðið málefni 21. aldarinnar og verður það í ríkari mæli eftir því sem árin líða. Hún snertir bæði líf okkar og framtíð í landinu og í heiminum.

Ísland er þó ríkt af auðlindum sem okkur ber að nýta til að leggja grunn að „gróandi þjóðlífi“. Þetta verðum við að gera með langtímasjónarmið í huga og umfram allt að gera heildstæðar rammaáætlanir um auðlindanýtinguna til langs tíma. Þar verður í ríkum mæli að ganga út frá sjálfbærni. Sjálfbærni er ekki slagorð heldur lykill að framtíðinni. Samkvæmt Brundtlandsskýrslunni frá 1987 (bls. 54) er sjálfbærni: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“

Þegar þessa hefur verið gætt verður að taka næsta skref. Það felst í því að ákveða hvernig auðlindirnar verða nýttar í þágu þjóðarinnar sjálfrar og þjóðarinnar allrar. Eignarhald á þeim verður að vera í höndum þjóðarinnar á óyggjandi hátt. Ekki ætti að vera heimilt að framselja nýtingu þeirra í annarra hendur lengur en nemur einni kynslóð og þá gegn raunhæfu gjaldi og búa verður svo um hnúta að meirihluti arðs haldist í landinu, t.d. í formi mannvirkja. Þá ætti að nýta auðlindirnar þannig að sem flest framtíðarstörf verði hér innanlands. Í stjórnarskrá verður að setja ramma sem tryggja auðlinfanýtingu af þessu tagi.

Þegar hugsað er til framtíðar þarf að hugsa opið og hugsa stórt. Því skiptir miklu að litið sé á náttúrugæði í víðasta skilningi sem auðlindir. í dag vitum við ekki hvað telst auðlind á morgun. Það höfum við best séð á því endurmati sem nú örlar sem betur fer á hvað ósnortin víðerni landsins snertir.

Sókn, vörn eða samræða — á 21. öldinni

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það eru til ýmis konar kirkjur, til dæmis ríkiskirkjur, þjóðkirkjur og fríkirkjur. Þá er einkum litið til stjórnskipunar. Það eru líka til meirihlutakirkjur og minnihlutakirkjur. Þá er litið til hlutfallslegrar stærðar þeirra. Svo er mögulegt að „flokka“ kirkjur út frá starfsháttum. Þá má tala um „sóknarkirkjur“, „varnarkirkjur“ og „samræðukirkjur“.

„Sóknar-“ og „varnarkirkjurnar“ skynja sig ekki sem hluta af samfélaginu. Þær líta svo á að að þær eigi við andstæðinga að etja og spila ýmist sóknar- eða varnarleik.

„Sóknarkirkjurnar“ sækja fram með sístæðan boðskap sinn, fagnaðarerindið um Krist, oft í yddaðri eða skerptri mynd. „Varnarkirkjurnar“ hopa aftur á móti undan gagnrýni eða aukinni samkeppni, finna sig ofsóttar eða á sig hallað. Kirkjusagan vitnar um sókn og vörn í 2000 ár.
Sókn og vörn kunna að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvitund kirkna þó með mismunandi móti sé. Leikfléttan segir nefnilega meira um kirkjurnar sjálfar og túlkun þeirra á stöðu sinni en raunverulegt umhverfi þeirra. Kristin kirkja hefur á liðnum öldum oft liðið vegna ofsókna en eigi að síður spilað sterkan sóknarleik. Hin líðandi kirkja er raunar ávallt sigrandi kirkja. Það er vegna þess að hún líður ekki ein. Hún líður með stofnanda sínum. Svo hafa líka stórar og sterkar kirkjur hrokkið í vörn af litlu tilefni. Það endar oftast illa. Meirihlutakirkjur eiga erfitt með að bregða sér í hlutverk píslarvotts.

Öldin okkar, 21. öldin verður öld fjölhyggjunnar. Nú verðum við að læra að lifa saman í sátt og samlyndi hvaðan sem við komum, hvert sem við stefnum, hvað sem okkur finnst eða hverju við trúum. Á því veltur velferð okkar og barna okkar í framtíðinni. Ella mun fjölhyggjan steypa okkur í glötun. Þessvegna er mikil þörf fyrir „samræðukirkjur“.

„Samræðukirkjur“ líta ekki svo á að þær séu á keppnisvelli heldur á torginu í þorpinu miðju — heimsþorpinu. Áður fyrr komu „öldungarnir“ eða hinir frjálsu karlar saman á torginu, réðu þar ráðum sínum og ráðskuðust með aðra. Nú verður torgið að vera vettvangur allra, kvenna og karla, ungra og gamalla, hinseigin og svona. Þar talar hver fyrir sig. “Samræðukirkjurnar“ setjast í hringinn til þess að taka þátt í samræðum.

Í þessu felst ekki undansláttur eða aðlögun að tíðaranda. Á torgi tekur enginn eftir rödd þess sem ekki finnst neitt, hefur enga skoðun eða trúir engu. Á torgi verður hver og einn að hafa skýran málstað og standa með honum. Á torgi þarf að hlusta, hugsa og tala frá hjartanu. Þetta reyna „samræðukirkjurnar“ að gera en vænta þess um leið að aðrir geri slíkt hið sama.

Jafnréttið og stjórnarskráin

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það er margt sem við tökum sem sjálfgefnu i samfélagi okkar. Þó að við tökum það sem sjálfgefnu í dag að konur hafi kosningarétt til Alþingis, hafa þær aðeins notið hans í tæpa öld. Við lítum einnig á það sem sjálfsagðan hlut að allir hafi aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum og svo mætti lengi telja. Það gleymist stundum að það eru ekki nema rétt 100 ár síðan lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta voru samþykkt á Alþingi. Þangað til gátu konur t.d. lært til læknis eða prests en höfðu samt ekki rétt til að gegna þessum opinberu embættum. Continue reading 'Jafnréttið og stjórnarskráin'»

Ábyrgð og aðhald

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það er misjafnt frá einu landi til annars hvernig stjórnmálamenn axla pólitíska ábyrgð. Víða er það svo að vakni grunur um að pólitíkus hafi á einhvern hátt misfarið með vald sitt, misnotað aðtöðu sína eða á annan hátt misstigið sig í hlutverki sínu verður hann eða hún að hugleiða stöðu sína og oftar en ekki fara frá, segja af sér. Þetta er stundum nefnt heiðursmannaafsögn. — Slík afsögn er oftast ekki endalok á stjórnmálaferli heldur þvert á móti nýtt upphaf. Sá eða sú sem axlar ábyrgð getur snúið aftur með endurnýjað traust, jafnvel orðið leiðtogi.
Continue reading 'Ábyrgð og aðhald'»

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Umræður um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju hefur staðið með hléum í rúma öld. Allan tímann hafa rök með og á móti verið keimlík. Orðræðan hefur troðið marvaða. Eitt og eitt skref hefur þó verið tekið í átt að aðgreiningu eða jafnvel aðskilnaði. Continue reading 'Aðskilnaður ríkis og kirkju'»

Breyta þarf 62. gr. stjórnarskrárinnar!

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Í 62. gr. Stjórnarskrárinnar er að finna grunn að kirkjuskipan landsins. Greinin er barn síns tíma en hún á uppruna sinni í 45. gr. Sjórnarskrár um hin sjerstaklegu málefni Íslands frá 1874. Þá hljómaði greinin svo:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal hið opinbera að því leyti styðja hana og vernda.

Orðalagið mótaðist af því að Ísland var ekki sjálfstætt ríki á þessum tíma. Af þeim sökum er rætt um hið opinbera en ekki ríkisvaldið.

Ákvæðið um að lútherska kirkjan „skuli vera“ þjóðkirkja á Íslandi er afleiðing af hinu sama. Í dönsku stjórnarskránni frá 1849 sagði í 3. gr. (og segir enn í 4. gr.): „ Den evangelisk-lutherske Kirke er den danske Folkekirke og understøttes som saadan af Staten.“ Eins og fram kemur í textanum er hér aðeins um lýsingu á aðstæðum að ræða. Fram að stjórnarskránni hafði ekki ríkt trúfrelsi í Danmörku. Þjóðin var því lúthersk og lútherska kirkjan kirkja þjóðarinnar. Af þeim sökum þótti rétt og skylt að ríkið styrkti hana, þ.e. styddi við trúarlega menningu þjóðarinnar. Þar sem Ísland var hluti af danska ríkinu varð sama ástand að ríkja hér. Af þeim sökum var „lýsandi“ ákvæði dönsku stjónarskrárinnar gert að „fyrirskipandi“ ákvæði í stjórnarskránni um sérmál Íslands. Til þessa þarf að taka tillit við alla umræðu um 62. gr.

Einnig er nauðsynlegt að 62. gr. segi alla söguna um kirkjuskipanina hvað stjórnarskrána áhrærir. Svo er ekki nú. Í 62. gr. segir eins og flestir vita:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

Síða er haldið áfram í 79. grein (síðari hluta):

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Lágmarksbreyting á 62. gr. er því að hún verði þannig:

Hin evangeliska lúterska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum. Samþykki Alþingi breytingu á kirkjuskipuninni skal bera það mál undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Málfarið ber 19. öldinni óneitanlega vitni og það þarf að samræma stíl væntanlegrar stjórnarskrár.

Síðan verður auðvitað að ræða hvort evangelísk-lútherska kirkjan sé enn þjóðkirkja á Íslandi eða ekki. Það er í raun ekki atriði sem slegið verður föstu með stjórnarskrárákvæði heldur hvílir það á gagnkvæmum tengslum þjóðarinnar og kirkjunnar á fjölmörgum sviðum lífsins hvort sem þjóðin í heild eða einstaklingar eiga hlut að máli.

Tvær víddir 62. gr. stjórnarskrárinnar

Árni Daníelsson, 15. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er að finna svokallaða kirkjuskipan landsins. Þar segir:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

Fyrri liðurinn er óbreyttur frá 1874 og byggir á fyrirmynd úr dönsku stjórnarskránni frá 1849. Um miðja 19. öld var þetta frjálslynt og framsækið ákvæði sem greindi kirkjuna frá ríkinu og boðaði að þjóðin skyldi öðlast aukin áhrif í kirkjunni. Með þessu ákvæði tók því að örla á lýðræði í söfnuðunum.

Seinni liðurinn er viðbót frá 1914 sem ætlað var að gera kirkjuskipanina straumlínulagaðri. Ekki átti að þurfa þingrof, kosningar og staðfestingu nýs þings til að breyta kirkjuskipaninni eða fella hana úr gildi. Um 1920 var bætt við ákvæði sem nú er að finna í 79. gr. stjórnarskrárinnar og kveðið á um að yrðu slík lög sett skyldi bera þau undir þjóðaratkvæði.

Í 62 gr. stjórnarskrárinnar er ekki kveðið á um að íslenska ríkið sé lútherskt. Þvert á móti hurfu stjórnarskrárnar 1849 og 1874 frá slíku ákvæði enda mundi það ekki samræmast hugmyndum um nútímalegt lýðræðis- og fjölhyggjusamfélag.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er heldur ekki kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda evangelíska kirkju vegna þess að hún er lúthersk. Það væri mismunun.
Í 62. gr. stjórnarkrárinnar er aðeins kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda lúthersku kirkjuna að „því leyti“ sem hún er þjóðkirkja, það er kirkja þjóðarinnar eða yfirgnæfandi meirihluta hennar.

Hér er með öðrum orðum sagt að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þá kirkju sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra. Þetta er jákvæð mismunun sem oftast er rökstudd með yfirburðastærð kirkjunnar, langri sögu hennar með þjóðinni og fjölþættum félags- og menningarlegum hlutverkum sem þessi stóra kirkja gegnir og önnur trúfélög hafa ekki gengið inn í í sama mæli og hún. Eitt af þeim hlutverkum er að þjóna öllum sem til þjóðkirkjunnar leita í gleði eða þraut, koma til móts við alla af virðingu, einlægni og kærleika, án þess að spyrja um kirkjuaðild eða trúarsannfæringu.

Á stjórnlagaþingi þarf að ræða framtíð 62. greinarinnar í óbreyttri eða breyttri mynd — eða niðurfellingu hennar. Þá þarf að hafa í huga að hún hefur tvær víddir: Önnur lýtur að trúarpólitík og lögformlegri stöðu evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar. Hin er aftur á móti huglægari og lýtur að þjóðgildunum.

Hugsanlega fer afstaða margra til framtíðar 62. gr. eftir því um hvora vídd hennar er að ræða. Greinina þarf því að brjóta til mergjar, umorða og hugsanlega flytja framar eða aftar eftir atvikum. Svo er stóra spurningin hvort markmiðum hennar á 21. öldinni verði betur náð með allt öðrum hætti. — Það bíður til annars pistils að svara henni.

Maka fjölmiðlar krókinn á stjórnlagaþingi?

Árni Daníelsson, 15. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Frambjóðendum til stjórnlagaþings barst á dögunum póstur ofan úr Hádegismóum, síðan hafa fleiri fylgt í kjölfarið. Markaðsfulltrúi Morgunblaðsins sendi fyrstur tilboð þar sem segir að blaðið muni „að venju“ veita frambjóðendum 40 % aflátt á öllum auglýsingum en kannanir sýni að með auglýsingum á þess vegum sé mögulegt að ná til 90 % þjóðarinnar. Síðan er boðið upp á val á milli fimm pakka. Kostar sá dýrasti eina milljón og sá ódýrasti einn tíunda af þeirri upphæð. Tilboð annarra eru með ýmsu móti allt eftir eðli miðilsins

Sem frambjóðendum ber okkur að sjálfsögðu að þakka þjónustu og afslátt. Hér fara hagsmunir frambjóðenda og fjölmiðla væntanlega saman. Þegar frambjóðendur eru á sjötta hundrað er auðvitað eftir heilmiklu að slægjast og líklegt að tilboðin afli miðlunum og eigendum þeirra töluverðra tekna.

Hér er þó maðkur í mysu. Með orðalagi sínu dró Mogginn stjórnlagaþingið nefnilega inn í far þar sem það á ekki heima. Það er engin venja að kjósa til stjórnlagaþings. Það kjör er einstakt í sinni röð. Til slíkrar samkomu hefur ekki verið kosið áður hér á landi.

Venjan sem blaðið vísar til er venja sem mótast hefur við prófkjör gömlu flokkanna fjögurra, hanaslagur um sætin á listunum, uppboðsmarkaður þar sem fjármunir ráða mestu um hver fær athyglina og oft því miður þingsætin. Niður í þetta fen vill Mogginn með tilboði sínu draga kosningarnar til stjórnlagaþings og þar með þingið sjálft. Viljum við það? Væntir þjóðin þess af okkur að við bítum á agnið? Við megum samkvæmt opinberum viðmiðum til dæmis kaupa tvo stóra pakka af mbl.is!

Með auglýsingum er hægðarleikur að ná til 90 % þjóðarinnar, en með hvað? Því er fljótsvarað: Áróður. Málstaður verður aftur á móti ekki kynntur í auglýsingu.

Auglýsing rúmar ekki heila hugsun þegar um stjórnlög er að ræða, hvað þá hugsjón.
Til að halla ekki réttu máli skal þess getið að margir miðlar ætla einnig að bjóða fram aðra þjónustu en seldar auglýsingar í tengslum við kjörið og fyrir það skal þakkað.