Ábyrgð og aðhald

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það er misjafnt frá einu landi til annars hvernig stjórnmálamenn axla pólitíska ábyrgð. Víða er það svo að vakni grunur um að pólitíkus hafi á einhvern hátt misfarið með vald sitt, misnotað aðtöðu sína eða á annan hátt misstigið sig í hlutverki sínu verður hann eða hún að hugleiða stöðu sína og oftar en ekki fara frá, segja af sér. Þetta er stundum nefnt heiðursmannaafsögn. — Slík afsögn er oftast ekki endalok á stjórnmálaferli heldur þvert á móti nýtt upphaf. Sá eða sú sem axlar ábyrgð getur snúið aftur með endurnýjað traust, jafnvel orðið leiðtogi.

Hér á landi er þetta því sem næst óþekkt fyrirbæri. Stjórnmálamenn sitja oftast af sér bylinn í skjóli flokka sinna. Hafa t.d. einhverjir stjórnmálamenn axlað ábyrgð eftir Hrun?

Hér er pólitískri ábyrgð oft blandað saman við annars konar ábyrgð, t.d. persónulega ábyrgð eða jafnvel persónulega sök. Þessu verður þó að halda aðskyldu. Stjórnmálaforingi ber pólitíska ábyrgð langt umfram það sem hann eða hún framkvæmir persónulega, tekur ákvörðun um eða lætur undir höfuð leggjast að hafa afskipti af. Pólitísk ábyrgð hefur heldur ekkert með sekt eða sakleysi að gera og er aðeins að hluta til lögfræðilegs eðlis. Pólitísk ábyrgð er félagslegt fyrirbæri, náskyld trausti og trúverðugleika.

Í landi þar sem skilningur á pólitískri ábyrgð er takmarkaður og stjórnmálamenn eru tregir til að axla hana þarf að vera ljóst hvernig þeir verða kallaðir til ábyrgðar. Lög og reglur verða þó seint sett um það hvernig laskað traust skuli endurvakið enda er það fyrst og fremst mál þess eða þeirrar sem glatað eða fyrirgert hefur trausti sínu. Við þurfum aftur á móti að setja okkur ramma um það hvernig stjónmálamenn, einkum ráðherrar, verða kallaðir til ábyrgðar, jafnvel í lögformlegri merkingu, á einhverju sem hann eða hún hefur annað tveggja aðhafst ólöglega í embætti sínu eða vanrækt að gera af ásetningi eða fyrir mistök.

Lengi hafa stjórnmálamenn vísað til þess að í stjórnarskrá sé að finna ákvæði sem tryggi okkur aðhald með stjórnmálastéttinni, þ.e. forystumönnum hennar. Er þar átt við ákvæði 14. gr. stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð og landsdóm. Þess er skemmst að minnast þegar Alþingi stóð frammi fyrir þeirri prófraun að framkvæma þetta ákvæði. Þjóðarinnar er að meta hvort stjórnmálamenn stóðust prófið eða ekki. Að mati okkar varð niðurstaðan í öllu falli í þá veru að endurskoða þarf 14. gr. frá grunni. Það þarf að skerpa á ráðherraábyrgðinni, ganga þannig frá landsdómi eða þeim dómstól og/eða rannsóknarnefnd sem leysir hann af hólmi að hann sé hafinn yfir deilur og standist nútímakröfur. Þetta er einn af þeim hlutum stjórnarskrárinnar sem bitur reynsla undangenginna missera sýnir og sannar að skrifa þurfi frá grunni. Stjórnarskrá þarf að tryggja pólitískt siðgæði og ábyrgð í landinu.