Aðskilnaður ríkis og kirkju

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Umræður um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju hefur staðið með hléum í rúma öld. Allan tímann hafa rök með og á móti verið keimlík. Orðræðan hefur troðið marvaða. Eitt og eitt skref hefur þó verið tekið í átt að aðgreiningu eða jafnvel aðskilnaði.

Um miðja 19. öld hófst aðgreining ríkis og kirkju í danska ríkinu og fyrir alvöru hér á landi 25 árum síðar. Við gildistöku stjórnarskrárinnar 1874 komst hér á trúfrelsi og þjóðkirkja. Í lok 20 aldar var þjóðkirkjan loks skilgreind sem „sjálfstætt trúfélag.“ Þetta þýðir þó ekki að aðskilnaður hafi átt sér stað.

Margir möguleikar
Það er teygjanlegt hvað átt er við með aðskilnaði ríkis og kirkju og matsatriði hvenær hann hafi orðið. Áður en ákveðið er að skilja að ríki og þjóðkirkju þarf að marka stefnu um hvaða markmiðum skuli náð.

Er nægilegt að öll trúfélög hafi sömu stöðu í samskiptum við ríkisvaldið? Á ríkið engin afskipti að hafa af nokkru trúfélagi? Á að setja trúfélögum svo stranga ramma að tilveru þeirra sjái ekki stað í opinberu rými? Allt rúmast þetta undir aðskilnaði ríkis og kirkju. Sum módelin kæmu fastlega til álita. Önnur gætu brotið í bága við almenn mannréttindi ef þeim væri framfylgt til hins ýtrasta.

Í vestrænu lýðræðissamfélagi virðist ákjósanlegt að hið opinbera hafi sem minnst afskipti af trúmálum. Í velferðarsamfélagi má þó færa rök fyrir því að skilgreina þurfi a.m.k. ytri ramma um störf trúfélaga. Það er vegna þess að trúfélög geta auðgað velferðarkerfið en geta líka gengið nærri tilfinningum fólks. Slíkir rammar eru þeim mun mikilvægari því stærri og umsvifameiri sem trúfélög eru. Það er eitt af því sem mælir með tengslum og samstarfi hins opinbera og þjóðkirkjunnar.

Aðskilnaður frá sjónarhóli kirkjunnar
Frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar má færa ýmis rök sem mæla með aðskilnaði. Þau mikilvægustu eru að þannig mundi hún öðlast frelsi til að lifa og starfa einvörðungu á eigin forsendum.

Nú býr þjóðkirkjan hvorki við trúfrelsi né fullt félagafrelsi. Hún getur ekki hróflað við játningagrunni sínum og Alþingi ákveður meginþættina í stofnunarlegri uppbyggingu hennar. Hún hefur þegið það frelsi sem hún nýtur úr hendi Alþingis. Það getur með einföldum lagabreytingum skert það að nýju. Þetta er óásættanlegt þegar um minnihlutakirkjur er að ræða. Trú- og félagafrelsi er þeirra helgasti réttur. Frelsisskerðing kann hins vegar að vera réttlætanleg þegar meirihlutakirkja á í hlut og er eðlileg afleiðing af þjóðkirkjuskipan.

Aðskilnaður frá sjónarhóli annarra trúfélaga
Önnur trúfélög geta litið þjóðkirkju hornauga og fært rök að því að forréttindi hennar séu ósanngjörn. Þau verða þó að vega inn þá ókosti sem í þjóðkirkjuskipan flest. Ekkert mælir gegn því að fleiri en eitt trúfélag njóti þeirra gæða sem í þjóðkirkjuskipan felast en fyrir þau verður að gjalda það sem þau kosta — þ.e. frelsisskerðingu. Oft er miðað við að trúfélag sem nær til 5 % þjóðar hafi umtalsverð samfélagsáhrif og taka þurfi verulegt tillit til trúfélags sem nær til 10 %, t.d. með því að veita þeim að einhverju leyti hlutdeild í þeim stuðningi sem ríkið veitir þjóðkirkjunni.

Trúfélög sem náð hafa þeirri stærð og kynnu að vilja öðlast opinbera stöðu verða að gangast undir sömu frelsisskerðingu og hún með því að veita hinu opinbera mun meiri innsýn og jafnvel íhlutunarrétt í starf sitt en nú er. Margir frjálsir söfnuðir og trúfélög voru í upphafi einmitt stofnuð til að losna undan ríkisafskiptum og kjósa tæpast að snúa baki við þeirri sögulegu arfleifð sinni.

Þess ber að geta að þjóðkirkja hefur vegna stærðar sinnar og stöðu skyldum að gegna við önnur trúfélög. Henni ber að vera helsti málsvari trúfrelsis og berjast fyrir því að smærri trúfélög fái notið þess til fulls. Það eru ekki síst trúarhreyfingar sem starfa meðal nýrra Íslendinga og búa því ekki að sögulegri hefð í landinu sem þurfa á slíkum bakhjarli að halda. Þá ber þjóðkirkjunni að gæta þess í samvinnu við ríkisvaldið að forréttindastaða hennar skerði ekki frelsi þeirra sem standa utan vébanda hennar og ganga varlega fram gagnvart þeim.

Aðskilnaður frá sjónarhóli ríkisins
Ríkið hefur einkum tvær ástæður til að huga að aðskilnaði. Önnur er sú að verða betra lýðræðis- og jafnréttisríki. Hin er hugsanlegur sparnaður.

Túlki ríkisvaldið skyldur sínar til að styðja og vernda þjóðkirkjuna of víðtækum skilningi getur það þrengt að öðrum trúfélögum. Einnig gæti verið að svo dragi saman með þjóðkirkjunni og öðru eða öðrum trúfélögum hvað stærð eða félagsleg hlutverk snertir að sérstaða þjóðkirkjunnar taki að orka tvímælis. Hér á landi virðist langt í þær aðstæður en komi þær upp eru tvær leiðir færar: Að auka aðskilnað ríkis og þjóðkirkju með því að draga úr sérstöðu hennar eða að veita þeim trúfélögum sem til greina kæmu hlutdeild í þeim kostum sem felast í stöðu þjóðkirkjunnar. Þ.e.a.s. ef þau eru fús til að kaupa þá stöðu með óskoruðu frelsi sínu. Sé sú leið farin kæmi til greina að ræða fremur um samstarfskirkjur en þjóðkirkjur en með því er átt við kirkjur sem starfa í samvinnu við ríkisvaldið t.d. á grundvelli laga og/eða samninga. Í þjóðkirkjuskipan eins og hún er nú felst mismunun trúfélaga. Í þjóðkirkjuskipaninni felst hins vegar ekki að ríkisvaldið þurfi að mismuna trúfélögum. Þvert á móti er ríkinu heimilt að styja öll trú- og lífsskoðunarfélög. Það ætti ríkisvaldi e.t.v. að gera ef litið er svo á að þau gegni raunhæfu hlutverki í velferðarsamfélagi 21. aldar.

Spurningin um sparnað af aðskilnaði ríkis og kirkju er flóknari. Þar til í byrjun 20. aldar var þjóðkirkjan sjálfbær stofnun sem stóð undir eigin rekstri með tekjum af eignum sínum. 1907 afhenti hún ríkinu forræði yfir meginþorra eignanna og sætti sig við að um 1/5 af prestaköllum hennar væri lagður niður gegn því að ríkið ábyrgðist launakostnað þeirra presta sem eftir voru. Út úr þessari 100 ára gömlu sögu getur ríkisvaldið ekki bakkað með því að láta eins og ekkert hafi gerst. Við aðskilnað yrði það að sjálfsögðu að skilja svo við kirkjuna að hún gæti að nýju staðið á eigin fótum. Það er ekki ljóst að slíkt uppgjör fæli í sér sparnað a.m.k. til skamms tíma litið.

Aðskilnaður frá sjónarhóli samfélags og þjóðar
Almennt hljótum við að spyrja hvort hér yrði betra samfélag eða betra þjóðlíf — hollara mannlíf — ef öll tengsl ríkis og trúfélaga yrðu rofin og trúfélögin e.t.v. útilokuð úr opinberu rými eins gert yrði ef keppt væri að „fullum aðskilnaði“. Rök kunna að vera til fyrir því. Þessháttar fyrirkomulag hefði þó ýmsa ókosti. Trúfélög óháð stærð gætu þá lokað sig af, myndað félags- og menningarkima, sem fremur skaða en styrkja samfélagsheildina. Það er að gerast í löndunum umhverfis okkur þar sem trúarlegu tjáningarfrelsi er að ýmsu leyti sniðinn þrengri stakkur en áður. Slíkt ástand kallar fremur fram spennu en aðlögun. Trúarbrögð verða að líkindum sterkari áhrifavaldar í samfélaginu en var á 20. öldinni. Margt bendir til að hugmyndin um hið veraldarvædda samfélag sé í blindgötu.

Við kunnum og að vera stödd í þeim aðstæðum að í nánustu framtíð muni reyna meira á samhjálp, sjálfboðið starf og velferð sem byggir í ríkari mæli á óformlegu samfélagslegu neti en tíðkast hefur á næstliðnum áratugum er ríkið hefur að mestu verið ábyrgt fyrir velferðinni. Við slíkar aðstæður gegna trúfélög mikilvægu hlutverki, ekki síst gömul, stór og sterk trúfélög — hafi þau ekki misst sjónar á eðli sínu og köllun og orðið stofnanir meðal annarra ríkisstofnana. Þjóðkirkjan er góðu heilli þegar farin að laga sig að þessum breyttu aðstæðum með aukinni kærleiksþjónustu og hjálparstarfi. Slíkt mælir fremur með en móti tengslum hennar við ríkisvaldið.